141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

363. mál
[15:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, sem er á þskj. 420, 363. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun sem sinnir fóður-, áburðar- og sáðvörueftirliti samkvæmt lögum. Frumvarp með sama heiti var lagt fram á 140. löggjafarþingi en fékk þá ekki afgreiðslu.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til eftirfarandi breytingar frá fyrra frumvarpi:

Í fyrsta lagi er í 3. gr. frumvarpsins sérstaklega áréttað að til framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs þarf einnig leyfi Lyfjastofnunar.

Í öðru lagi er í 11. gr. frumvarpsins áréttað að brot gegn lögunum þurfa að vera framin af stórfelldu gáleysi svo varði sektum eða fangelsi.

Breytingarnar fela ekki í sér efnislegar breytingar heldur er einungis verið að gera frumvarpstextann skýrari og taka af öll tvímæli um túlkun. Með frumvarpi þessu er því lagt til að lagaheimildir Matvælastofnunar vegna eftirlits með áburði verði styrktar og þær gerðar skýrar og ótvíræðar. Við lögin bætist nýr kafli með fimm nýjum ákvæðum um áburð. Gert er ráð fyrir skýrri lagaheimild fyrir Matvælastofnun til að krefja áburðarfyrirtæki um vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Lagt er til að tekið verði upp nýtt ákvæði í lögin sem geri ráð fyrir skýrri heimild fyrir Matvælastofnun til að afskrá áburð vegna breytinga á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðarins.

Kveðið er skýrt á um að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á tilkynningu til Matvælastofnunar ef áburður samræmist ekki kröfum um efnainnihald, eiginleika áburðarins eða öryggi. Stjórnandinn skal gera ráðstafanir til úrbóta og ef áburðurinn telst ekki öruggur til notkunar skal hann taka umræddan áburð af markaði. Samkvæmt ákvæðinu telst áburður ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verði óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal jafnframt, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem hafa þegar verið afhentar.

Þá er í frumvarpinu áréttað að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma séu uppfylltar og að hann skuli sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

Í frumvarpinu er það nýmæli að áburðareftirlit skuli meðal annars byggjast á áhættugreiningu. Skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna.

Þá eru í frumvarpinu nokkur önnur ákvæði. Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi aðrar breytingar á ákvæðum laganna um fóður-, áburðar- eða sáðvörueftirlit. Lagt er til í frumvarpinu að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni sem nú eru á verksviði Matvælastofnunar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Sambærilegt ákvæði um framsal er í lögum um matvæli.

Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um að þau fóðurfyrirtæki sem framleiða lyfjablandað fóður skuli hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Núverandi starfsemi hérlendra fóðurfyrirtækja hefur ekki falið í sér þess háttar starfsemi en þó er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að slík starfsemi verði stunduð hérlendis.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að við lögin bætist einnig ný málsgrein þar sem áréttuð er ábyrgð fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu. Jafnframt er kveðið skýrt á um upplýsingaskyldu fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækis vegna skráningar vörunnar.

Lagt er til að fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri tilkynni Matvælastofnun ef í umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóðurfyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum. Í gildandi ákvæði laganna er einungis kveðið á um fóðursýni en ekki umhverfissýni.

Lögð er til breyting á efnisákvæðum laganna um þvingunarúrræði Matvælastofnunar. Ákvæðið er þannig gert skýrara og tekin af öll tvímæli um heimildir Matvælastofnunar til að afskrá vöru, stöðva inn- og útflutning vöru og innkalla vöru af markaði svo dæmi séu tekin.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Matvælastofnun fái heimildir til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laganna. Slík ákvæði eru nú í ýmsum lögum og því eðlilegt að Matvælastofnun fái slíkar heimildir með sama hætti og aðrir eftirlitsaðilar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ákvæði um refsiviðurlög verði gerð skýrari og samræmd sambærilegum ákvæðum í öðrum lögum. Þannig eru tiltekin brot gegn ákvæðum laganna lýst refsiverð og er sú háttsemi tilgreind sérstaklega. Gert er ráð fyrir því að aðeins alvarlegustu brot á lögunum verði gerð refsiverð.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og atvinnuveganefndar og hygg að ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð. Þetta frumvarp er ekki flutt nema af gefnu tilefni og ríkri ástæðu til þess að betrumbæta framkvæmd þessara mála þó að ýmislegt hafi þegar verið að gert í þeim efnum, svo sem að auka upplýsingaskyldu í tengslum við atburði sem alltaf má búast við að geti komið upp þar sem frávik hefur orðið frá því að varan sé sú sem til standi eða notuð í því skyni sem ætlunin er. Matvælastofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið taka sitt hlutverk í þessum efnum mjög alvarlega og ég leyfi mér að binda vonir við að málið fái góða úrlausn hér á þinginu þannig að við séum betur í stakk búin hvað varðar lagaákvæði og regluverk til þess að takast á við stjórnsýslu á þessu sviði.