141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Eina leiðin til að sporna við fólksfækkun á landsbyggðinni er að færa þjónustu tekjustofna og ákvarðanatöku út á land og snúa þannig við þróuninni sem hefur orðið á undanförnum árum og birtist í því að um 40% tekna ríkissjóðs er aflað á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eyðir um 70%.

Síðustu ár hefur þjónusta eins og heilbrigðisþjónusta í vaxandi mæli verið færð undir Landspítalann í nafni niðurskurðar. Þjónustuskerðingin í heilbrigðiskerfinu hefur þýtt að margt landsbyggðarfólk þarf að ferðast langar vegalengdir og dvelja langdvölum á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá spítalaþjónustu sem er ekki ýkja flókin. Ég nefni sem dæmi fæðingarþjónustu. Þeir sem búa við góða sjúkrahúsþjónustu úti á landi njóta hennar oft vegna nálægðar við stóriðju enda gerir stóriðja kröfu um að gott sjúkrahús sé í klukkustundarradíus frá verksmiðjunni.

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa stórir málaflokkar eins og málefni aldraðra og fatlaðra verið færðir til sveitarfélaganna. Reynslan af þessari yfirfærslu er að stjórnsýslan verður eftir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að mörg sveitarfélög ráða ekki við hana vegna smæðar sinnar. Veiðigjaldið hefur auk þess verið gagnrýnt fyrir að vera í raun sérstakur landsbyggðarskattur.

Mikilvæg leið til að efla þjónustustigið, atvinnulífið og lýðræðið á landsbyggðinni er að koma á svokölluðum svæðisþingum. Verkefni svæðisþinganna yrði að sjá um úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið.