141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

hagvöxtur og hækkun stýrivaxta.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað margar hliðar á atvinnuleysinu og þeim tölum sem alltaf eru reiddar fram í því máli. Hin svarta atvinnustarfsemi á örugglega sinn þátt í þessum tölum að því er varðar atvinnuleysi, fólk er í námi o.s.frv. Staðreyndin er sú að allt þetta ár hefur atvinnuleysi verið 1,5–1,9% lægra en árið 2011. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið í þeim efnum.

Varðandi fjárfestingaráætlunina sem hv. þingmaður nefndi fannst mér hann taka undir það að við værum þar á réttri leið. Þó skildi ég ekki af hverju hv. þingmaður nefndi ljóðskáld í því sambandi. Ekki er hann á móti því aukna fjármagni sem við leggjum í skapandi greinar. Það er ný stefna í atvinnumálum. Við horfum ekki bara á stóriðjueinstefnu heldur horfum við á skapandi greinar. Við horfum á grænan hagvöxt, við horfum á (Forseti hringir.) að auka framlög í vísindasjóði og nýsköpun. (Gripið fram í.) Það er auðvitað sú leið sem við eigum að fara í atvinnumálum en ekki sú leið að einblína á stóriðju eins og hv. þingmaður og flokkur hans gerir. (Gripið fram í.)