141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja umræðu um þetta mikilvæga mál. Hér hefur margt gott komið fram í umræðunni.

Það leikur enginn vafi á því að umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi eru að aukast hér sem annars staðar og lögregluyfirvöld eru vakandi yfir þessari þróun og þykir full ástæða til að vera á varðbergi, en skipulögð glæpastarfsemi er óumdeilanleg ógn við samfélagslegt öryggi. Það er dapurlegt hvernig þessi starfsemi hefur skotið rótum á landinu okkur nánast að óvörum en við erum frekar varnarlaus sem samfélag.

Mitt helsta áhyggjuefni sem snýr að skipulagðri glæpastarfsemi varðar vændi og mansal. Samfélagið er varnarlítið gagnvart slíku nútímaþrælahaldi sem mansal er. Í mínum huga er mansal ein mesta ógn við lýðræðisskipulag á Vesturlöndum. Mansal er líka þriðja stærsta tekjulind skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum á eftir vopna- og fíkniefnasmygli.

Á síðasta þingi, eins og hér hefur komið fram, lagði hv. allsherjar- og menntamálanefnd fram þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þar kemur meðal annars fram að hér á landi hafi slík starfsemi verið tengd stórtækum fíkniefnabrotum, grófu ofbeldi o.fl. en vísbendingar eru um að brotasamtök hafi aðkomu að mansali og vændi. Ekki er bara um að ræða erlenda glæpahópa því að vísbendingar eru um að Íslendingar komi að skipulögðum vændisinnflutningi. Að versla með konur og börn er því miður ábatasöm starfsemi og því verðum við að breyta.

Fram kom hjá innanríkisráðuneytinu á fundi allsherjar- og menntamálanefndar að það vantaði 300–350 millj. kr. til að halda í horfinu og 200 í viðbót til að bregðast við bráðavandanum. Mat á ástandinu er sýnu verra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum gengið of nærri löggæslunni og því miður er staðan sú um hinar dreifðu byggðir landsins að lögreglumenn, eins og hér hefur komið fram, eru stundum einir á vakt og yfirferð um svæði óheyrilega mikil. Þegar starfsmenn eru aðeins tveir á vakt og annar veikist þá er sá sem eftir stendur á vakt og líka á bakvakt. Það sjá allir að við þessu verður að bregðast. Þetta hefur áhrif á öryggi lögreglumanna. Þeir fara oft einir í útköll (Forseti hringir.) sem virðast einföld og venjubundin í upphafi en snúast upp í andhverfu sína þegar á hólminn er komið.

Ég treysti því að innanríkisráðherra og ríkisstjórnin bregðist við þessum bráðavanda því að öll treystum við á löggæsluna með einum eða öðrum hætti.