141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

skipulögð glæpastarfsemi og staða lögreglunnar.

[11:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Höfum fyrst eitt á hreinu: Löggæsla er að mati þess sem hér stendur mikilvægur hluti af velferðarþjónustunni og eitt af lykilhlutverkum ríkisins er að gæta öryggis íbúanna og halda þeim frá ótta, þeirri óþægilegu tilfinningu.

Höfum jafnframt annað á hreinu: Við urðum að skera verulega niður í ríkisútgjöldum eftir efnahagshrunið og við þurftum að skera mjög óþægilega niður. Það er af þeim sökum sem hæstv. ráðherra hefur unnið við afar óþægilegar aðstæður, en við urðum að skera niður. Það hefði farið verr ef við hefðum ekki gert það. Þess vegna blasir sú staðreynd við að lögreglan hefur þurft að hagræða í sínum ranni ekki síður en aðrir. Samt sem áður höfum við skorið mun minna niður þar en á öðrum póstum.

Frú forseti. Sem varaformaður hv. fjárlaganefndar tek ég undir þær óskir að verja þurfi meiri fjármunum til löggæslunnar og mynda þar einhvers konar pott vegna þess að ég tel að löggæslan sé hluti af þeim viðkvæmu póstum sem þarf að koma til móts við. Þeir eru nokkrir en það ber hins vegar ekki að hlusta á allar þær kröfur sem nú eru uppi um meiri umframeyðslu.

Ég legg jafnframt áherslu á að lögreglan fái þær heimildir sem almennt eru til staðar í löndunum í kringum okkur til að stemma stigu við útbreiðslu ólöglegrar starfsemi. Hana ber að uppræta og freista þess með öllum ráðum. Við sjáum að hún hefur fest rætur hér á landi og það er miður. Því hvet ég hæstv. ráðherra til að hlusta á fagmenn í þessu efni, (Forseti hringir.) löggæsluna sjálfa, vegna þess að það er ekki sjálfgefið að aðrir partar samfélagsins hafi fullar heimildir til að líta eftir samfélaginu, þ.e. skatturinn, Fjármálaeftirlitið o.fl. (Forseti hringir.) sem fylgjast náið með samfélaginu, en lögreglan fái ekki sambærilegar heimildir til þess.