141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Geirsson telur best að byrja heima fyrir. Ég bendi hv. þingmanni á að niðurskurður á Alþingi er töluvert meiri heldur en vöxturinn sem orðið hefur í stjórnsýslunni hjá ráðuneytunum, svo að það sé nú sagt, þannig að Alþingi hefur tekið til heima hjá sér.

Ég ætla líka að minna hv. þingmann á að sú sem hér stendur lagði til að þær 190 millj. sem meiri hluti fjárlaganefndar var tilbúinn að leggja í rannsóknarnefndirnar yrðu látnar bíða og fornleifauppgröfturinn tekinn fyrir. Það er eitt af því sem þingmenn verða sjálfir að velta fyrir sér. Þegar þeir samþykkja í þinginu allar þær rannsóknir sem þeir óska eftir að farið verði í þarf sjálfsagt að skoða hvernig við ætlum fjármagna það vegna þess að við tökum ákvörðun um eitthvað sem ekki eru til fjármunir fyrir. Við viljum að farið sé í verkefnið strax án þess að fjármagn liggi fyrir. Það er eitt af því sem ég get verið sammála hv. þingmanni um að við þurfum að skoða.

En Alþingi og alþingismenn geta ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu, virðulegur forseti, ef þeir fá ekki þær upplýsingar sem þeir óska eftir til að geta sinnt því. Það þurfum við að lagfæra og því fyrr sem við gerum það því betra að mínu mati. Við getum karpað um hvort hlutirnir hafi verið einhvern veginn, fortíðina ráðum við ekki við en sem þingmenn getum við reynt að horfa til framtíðar og hvernig við ætlum að fara inn í hana og halda utan um það hlutverk sem okkur ber: Að setja ábyrg fjárlög, ganga frá fjáraukalögum í þeirri trú að þau standist og sinna eftirlitshlutverki okkar.