141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í nýlegu svari hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn um framboð háskólanáms á Austurlandi kemur fram að Austurbrú hafi á undanförnum árum boðið íbúum Austurlands upp á fjarnám á háskólastigi í gegnum starfsstöðvar sínar víða í fjórðungnum. Áhersla hefur verið á aukið námsframboð háskóla í formi dreifnáms enda telur ráðherrann mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytt nám í heimabyggð þar sem eftirspurn og forsendur eru til staðar.

Til að nýta slík úrræði þarf aðgengi nemenda að framhaldsskólanámi einnig að vera gott. Undanfarin missiri hefur nokkuð farið fyrir umræðu um framhaldsskóladeild á Vopnafirði þar sem ungmennum byðist tveggja ára nám í heimabyggð í námsveri líkt og þegar hefur verið gert á nokkrum stöðum á landinu og hefur gengið með ágætum. Frá Vopnafirði þarf að fara um fjallvegi og öræfi til að fara í framhaldsskóla og líklega þarf enginn hópur að sækja sér menntun um jafnlangan veg og þau börn sem koma frá Vopnafirði.

Á aðalfundi Foreldrafélags Vopnafjarðarskóla var gerð ályktun og segir þar, með leyfi forseta:

„Aðalfundur foreldrafélags Vopnafjarðarskóla haldinn 17. september 2012 hvetur menntamálayfirvöld til þess að sett verði á stofn framhaldsskóladeild á Vopnafirði og að nú þegar verði haldið áfram nauðsynlegum undirbúningi í samstarfi við menntamálaráðuneytið, framhaldsskólana á Austurlandi og sveitarstjórn svo það megi gerast eigi síðar en haustið 2013. Ljóst er að afstaða menntamálaráðherra og Alþingis ræður úrslitum um að af þessu geti orðið.“

Í könnun sem gerð var meðal foreldra grunnskólabarna kemur fram mikill áhugi á slíku námsfyrirkomulagi og sveitarfélagið hefur alla aðstöðu og menntaða framhaldsskólakennara til að styðja við starfið. Það er afar mikilvægt að börn okkar hafi val um að stunda nám í heimabyggð í öryggi fjölskyldu sinnar og vina. Unglingsárin eru mikilvægur þroskatími og handleiðsla og stuðningur foreldra mikilvægur unglingum í vegferð sinni til aukins sjálfstæðis og fullorðinsáranna.

Þar sem ég hef reynslu af slíku fyrirkomulagi í mínu sveitarfélagi, Fjallabyggð, tel ég að slíkt aðgengi skipti sköpum fyrir nemendur og foreldra í litlum sveitarfélögum. Frekar er hægt að sporna við brottfalli, og fjölbreytni í félags- og menningarstarfi eykst sem aftur hefur jákvæð áhrif á búsetuþróunina og líkur aukast á því að ungt fólk setjist að til frambúðar. (Forseti hringir.) Því hvet ég mennta- og menningarmálaráðherra til að svara ákalli nemenda og foreldra í Vopnafirði og sjá til þess að slíkt nám verði í boði frá og með næsta skólaári.