141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður hafi spáð rétt fyrir um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá. Það er hins vegar alveg ljóst af ummælum margra samherja hv. þingmanns að dæma, samherja í því að leggja fram þessa spurningu, að niðurstaðan kom þeim á óvart og var því fólki vonbrigði.

Það skýrir kannski ýmislegt, virðulegur forseti, um stöðu þessa máls ef hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar veit ekki einu sinni hvað víðtæk sátt er. Hv. þingmaður spyr mig hér: Hvað er víðtæk sátt? Er það að minni hlutinn ráði? Nei, það er ekki víðtæk sátt. Víðtæk sátt er að menn vinni saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það hefur verið meginregla við breytingar á stjórnarskrá. Var það ekki meginreglan í vinnu stjórnlagaráðs? Einsettu menn sér ekki að komast þar að sameiginlegri niðurstöðu? Knúði minni hlutinn þar eitthvað í gegn eða meiri hlutinn? Ég þekki það svo sem ekki það vel að ég geti úrskurðað um það en af lýsingum stjórnlagaráðsfulltrúa að dæma var markmiðið að ná víðtækri sátt innan stjórnlagaráðsins. Á það ekki að vera markmið þingsins líka að ná víðtækri sátt um breytingar á stjórnarskránni? Hvers vegna er þá hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hamra á því að meiri hlutinn eigi að ráða þessu á endanum? Ef minni hlutinn sætti sig ekki við þær breytingar sem meiri hlutinn vilji gera verði bara að hafa það, þá fari málið í atkvæðagreiðslu og meiri hlutinn ráði. Þannig hafa breytingar á stjórnarskrá ekki verið unnar fram að þessu. Þær hafa verið unnar í víðtækri sátt.