141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sérfræðingahópurinn hafi gert mjög athyglisverða breytingu á þessu tiltekna ákvæði í tillögu stjórnlagaráðsins. Málið er nú fyrst að fá efnislega umræðu í þinginu og ég geri ráð fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái þann tíma sem hún þarf til að rýna þessa þætti. Ég dreg þetta fram sem dæmi um atriði sem varpar í raun ljósi á það hvers konar breytingar er hér um að ræða. Að mínu áliti getur ekki komið til greina að vilji menn gera stórkostlegar breytingar á grundvallarstjórnskipan þjóðarinnar, eins og til dæmis ef sú tillaga kæmi fram um að afnema þingræði í landinu eða eitthvert slíkt viðamikið atriði, fái það ekki sömu meðhöndlun og þau mikilvægu ákvæði sem eru í mannréttindakaflanum.

Ég hef áhuga á áliti hv. þingmanns á þessu, en ég nefni þetta til að sýna fram á (Forseti hringir.) hvaða umræða er fram undan í þinginu. Þetta er dæmi um það.