141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður farið í gegnum það að ég tel mjög mikilvægt að við reynum eins vel og hægt er að fylgja tillögum stjórnlagaráðs. Ég hef jafnframt sagt að komi fram sterk rök fyrir því að breyta efnislega með einu eða öðru móti þeim ákvæðum sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs, og fyrir því séu færð mjög sterk rök, þá eigum við að skoða það með jákvæðum hætti.

Ég hef verið að kalla eftir því að sérfræðingar fari vel yfir þessi mál og það er alveg rétt að gerðar voru 75 breytingar af þeim sérfræðingum sem voru settir til verka á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það voru margar tæknilegar breytingar en líka aðrar ábendingar sem eru efnislegar breytingar. Ég tel að við eigum til dæmis að skoða mjög vel stjórnskipunarkaflann sem fer til Feneyjanefndarinnar til skoðunar (Forseti hringir.) og fara vel yfir það álit sem kemur frá henni. Við eigum eins og við getum að reyna að halda okkur við (Forseti hringir.) þær tillögur sem koma frá stjórnlagaráði. En ég er ekki að útiloka neinar efnisbreytingar, ég hef sagt það alveg skýrt.