141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá er spurningin: Hvernig breytir maður hefðum? Hvernig fær maður fólk til að haga sér öðruvísi ef maður vill að fólk hagi sér öðruvísi? Gerir maður það með því að breyta vinnubrögðum? Haga sér til dæmis öðruvísi hér á Alþingi? Að gera sér grein fyrir því hvernig staðan er í tilteknum málum og ræða það við hina flokkana á þeim grundvelli í stað þess að ýta alltaf eigin skoðunum fram? Eða gerum við það með því að hræra í stofnunarstrúktúrnum sjálfum og halda að það muni kalla þessar breytingar fram? Það er eiginlega það sem hv. þingmaður er að kalla eftir?

Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni að vinnulagi á Alþingi er um mjög margt ábótavant en ég held að ef við ætlum að breyta verðum við bara að byrja á okkur sjálfum. Það verður að gerast hjá okkur sjálfum og í störfum okkar frá degi til dags. Ég held að það muni ekki gerast með því að keyra í gegn strúktúrbreytingu sem menn eru ekki tilbúnir til að fara eftir ef marka má vinnubrögð á þinginu.