141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skyldi þó ekki gerast eftir næstu alþingiskosningar að í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sæi nýkjörið Alþingi sig knúið til að fella stjórnarskrárbreytingar sem verða hugsanlega samþykktar í vor, það skyldi þó ekki verða raunin þar sem vinstri menn hafa verið við stjórn og ætla að koma stjórnarskrá sinni í gegnum þingið. Það kemur nýr þingmeirihluti sem þarf að staðfesta stjórnarskrárbreytingarnar eftir þingkosningar, nýtt þing, nýir þingmenn og það er í þeirra valdi hvort ný stjórnarskrá tekur gildi eða ekki. Hv. þingmenn vinstri flokkanna skulu átta sig á því. Þess vegna þýðir ekki að beita ofbeldi í þinginu og segja að þetta verði afgreitt á meirihlutaatkvæðum nokkurra þingmanna. Ég tel að vinstri menn átti sig ekki á alvarleika málsins, alls ekki.

Svo er kallað hér eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni. Ég nefni til dæmis endurskrift á þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi frá Ágústi Þór Árnasyni og Skúla Magnússyni (Forseti hringir.) lögmönnum sem hafa lagt til glæsilegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Það er það sem við eigum að ræða, [Hlátur í þingsal.] að breyta núgildandi stjórnarskrá en ekki skrifa nýja. Gaman að heyra hvað allir vinstri menn hlæja við þessa ræðu mína. (Gripið fram í: Ég er ekki vinstri maður.)