141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:04]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átti hins vegar ekki bara við hann úr stjórnarliði því að ég hef tekið eftir þessu meðal annarra og jafnvel úr hópi minnihlutamanna.

Ég hjó eftir orðum hv. þingmanns um það að við værum ekki í spreng með að klára þetta mál. Þar held ég að hann eigi samhljóm í hópi minnihlutaþingmanna því að menn hafa talað fyrir því að ekki liggi lífið á að klára þetta fyrir kosningar heldur ættum við að vinna þetta vel og vandlega. Ég tek undir það.

Mig langar bara að spyrja innan úr nefndinni: Hvað ætla menn langan frest fyrir umsagnaraðila að skila inn umsögnum sínum? Erum við að tala um vikur, daga? Það væri ágætt að fá sjónarmið innan úr nefndinni hvað það varðar. Ég hef heyrt að umsagnaraðilar mundu helst vilja 4 til 6 vikur til að gera vönduð álit um þetta frumvarp.