141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég vil fyrst segja að ég hef stutt það ferli sem hefur staðið yfir allt frá því að stjórnarskrárnefnd var sett. Alþingi skipaði stjórnlagaráð í kjölfar kosningar, síðan hafa niðurstöður stjórnlagaráðs verið lagðar í dóm þjóðarinnar í leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu, farið hefur verið yfir þær lögformlega og nú er mælt fyrir málinu. Framhaldið er að ólíkir hlutar þess fari til allra nefnda Alþingis. Mér finnst mjög mikilvægt að allir þingmenn taki þátt og taki afstöðu í þessari umræðu. Mig langar að nefna nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að við ræðum.

Fyrst langar mig að nefna þær greinar sem standa framarlega í frumvarpinu og ég tel mjög mikilvægar. Þær varða tjáningar- og upplýsingafrelsi, upplýsingarétt og frelsi menningar og mennta sem ég styð mjög að sé fest í sessi í stjórnarskrá. Í fyrra voru samþykkt lög um háskóla þar sem sérstaklega var kveðið á um fræðilegt sjálfstæði, sem við köllum líka akademískt frelsi. Ég tel að þarna sé verið að festa það líka í sessi í stjórnarskrá.

Ég nefni kafla um menntun og menningarverðmæti. Íslensk tunga er vissulega nefnd í aðfaraorðum en eins og ég nefndi áðan í stuttri umræðu um íslenska tungu hefði ég talið eðlilegt að sérstaklega væri kveðið á um stöðu hennar í 32. gr. þar sem er talað um menningarverðmæti og að mikilvægi tungunnar sem menningarverðmæti fyrir þjóðina væri undirstrikað. Næsta grein á eftir er um náttúru Íslands og umhverfi. Það er svo merkilegt að við Íslendingar búum í raun við þá einstöku stöðu að geta rakið sögu okkar aftur til landnáms hvað varðar tunguna og þróun hennar. Þótt margir kveinki sér yfir því að lesa forníslensku held ég að flestir geti nú komist fram úr henni, geti stautað sig fram úr henni, af því það hefur verið samfella í þróun tungumálsins, mun meiri samfella en til að mynda annars staðar á Norðurlöndum þar sem tungumálin hafa breyst meira. Hið sama má kannski að einhverju leyti segja um náttúruna því að breytingar á náttúru Íslands af mannavöldum hafa verið mun minni en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Þess vegna eigum við okkar ósnortnu víðerni sem eru mjög mikilvæg í alþjóðlegu samhengi. Hver sá sem hefur flogið yfir Evrópu og horft á landslagið þar sem öllu er skipt upp í ferhyrnda manngerða reiti og horfir svo á Ísland úr lofti sér þetta hreinlega myndrænt. Mér finnst fara vel á því að greinarnar um menningarverðmæti og náttúru standi hér saman því að ég tel að við eigum í þessum verðmætum órofna sögu sem skiptir máli að við verndum og verjum.

Ég vil líka að sjálfsögðu nefna ákvæði um auðlindir í náttúru Íslands sem sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar sem ég tel gríðarlega mikilvægt. Það gladdi mig sérstaklega að sjá þann mikla stuðning sem þetta ákvæði fékk í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Um þetta höfum við rætt oft á þingi á undanförnum árum, en ég tel að þeir sem tjáðu sig um þessi mál í atkvæðagreiðslunni hafi að minnsta kosti haft mjög skýra sýn á þetta. Ég tel að það væri okkur til mikillar farsældar ef þetta ákvæði færi inn í stjórnarskrá.

Mig langar líka að nefna 39. gr. um alþingiskosningar. Ég veit að hér í þingsal hefur verið til umræðu hversu mikið af því sem rætt er um í þeirri grein eigi heima í stjórnarskrá og hvað eigi heima í kosningalögum. Ég tel mikilvægt að hv. þingmenn ræði þau atriði þar sem sérstaklega er kveðið á um kjördæmaskipan og annað slíkt. Það er spurning hversu mikið af atriðum hér má kalla grundvallaratriði í fyrirkomulagi kosninga og hversu mikið snýst um útfærslu.

Þetta tel ég að megi ræða betur og kanna hvort sumt af þessu sé fullítarlegt í útfærslu í sjálfri stjórnarskránni.

Ég vil hins vegar taka fram að ég hef ekki komist að niðurstöðu í þessu efni en mér finnst mjög mikilvægt að yfir þetta sé farið. Þarna eru lögð til ákveðin grundvallarsjónarmið eins og til að mynda að atkvæði kjósenda vegi jafnt, en síðan er rætt um að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi, flest átta. Ég velti því fyrir mér hvort fjöldi kjördæma í landinu og að þau séu flest átta sé eitthvað sem eigi heima í stjórnarskrá. Hið sama má segja um breytingar á kjördæmamörkum sem er vísað til að þurfi að samþykkja með 2/3 hluta atkvæða á Alþingi, það er spurning hvort einhverjar þessara breytinga eigi frekar heima í kosningalögum sem séu svo samþykkt með auknum meiri hluta eins og lagt er til í síðari hluta 39. gr.

Ég veit að þegar stjórnlagaráð kom saman og ræddi þessi mál voru margir möguleikar ræddir. Eitt af því sem þar var rætt sneri að hreinu lýðræði og kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. annars vegar framkvæmd undirskriftarsöfnunar og hins vegar þingmála að frumkvæði kjósenda. Eitt sem rætt var, eftir því sem ég fylgdist með, var að minni hluti þings gæti skotið málum í þjóðaratkvæði. Niðurstaðan varð sú að hafa það ekki í stjórnarskrá heldur eingöngu að hluti kjósenda gæti gert það eða forsetinn.

Mér finnst mikilvægt að við ræðum hvaða aðferðir séu best til þess fallnar að tryggja að þjóðaratkvæðagreiðslur séu haldnar þegar það er talið brýnt, og hvort þingheimur eigi enga aðkomu að því. Mér finnst mikilvægt að við ræðum það í ljósi þess að þetta var eitt af því sem var mjög til umræðu og síðan enduðu málin svona. Eftir því sem mér hefur skilist héldu ýmsir hinu sjónarmiðinu fram, þ.e. að það væri allt eins eðlilegt að minni hluti þingheims gæti skotið málum til þjóðarinnar.

Mig langar líka að nefna 87. gr. um ríkisstjórn. Í henni er atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við skýrum nánar. Þar segir að ríkisstjórn taki ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Þetta þýðir að ríkisstjórn er fjölskipað stjórnvald í svokölluðum mikilvægum eða stefnumarkandi málum en ekki í öðrum.

Mér finnst þetta ákvæði kalla á ákveðna flækju. Hvaða mál eru mikilvæg og stefnumarkandi? Jú, það á að setja lög um það. Getum við séð fyrir hvaða mál það verða með því að setja lög um það? Og eru menn á eitt sáttir um hvað skuli kallast mikilvæg og stefnumarkandi mál? Ég get nefnt ýmis mál sem ég tel vera mjög mikilvæg og stefnumarkandi en ég er viss um að ekki séu allir hv. þingmenn sammála mér um það.

Þetta ákvæði á rætur að rekja, að því mér skilst, til Þýskalands, það á sér ákveðna fyrirmynd í þýska stjórnkerfinu. Ég vil að hv. þingmenn sem munu skoða þessi mál kynni sér þetta mjög rækilega. Ákvæðið vekur hjá mér ákveðinn ótta við flækjur, þ.e. að það verði flókið að greina á milli þess hvenær ríkisstjórn er fjölskipað stjórnvald og hvenær ekki. Þessu tengt er 95. gr. um ráðherraábyrgð. Í henni kemur fram að ráðherra geti bókað andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar — sem væntanlega byggir á hugmyndinni um fjölskipað stjórnvald — og þá beri hann ekki lagalega ábyrgð á þeirri ákvörðun.

Þá má spyrja: Ef við segjum að ríkisstjórn eigi að vera fjölskipað stjórnvald í mjög mikilvægum málum sem við ætlum að setja lög um hver eru, er þá hægt að bóka sig frá ábyrgð? Og hvaða afleiðingar hefur það?

Mér finnst að skoða þurfi þá kafla sem snúa að fjölskipun stjórnvaldsins. Sums staðar, til að mynda í Svíþjóð, er ríkisstjórnin fjölskipað stjórnvald. Hún er það í öllum málum, stórum sem smáum. Það hefur í för með sér kosti og galla. Það hefur í för með sér þá kosti að sátt næst um málin, en líka þann galla að það tekur oft mjög langan tíma að ná þeirri sátt. Þetta þekkjum við þegar við ræðum saman á norrænum vettvangi. Það er til að mynda allt annað vinnulag viðhaft hjá ráðherrum sem þar sitja frá Svíþjóð annars vegar og Noregi hins vegar, svo einfalt dæmi sé tekið. Það þarf stundum að kalla eftir umboði af hálfu þeirra sænsku og það er út af þessu. Ég hef ekki mótað mér skoðun á því hvort kerfið sé betra. Ég tel að bæði kerfin hafi kosti og galla, en ég tel að við þurfum að skoða mjög vandlega ef við ætlum að hafa blöndu af þessu tvennu. Ég held líka að við þurfum að skoða vandlega ef við teljum eðlilegt að hægt sé að bóka sig frá ábyrgð á þeim ákvörðunum sem væntanlega verða teknar sameiginlega. Mér finnst mikilvægt að kannað verði hvaða fordæmi það gefur og hvaða afleiðingar það hefur ef ráðherra kýs að bóka andstöðu og segja: Ég ber ekki ábyrgð á sameiginlegri ákvörðun.

Annað sem mig langar að nefna að lokum og tel mikilvægt að þingið skoði er skipun embættismanna sem er tekið á í 96. gr., og það sem snýr að hæfisnefnd. Um þetta er talsverður kafli í greinargerð með frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir að skipuð sé sérstök hæfisnefnd sem forseti Íslands skipi formann fyrir og hún annist utanumhald á ráðningum eða skipunum í helstu embættin, miðað við skýringar í greinargerð. Þá þarf að útfæra þetta nánar, en skilningur minn er sá að nefndin muni skipa ólíkar hæfisnefndir eftir því í hvaða embætti er verið að skipa. Mér finnst eðlilegt að haft sé í huga að feikilega ólíkar starfsskyldur fylgja til dæmis embætti landlæknis, þjóðminjavarðar, lögreglustjóra o.s.frv. Ýmis eru embættin og væntanlega þurfa menn, karlar og konur, að hafa til að bera mjög ólíka hæfileika til að gegna þeim.

Ef við viljum leggja áherslu á að fólk sé ráðið samkvæmt verðleikum sínum, en tilgangurinn með þessari grein er að fólk sé ráðið vegna verðleika sinna, vil ég líka leggja áherslu á að þessi stýring má ekki verða þannig að öll völd afhendist einni miðlægri hæfisnefnd. Það geta mikil völd falist í slíkri nefnd sem skipuð er aðilum sem ekki eru kosnir. Ég held að við þurfum að tryggja lýðræðislegt ferli í kringum ráðningar og skipun í embætti. Það er mjög mikilvægt að fólk sé metið að verðleikum og ráðið sé í embætti út frá faglegum kröfum. Ég tek undir það. Ég hef sjálf nýtt mér hæfisnefndir í þeim ráðningum sem ég hef staðið að og fundist það mikilvægt, ég hef leitast við að fá sérfræðinga á viðkomandi sviði til að taka sæti í þeim nefndum. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að hugað sé að því hver ber hina lýðræðislegu ábyrgð á ráðningunni og hvernig þetta er útfært. Það er gert með ákveðnum hætti í greinargerð en ég átta mig ekki á því hvort þetta þurfi að útfæra nánar í stjórnarskrá eða hvort greinargerðin muni nýtast sem sérlög í þessu efni. Ég tel mikilvægt að við fáum málefnalega umræðu um þetta. Ég tel að bæði þessi sjónarmið þurfi að vera ofarlega á baugi, lýðræðislegu sjónarmiðin og að það sé lýðræðisleg ábyrgð á þeim störfum sem skipað er í af hálfu ríkisins, en líka að hæfni ráði.

Þetta eru bara örfáar athugasemdir og það er svo sem ekki mikill tími til að fara í málið í 1. umr., enda held ég að umræðan muni fyrst og fremst fara fram í nefndum þingsins. En þetta er það sem mér finnst mikilvægt við 1. umr. að hv. þingmenn ræði og skoði á sínum vettvangi. Ég ítreka þá skoðun mína að mér finnst mikilvægt að við tökum öll þátt í þessari vinnu og horfum til þess að gera það á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt þannig að við gerum gott plagg betra.