141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór lítillega yfir það í ræðu minni áðan að ég er frekar vongóður um að vel sé hægt að verja nokkrum vikum eða mánuðum í að hlusta hvert á annað og fara yfir áhyggjur hvert annars af einhvers konar óskýrleika eða einhverju slíku. Eftir að hafa hlustað á umræðuna hingað til hef ég engar stórbrotnar áhyggjur af því að við getum ekki mæst um þessi mál. Ég held að það hljóti bara að vera málinu til bóta að við rýnum þetta frumvarp með opnum huga.

Þetta frumvarp er komið úr ákveðnu ferli og mér finnst mikilvægt að ekkert okkar ætli að fara aftur með það á byrjunarreit. Maður getur til dæmis dottið í einhverjar fabúleringar um hvort þjóðin eigi að kjósa forsætisráðherra og eitthvert bandarískt fyrirkomulag eða eitthvað svoleiðis. Við erum ekki að tala um slík grundvallaratriði. Við erum að tala um skýrleika (Forseti hringir.) einstakra greina. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera málinu til bóta að við förum yfir það.