141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Forseti. Hitt atriðið sem ég vildi ræða við hv. þingmann var þessi sýn á börn og aldur þeirra sem hún talaði um í ræðu sinni, um lágmarksaldur, kosningaaldur og áfengiskaupaaldur. Ungir framsóknarmenn hafa til að mynda barist fyrir því að þessi aldur yrði samræmdur og margt sem styrkir það að skynsamlegt væri að gera það. Við höfum á þessu kjörtímabili öðru hvoru haft frumvarp til nýrra umferðarlaga til umræðu hér á þinginu. Þar er meðal annars lagt til að bílprófsaldur verði hækkaður í 18 ár. Það er margt sem mælir með því. Reyndar hefur verið bent á það sem snýr að landsbyggðinni, að ef þetta eina ár bætist við mundi það auka kostnað og vesen foreldra á landsbyggðinni við að skutla börnum sínum. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvort samræma eigi þennan aldur í stjórnarskránni og öll réttindi þar bundin, þar á meðal bílprófsaldur?