141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:18]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag frumvarp til stjórnarskipunarlaga, breytingu á stjórnarskrá Íslands. Ég hef fylgst með umræðunum í þinginu í dag og í gær og hefur það verið lærdómsríkt fyrir mig þar sem ég hef, eins og flestir aðrir Íslendingar, aðeins verið áhorfandi að þessu ferli þar til nú.

Mig langar í upphafi ræðu minnar að líta aðeins til baka og ég ætla að leyfa mér það þar sem ég hef ekki komið að þessu máli í þinginu áður.

Ég horfi á málið með augum leikmanns. Í þingsal er rætt um hversu mikið þjóðþrifamál það er að breyta stjórnarskránni — og að breyta henni mjög mikið — sem og nauðsyn þess að þetta klárist á þessu þingi því að þjóðin kalli eftir því. Ég hef ekki orðið vör við það, virðulegi forseti, í mínu nærsamfélagi að þetta einstaka mál sé það sem allir bíði eftir og ræði alla daga. Það eru önnur mál sem eiga hug fólks og virðast standa því nær, eins og hvort það hafi atvinnu, hvaða nýju skatta sé verið að leggja á eða hvers vegna sé ekki lengur næturvakt hjá lögreglu staðarins og fleiri mál sem snerta daglegt líf fólks. Að þessu sögðu er ég ekki að segja að stjórnarskrá lýðveldisins snerti ekki daglegt líf fólks.

Þetta er hins vegar nokkuð sem við í þessum sal eigum að hugsa um. Það er kannski ekki alltaf það sama í gangi hjá hinum almenna borgara, hinum venjulega Íslendingi eins og ég tel mig vera þó að ég sé hér í starfskynningu. Það eru ekki alltaf sömu mál upp á teningnum og ekki alltaf sömu mál jafnrosalega mikilvæg og við teljum hér inni. Það eru ákveðnar breytingar sem hægt væri að segja að kallað hefði verið eftir, t.d. auðlindaákvæði og það að skýra hlutverk forseta Íslands.

Virðulegi forseti. Stjórnarskrá Íslands á að breyta í sátt. Ég heyrði samvinnu- og sáttatón í nokkrum hv. þingmönnum í gær, hv. þm. Magnúsi Orra Schram og hv. þm. Róberti Marshall sem dæmi. Þeir töluðu í þessa átt. Mér leið afskaplega vel að heyra að það eru þó tveir flutningsmenn, og er ég ekki að segja að aðrir flutningsmenn frumvarpsins séu á annarri skoðun, sem slá þennan sáttatón. Ég tel það mikilvægt af því að flutningsmenn frumvarpsins hljóta að hafa eitthvað með það að segja hvernig vinna fer fram í nefndinni. Ég vona að þetta viti á gott fyrir framhald málsins.

Við sjálfstæðismenn erum tilbúnir í þetta verkefni en teljum að það þurfi að áfangaskipta því eins og kom fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, lagði til að jafnvel ætti að áfangaskipta verkinu eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þannig að það eru fleiri á þeirri skoðun.

Virðulegi forseti. Margir hv. þingmenn hafa farið vel yfir greinar frumvarpsins og þær miklu breytingar sem verið er að gera, en mig langar að ræða aðeins 39. gr. Um þá grein virðast vera mjög skiptar skoðanir og kemur það ekki á óvart. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hugnast hún ekki óbreytt og lýstu hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Einar Kr. Guðfinnsson áhyggjum sínum af þessari sömu grein. Fleiri hv. þingmenn hafa rætt greinina og mjög margir telja að það þurfi að skoða hana nánar. Ég deili þessum áhyggjum hv. þingmanna. Jöfnun atkvæða er gott og gilt markmið, en er þá ekki ýmislegt annað sem þarf að ræða samfara því? Hvað með alla stjórnsýsluna og allt embættismannakerfið, hvar er það? Þarf ekki að hafa einhverja umræðu um hvers lags jafnvægi og sanngirni er í því hvar það er allt staðsett?

Svo er annað mál að ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að ég skil greinina kannski ekki alveg nógu vel. Ég var alveg rosalega fegin þegar hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er lögfræðingur og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar, skildi ekki alveg greinina. Ég var rosalega fegin að ég var ekkert ein á þessum stað.

Í 9. mgr. 39. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í kosningalögum skal stuðla að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.“

Þetta er gott markmið, alveg frábært, en hvernig á að útfæra þetta? Ég veit að það verður aldrei í stjórnarskrá Íslands en það er svolítið skrýtið að samþykkja eitthvað inn í stjórnarskrá Íslands sem maður er ekki alveg búinn að sjá fyrir endann á hvernig á að framkvæma. Ég trúi virkilega að þessi kafli verði grandskoðaður, að við komum ekki með eitthvert allsherjarrugl og vitleysu í fyrstu kosningum sem fara fram, verði þetta að stjórnarskrá okkar, þar sem á að kjósa til þings eftir þessu.

Virðulegi forseti. Það að leiðrétta óréttlæti með öðru óréttlæti er ekki réttlæti. Það að það gætu orðið 11 landsbyggðarþingmenn er ekki réttlæti. Ef við ætlum að halda áfram byggð í öllu landinu og fá fólk til að búa úti á landi og starfa við þær greinar sem gefa okkur stærstan hluta gjaldeyristekna verður það fólk að hafa rödd á Alþingi og hafa þannig áhrif á sín mál. Við þurfum öll, bæði þau sem eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, að hafa málsvara hérna, hafa fólk sem þekkir aðstæður. Ég er alveg viss um að allir hv. þingmenn hafa skilning á því að öll sjónarmið þurfi að heyrast í þessum sal.

Mig langar næst að víkja aðeins að 24. gr. sem ég spurði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra út í hér fyrr í dag. Réttur til menntunar er tryggður í 2. mgr. 76. gr. núgildandi stjórnarskrár og segir þar, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“

Stjórnlagaráð taldi ástæðu til að styrkja þetta ákvæði og bæta við það. Það er sú viðbót sem veldur mér hugarangri. Nú er komin sérstök grein um menntun, 24. gr., og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.

Öllum þeim sem skólaskylda nær til skal standa til boða menntun án endurgjalds.

Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.

Virða skal rétt foreldra til þess að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“

Margt er ágætt og auðvitað er ég ekkert ósátt við að komin sé sérgrein um menntun, en ég staldra enn og aftur við endurgjaldið í þessu samhengi. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skilur þetta sem segir í greinargerðinni með frumvarpinu svo að það snúi að skólagöngunni sjálfri. Hæstv. ráðherra kom inn á það hér í dag að hún teldi til dæmis að inni í þessu væru ekki máltíðir eða vistun á frístundaheimilum eftir skóla.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands skilaði umsögn um frumvarpið og laganefndin telur að orðalagið „án endurgjalds“, sem er viðbót við núgildandi ákvæði, sé pólitísk stefnumörkun og telur rétt að vekja athygli á því að ákvæðið gæti svo breytt leitt til víðtækari skyldna sveitarfélaga sem annast rekstur grunnskóla, eins og við vitum.

Í álitinu bætir hún við, með leyfi forseta:

„Það má velta því upp hvort í menntun án endurgjalds felist að sveitarfélög verði að láta nemendum í té bækur, skriffæri, tölvur og annað sem notast er við í skólastarfi án endurgjalds.“

Það eru ákveðnar bækur sem foreldrar kaupa, bækur til að skrifa í, skólakompur og alla vegana dót. Það kostar helling að senda barn í skóla. Við viljum öll vera góðir foreldrar og ein skólataska sem er með stuðningi fyrir bakið og annað kostar 18.990, viðurkennd skólataska. Ég var að senda barn í sex ára bekk. Skóladótið fyrir barn í sex ára bekk kostar 12 þús. kr. Eru sveitarfélögin að fara að taka á sig þennan kostnað?

Að mati laganefndar Lögmannafélags Íslands virðist opnað á það. Við þurfum að skoða þetta.

Svo ég haldi áfram með þessa grein langaði mig að velta því hérna upp hvort þetta hefði verið rætt eitthvað við Samband íslenskra sveitarfélaga eða hvort það eigi hreinlega eftir að koma. Ég efast ekki um að sambandið muni gera athugasemd við þetta.

Í greinargerð með frumvarpinu er líka fjallað um 2. mgr. 24. gr., um skyldumenntun án endurgjalds. Mig langar að fara aftur yfir það hvernig stjórnlagaráðið skilur þessa grein af því að það er viðbót sem ég var mjög hissa á. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með orðalaginu „menntun án endurgjalds“ er ætlunin ekki að koma í veg fyrir að til séu einkaskólar sem leggja á skólagjöld. Ákvæðinu er einungis ætlað að tryggja að allir þeir sem skólaskylda nær til skuli eiga kost á að njóta menntunar í boði stjórnvalda, kjósi þeir að þiggja hana, án þess að greiða fyrir hana beint.“

Svo kemur viðbótin, með leyfi forseta:

„Óvíst er að grunnskólinn einn verði skólaskyldur til lengri tíma. Bæði má hugsa sér að hluti leikskólans verði gerður að skyldu og að öllum ungmennum verði gert skylt að vera í skóla.“

Ef það á að breyta skólaskyldualdrinum hefur það gífurleg áhrif á sveitarfélögin. Leikskólinn er gjaldskyldur og það eru skólagjöld í framhaldsskóla þannig að ég spyr: Væri ekki bara ágætt að taka út „án endurgjalds“ af því að ef breytt yrði lögum um skólaskyldualdur kostaði það að stjórnarskráin er sjálfkrafa búin að leggja fjárhagslegar skuldbindingar á sveitarfélögin? Það stendur hérna svart á hvítu. Mér finnst þess virði að skoða þetta vel. Sveitarstjórnarmenn hafa áhyggjur af þessu og skrifaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, grein í Morgunblaðið fyrir skemmstu þar sem hann lýsti þessum áhyggjum sínum.

Ég vona, veit og treysti því náttúrlega að þetta allt saman fái efnislega og góða málsmeðferð. Ég fagna því, af því að þetta er í þriðja sinn sem ég fæ að koma hér inn, hversu efnisleg og málefnaleg umræðan er búin að vera hérna, bæði hjá stjórnarliðum og stjórnarandstöðu.

Í lokin langar mig að víkja að 57. gr. sem er um meðferð lagafrumvarpa. Í 1. mgr. segir, með leyfi forseta:

„Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.“

Í áliti sérfræðinefndarinnar er gerð athugasemd við þessa grein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í 57. gr. er gert ráð fyrir því að umræðum um lagafrumvörp sé fækkað úr þremur í tvær. Í ljósi þess að valkosti í bréfi stjórnlagaráðs 11. mars um að frumvörp fari ekki til nefndar fyrir 1. umræðu, hefði þurft að endurskoða þessa tillögu með hliðsjón af markmiði stjórnlagaráðs um vandaða lagasetningu.“

Ég tek heils hugar undir þetta. Við erum ekki að gera lagasetningu vandaðri með því að fækka umræðunum í þinginu. Ég vona bara að þetta verði skoðað og eftir kynni mín af þingstörfunum, eins og ég nefndi áðan hef ég komið þrisvar inn á þing, finnst mér mjög varhugavert að bjóða upp á afslátt. Þegar mikil pressa er, mikið í gangi, stór mál, er mjög freistandi að grípa til þess að geta fækkað umræðunum í tvær þó að menn hafi ekkert endilega ætlað sér það í upphafi.

Að endingu langar mig að taka undir með hv. þm. Birnu Lárusdóttur, ég er mjög hrifin af 79. gr. um að forsetinn eigi að sitja bara þrjú tímabil, og vil endilega bæta því við að einhver kvóti — vinsælt orð — verði settur á þingmenn líka. Ég held að þessi stofnun þurfi á endurmenntun að halda og endurmenntunin felst í því að fólk komi úr samfélaginu og hafi unnið önnur störf en hér í þinginu. Ég held að það væri bara mjög gott og mundi sýna karakter þingsins að setja það inn þarna líka.