141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt stærsta mál sem komið hefur til þessa þings í langan tíma, frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég hef í nokkrum ræðum áður gert nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls alls. Það eru kannski ekki miklar fréttir fyrir áheyrendur eða þingtíðindi að ég sé á móti þessari málsmeðferð og ég sé á móti því að umbreyta stjórnarskránni allri í sviphendingu. Ég byggi þá skoðun mína fyrst og fremst á því að ég tel að það að breyta stjórnarskrá, grunnlögum landsins, í einni sviphendingu skapi mikla lagalega óvissu, að minnsta kosti um hríð, vegna þess að öll lög í landinu eru grundvölluð á stjórnarskránni. Það er alls óvíst hvaða áhrif breytingar á mörgum greinum stjórnarskrárinnar hafa á lagaumgjörðina í landinu.

Það sem mig langar til að gera að umfjöllunarefni í þessari ræðu minni er ekki stjórnskipunarhlutinn eða stjórnskipunarformið sem boðað er í þessum drögum að stjórnarskrá, heldur ætla ég að gera einn kafla að umtalsefni. Það er II. kafli sem fjallar um mannréttindi og náttúru.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki sé áferðarfallegt að tala um mannréttindi í þessu samhengi, ég mundi fremur vilja tala um réttindi en mannréttindi. Þó svo að megnið af greinunum feli í sér mannréttindaákvæði finnst mér það skýrara og lýsa því betur hverju er verið að reyna að ná fram með grunnlögunum að kalla þetta einfaldlega réttindi, þetta eru réttindi borgaranna.

Ef við förum aðeins yfir þetta er í 5. gr. fjallað um gildissvið laganna. Hún er reyndar ekki í II. kafla, réttindakaflanum. Í 5. gr. segir að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í stjórnarskránni felst — það er gott og vel og ég lýsi mig algjörlega sammála því — og að allir skuli virða stjórnarskrána og þau lög sem af henni leiða. Það er því strax tekið fram í 5. gr. að lög í landinu hvíla á stjórnarskránni eins og ég var að tala um áðan. Síðan kemur setning sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun, en hljómar svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Einkaaðilar skulu, eftir því sem við á, virða þau réttindi sem kveðið er á um í II. kafla.“

Hvað er verið að segja hérna? Hvaða afleiðingar hefur þetta? Í raun er verið að segja með þessu að færa eigi réttindin, mannréttindin, að eins miklu leyti og hægt er inn í einkarétt. Það þýðir að ef manni finnst vera brotin á manni stjórnarskrárbundin réttindi er að finna leiðarvísi í 5. gr. sem segir: Leitum fyrst að einkaaðila til að athuga hvort hann sé ábyrgur fyrir þessu réttindabroti.

Í réttindakaflanum eru hlutir sem allir geta verið sammála um. Hann byrjar á 6. gr., með jafnræðisreglunni. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þarna er örugglega eitthvað sem hefur gleymst að telja upp og ég hefði haldið að mun heppilegra hefði verið að hafa bara punkt á eftir „án mismununar“. Þá hefði þetta hljómað þannig: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismunar. Þá er engin upptalning og enginn vafi leikur á því að allir njóta þessara mannréttinda.

Jafnræðisreglan kemur fyrst inn í stjórnarskrá að ég hygg þegar mannréttindakaflinn var skrifaður árið 1995. Sú regla hafði miklar afleiðingar í för með sér. Þegar mannréttindakaflinn kom inn í stjórnarskrá fylgdi í kjölfarið hrina dómsmála, aðallega út af jafnræðisreglunni. Það er hægt að rekja mjög fræga dóma til þeirra breytinga sem urðu á stjórnarskránni 1995. Ber fyrst að nefna öryrkjadóminn sem byggðist á þessu. Vatnseyrarmálið er annað dæmi, það byggðist á jafnræðisreglunni. Þegar sérkafli um mannréttindi var skrifaður árið 1995 og þessi réttindi voru skilgreind betur í stjórnarskrá fylgdi hrina dómsmála í kjölfarið sem leiddu til töluvert mikilla breytinga á íslensku þjóðfélagi. Sumir hefðu viljað að enn þá lengra hefði verið gengið í þeim breytingum.

Ég minnist á þetta til að sýna að það er algjörlega ljóst að þótt aðeins sé verið að breyta orðalagi er líklegt að á það verði látið reyna fyrir dómstólum.

Það eru 30 greinar í réttindakaflanum og þær spanna vítt svið. Þessar 30 greinar mynda II. kafla. Í I. kafla er einfaldlega skilgreint hvað íslenska ríkið er eða hvað Ísland er sem þjóðríki. II. kaflinn fjallar um réttindi og ég tel viðeigandi að réttindakaflinn komi svo framarlega. Það er ekki vegna þess að hann skipti meira máli en annað í stjórnarskránni, en í honum felst hin skýlausa vernd borgaranna. Þess vegna tel ég viðeigandi að hann sé framarlega.

Ef við skoðum þessar 30 greinar af alls 114 greinum frumvarpsins má sjá að tæplega einn þriðji stjórnarskrárinnar fer í að fjalla um réttindi. Þar eru gamlir kunningjar eins og t.d. eignarrétturinn, hann er skilgreindur hérna, tjáningar- og upplýsingafrelsi o.s.frv. En það eru komnar inn greinar sem eiga ekki rætur að rekja til fyrstu og annarrar kynslóða réttinda eins og er í núverandi stjórnarskrá heldur teygja þær sig alla leið inn í þriðju kynslóðar réttindi.

Við hvað er átt með þriðju kynslóðar réttindum? Jú, þriðju kynslóðar réttindi lýsa oft fögrum sjónarmiðum og eru meira í ætt við stefnuyfirlýsingar en hörð réttindi, getum við sagt, eins og t.d. eignarrétturinn, vernd gegn ofbeldi eða annað slíkt. Með því að blanda saman hinum hörðu fyrstu og annarrar kynslóðar réttindum við þriðju kynslóðar réttindi erum við að mínu viti að þynna út réttindakaflann og þá vernd sem við eigum að hafa í stjórnarskrá.

Þó svo ég taki hér sterkt til orða er líklegt að dómaframkvæmd yrði áfram í samræmi við það að fyrstu og annarrar kynslóðar réttindi skipta höfuðmáli en þriðju kynslóðar réttindi eru meira í ætt við fagrar yfirlýsingar fremur en praktísk ákvæði í stjórnarskrá.

Ef við skoðum einstakar greinar frumvarpsins er hér að finna hluti sem eru eiginlega alveg furðulegir og erfitt að skilja hvað átt er við. Tökum til dæmis 7. gr. um rétt til lífs:

„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“

Ég er ekki klár á því hvað þessi grein segir né heldur hvernig hægt er að brjóta þennan rétt á einhverjum. Ég er bara alls ekki klár á því. Ég get skilið að í stjórnarskrá séu ákvæði eins og að dauðarefsing skuli aldrei vera leyfð, það mundi ég flokka sem fyrstu kynslóðar réttindi, en að allir hafi meðfæddan rétt til lífs — ég er bara ekki klár á því hvað það þýðir.

Í 8. gr. segir:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Ég er ekki heldur viss um hvað þetta þýðir. Hvað þýðir að tryggja öllum að lifa með reisn? Í fyrsta lagi þurfum við að skilgreina hugtakið reisn, hvað það þýðir. Í öðru lagi, hvernig ætlum við að framfylgja því að allir fái að lifa með þeirri reisn sem búið er að skilgreina? Það er ég ekki viss um. Og að margbreytileiki mannlífsins skuli virtur í hvívetna. Það er falleg yfirlýsing. Þetta er nú það sem mér var kennt í uppeldinu, að maður ætti að virða mannlífið, en mér finnst óþarfi að hafa það í stjórnarskrá.

Síðan eru atriði sem maður skilur ekki alveg út af hverju eru í stjórnarskrá. En aftur á móti held ég að það sé hægt að skýra það með því hvernig sá hópur sem samdi þessi drög var samsettur. Tökum til dæmis 17. gr.:

„Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“

Tryggir tjáningarfrelsið ekki þetta? Þarf að taka það sérstaklega fram að vísindamenn, fræðimenn og listamenn njóti frelsis? Ég er ekki viss um það. Er kannski verið að ganga mjög langt, jafnvel enn lengra en gengið hefur verið þannig að vísindamenn, fræðimenn og listamenn geti gert hvað sem er? Er verið að tryggja það? Ég held reyndar að verið sé að tryggja hið fyrra, frelsi þeirra, en ég er þeirrar skoðunar að með tjáningarfrelsinu sem er eitt af okkar heilögustu réttindum sé það tryggt.

Síðan er farið að rugla dýraríkinu inn í þetta, í 36. gr.:

„Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og vernd dýrategunda í útrýmingarhættu. “

Ég hefði haldið að þetta ætti heima í lögum en þyrfti ekki að taka sérstaklega fram í stjórnarskrá, sérstaklega þar sem þessi kafli fjallar um mannréttindi. Þetta er klassískt dæmi um þriðju kynslóðar réttindi sem rata hér inn.

Tími minn er því miður búinn, (Forseti hringir.) en þó svo að ég hafi verið gagnrýninn eru margir hlutir hér til bóta. En ég tel það vera glapræði að endurskrifa stjórnarskrána.