141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar hv. þingmanns. Eins og þingmaðurinn sagði eru þetta fagrar yfirlýsingar og minna langtum frekar á stefnuyfirlýsingar stjórnmálaflokka sem leiðir hugann aftur að því hvers vegna þetta plagg er komið fram. Það er talað um að nú sé ákveðinn meiri hluti við völd í landinu og því jafnvel hótað að þetta verði keyrt í gegnum þingið. Við skulum alveg átta okkur á því.

Þingmaðurinn fór í ræðu sinni vel yfir réttarþróun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar okkar. Hún er komin í mjög góðan farveg hjá dómstólum og loksins er búið að skýra þann rétt sem borgarar þessa lands hafa samkvæmt stjórnarskránni síðan mannréttindakaflinn var settur inn 1995. Þetta umbyltir þeirri vinnu og við sjáum fram á ringulreið. Það getur verið að ég hafi allt öðruvísi skoðanir á því hvað er réttur til lífs eða hvað ég tel vera að lifa með reisn en maðurinn við hliðina á mér. Það er beinlínis verið að færa öll þessi réttindi beint í fang dómstólanna. Og þeir eru ekki verkefnalausir nú um stundir eins og við vitum. Með þessu er verið að skapa gríðarlegan kostnað í samfélaginu, að allir þurfi að leita réttinda sinna upp á nýtt, hvaða rétt þeir raunverulega eiga samkvæmt ríkinu. Þetta eru svo ofboðslega opin ákvæði.

Ég þakka þingmanninum fyrir að nefna þessa dóma sem voru úrslitadómar í réttarþróun eftir að mannréttindasáttmálinn var samþykktur inn í stjórnarskrána. En það virðist ekki trufla þá sem leggja þetta frumvarp fram að það eigi eftir að skapa réttaróvissu. Mér sýnist sem þetta frumvarp verði keyrt í gegnum þingið með illu eða góðu þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem þingmenn og fræðimenn í samfélaginu hafa haft uppi. Þess vegna spyr ég þingmanninn í lokin: Hvað sér hann sem lausn í málinu? Það er alveg augljóst að það eru miklar þversagnir og vandræðagangur með þetta frumvarp. Hvernig getum við leyst málið fyrir þinglok á þann hátt að um breytingar á stjórnarskránni skapist sátt og samstaða í stað þess að keyra málið svona áfram?