141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég finn að það liggur í loftinu í dag og í gær að þingmenn eru nokkuð áhyggjufullir vegna þessa frumvarps, vegna þess að hér er verið að breyta bara sisvona um stefnu í stjórnskipunarmálum þjóðarinnar.

Vegna þess að þingmaðurinn nefndi t.d. persónukjör, þá er verið að umbylta kosningakaflanum og færa hann í átt að því sem tíðkast t.d. í Bretlandi. Það er verið að rýmka ákvæði til þjóðaratkvæðagreiðslna sem ég er fylgjandi, sér í lagi ef umdeild mál eru til umræðu í þinginu og er ég þá að vísa í Icesave-kosninguna. Það verður þá að vera tryggt að þær þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi fyrir þing og þjóð en ekki ráðgefandi eins og atkvæðagreiðslan sem fór fram 20. október sl.

Þeir sem eru á móti þessum ákvæðum í frumvarpsdrögunum eru t.d. að tala um að þarna sé verið að færa okkar lýðræðisríki til svissnesks lýðræðis þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru um nánast allt sem borgurunum og stjórnvöldum dettur í hug. Þarna erum við komin með strauma frá tveimur ríkjum.

Það var spurt mikið um 10. gr. frumvarpsins áðan og ég upplýsti að sú grein væri einkaréttarlegs eðlis eins og þingmaðurinn kom að í lok máls síns. Hún er hvorki meira né minna en sótt til Venesúela, Brasilíu og Suður-Afríku. Þá langar mig til að spyrja þingmanninn, vegna þess að ég veit að hann og hans flokkur vill standa vörð um þá góðu stjórnarskrá sem nú er í gildi og ég tel að stjórnvöldum beri að fara að þeirri stjórnarskrá en ekki að hunsa hæstaréttardóma sem hafa fallið nú eftir að hún tók við völdum. Er þetta eitthvað sem þingmanninum hugnast? (Forseti hringir.) Sérstaklega í ljósi þess að þeir sem vilja fá þetta frumvarp óbreytt í gegn eru að tala um að (Forseti hringir.) stjórnarskráin hafi verið sótt til Danmerkur. Það er þó bara eitt ríki, ef það er hægt að færa rök fyrir því, en þarna er (Forseti hringir.) verið að sækja ákvæði um allan heim.