141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt mikilvægasta málið sem við höfum tekið fyrir á þessu kjörtímabili. Þó að auðvitað væri hægt að tala talsvert um forsöguna í þessu máli og þann vandræðagang sem mér hefur fundist vera á því ætla ég ekki að eyða tíma mínum í það í dag.

Ég hef talað þó nokkrum sinnum í þessu máli og þá fyrst og fremst um nauðsyn þess að um það ríki nokkuð breið samstaða og menn breyti ekki grundvallarsáttmála þjóðarinnar í mikilli andstöðu. Mér hefur þótt horfa sérkennilega við að ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra sem hafa kennt sig við norræna velferð og norræn stjórnmál hafa keyrt þetta mál nokkuð skarpt fram. Í raunveruleikanum er allt annað upp á teningnum en norræn velferð því að þar leggja menn sig fram um að hafa, eins og ég hef margoft rætt hér, að minnsta kosti 70–80% af þinginu á bak við allar breytingar, hvað þá breytingar á stjórnarskrá.

Það hefði líka verið áhugavert að horfa til breytinga Norðmanna á stjórnarskránni. Það ferli hefur tekið fjölmörg ár, þeir hafa tekið fyrir ákveðna kafla og endurnýjað stjórnarskrána í fullkominni sátt. Þeir leggja sig að minnsta kosti fram um það.

Ég segi þetta því að forsagan er þess eðlis að í málinu ríkir talsverð tortryggni á milli þeirra sem vilja breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem við sjáum í frumvarpinu og hinna. Ég er í hópi þeirra sem vilja gjarnan breyta stjórnarskránni og ég tel það mjög mikilvægt en hef ekki heyrt fyrr en í þessari umræðu áhuga meiri hlutans á að hlusta á önnur sjónarmið. Og ég spyr: Hvenær sýndi meiri hlutinn að hann væri til í að slá af sinni leið til að sýna raunverulegan vilja til að taka hér upp raunverulegt samráð og samvinnu um málið? Við erum að tala um stjórnarskrána, grundvallarsáttmála þjóðarinnar. Ég tel afar óheppilegt ef það mál mundi enda með þeim hætti að hugsanlega stæði minnsti mögulegi meiri hluti að baki þessum breytingum.

Afleiðingin af þessari fortíð í bland við þau átök sem hafa orðið hér fyrr á þessu kjörtímabili er tortryggni hvers í annars garð innan þessara hópa sem hafa mismunandi sýn. Það hefur mjög neikvæð áhrif í málefni eins og þessu, þ.e. á stjórnarskrána sjálfa. Hér hafa hv. stjórnarþingmenn, sérstaklega úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, haldið því fram að í vor hafi farið fram mjög ómálefnaleg umræða, málþóf, en ég spyr: Tóku margir stjórnarþingmenn þátt í þeirri umræðu með okkur sem spurðum hér spurninga og vildum ræða einstakar greinar, einstakar spurningar sem til stóð að fara með í þjóðaratkvæði? Rökstuddu þeir af hverju þessar spurningar væru bornar upp en ekki aðrar? Til dæmis er spurningin um þjóðaratkvæði, af hverju var ekki spurt afleiðingaspurningar þegar menn vildu fá meiri möguleika á að skjóta málum til þjóðarinnar? Af hverju var ekki spurt um hlutfall, 10, 15, 20% eða meira? Margir vildu, þar með sá sem hér stendur og vil ég í því sambandi minna á stefnu Framsóknarflokksins, auka möguleika þjóðarinnar á að koma beint að málum. Það hefur verið stefna okkar. En þeir hefðu einnig, og þar með sá sem hér stendur, gjarnan viljað segja hug sinn til hlutfallsins. Hvernig skilja menn til að mynda niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um að menn vilji þjóðaratkvæði, er það 10% mark eða er það 20%? Ég held að það sé nokkuð óljóst og það sé túlkunaratriði.

Hið sama má segja um persónukjör. Margir, og einnig þá sá sem hér stendur, hafa haft þá skoðun að vilja auka vægi persónukjörs. Er ég þá sammála tillögu stjórnlagaráðs? Ég tel að minnsta kosti að það þurfi að skoða alla kanta og hliðar á því máli. Sjálfur hef ég þá reynslu að hafa verið kjörinn í sveitarstjórn í algjöru persónukjöri þar sem allir voru kosnir, reyndar án þess að bjóða sig fram. Ég hef óheppilega reynslu af því. Það er ekki gott, það er nauðsynlegt að það sé til bakland sem menn geta leitað til. Afleiðingarnar af stjórnlagaþingskosningunum þar sem landið var eitt kjördæmi og mjög margar persónur í boði urðu að það væri nokkuð óljóst hvað menn voru að kjósa. Þeir sem voru þekktir úr sjónvarpi eða opinberri umræðu voru frekar kosnir en hinir sem voru minna þekktir en voru hugsanlega með mjög góðar skoðanir og þekkingu á málinu.

Í fyrradag fóru margir stjórnarliðar mikinn í að gagnrýna að við í minni hlutanum færum fram á að vita með hvaða hætti meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætlaði að taka á ábendingum og tillögum lögfræðingahópsins, ekki síst um heildarmatið. Þetta er mikið plagg sem lögfræðingahópurinn skilaði af sér og hafði takmarkað umboð. Ég segi fyrir mig að ég hefði að minnsta kosti kosið að umboðið hefði verið víðtækara og að hópurinn hefði haft heimild til að gera efnislegar breytingartillögur. Í staðinn kemur hann með ábendingar og endar einn kafla í skilabréfi sínu á því að segja, með leyfi forseta:

„Hefur hópurinn kosið að fara heldur varlega í breytingar á grundvelli hinna fyrrnefndu“ — þ.e. tillagna stjórnlagaráðs — „í trausti þess að Alþingi muni einnig ígrunda gaumgæfilega ábendingar á grundvelli hinna síðarnefndu,“ þ.e. lögfræðingahópsins.

Síðar í þessu sama plaggi er til að mynda talað um hvað eigi heima í stjórnarskrá og hvað í almennum lögum. Þetta er umræða sem nauðsynlega þarf að taka og hefur verið tæpt á í máli ýmissa í þinginu og varðandi það hvort það samrýmist alþjóðlegum viðmiðum og þróun á sviði stjórnskipunarréttar. Þar hefur reyndar komið í ljós að Feneyjanefnd Evrópuráðsins á að taka afstöðu til þess. Eru tillögurnar nægilega vel rökstuddar og hafa áhrif þeirra verið metin? Það finnst mér ákaflega mikilvægt. Af hverju eru tillögurnar lagðar fram og eru þær nægilega vel rökstuddar?

Svörin sem við höfum fengið í umræðunni til þessa eru ekki skýr og ýta því miður enn undir þá tortryggni að ekki fylgi fullur hugur máli um að vilja samráð og samvinnu til að ná breiðri samstöðu um breytingarnar á stjórnarskránni.

Þeim hugmyndum sem ég hef má skipta í þrennt. Það sem ég helst vildi hafa séð, og vil enn, er að menn settust niður og næðu saman um nauðsynlegar breytingar og næðu mjög breiðri samstöðu um þær tillögur en við mundum áfram vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, m.a. með því að fá íslenska sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að vinna með okkur. Það mundi augljóslega þýða að sú heildarendurskoðun mundi ekki klárast fyrir vorið en við gætum klárað þá kafla og þær greinar sem við teljum mikilvægastar. Margir hafa talað um þetta úr þessum ræðustól og nefnt einstaka kafla og greinar.

Til vara er önnur leið sem mér finnst hægt að fara. Þá mundi ég leggja til að þingið legðist yfir þá kafla sem nauðsynlegast er að mínu mati að breyta í núverandi stjórnarskrá, það er I., II. og V. kafla. Þetta er það sama og til að mynda Björg Thorarensen prófessor hefur talað um, þ.e. I. kaflann um þrígreiningu valds, II. um forsetann, valdsvið hans og verksvið og einnig þá V. kaflann um dómstólana. Við gætum reynt enn og aftur að ná sem breiðastri samstöðu um þær breytingar sem þýðir eins og alltaf þegar menn vinna með þeim hætti að allir þyrftu að gefa eitthvað eftir til að ná samstöðu. Það má líka benda á greinar og tillögur sem Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon, sem sátu í stjórnlaganefndinni, hafa lagt til. Mér hefur fundist það áhugaverð leið til að reyna að ná samstöðu um þær breytingar sem ég held að mjög margir, ef ekki allir, hérna inni séu sammála um að þurfi að skoða.

Það sem mér hugnast verst, og raunar mjög illa, er að fara þá leið sem meiri hlutinn hefur verið á. Ég verð að segja að mér finnst rök okkar innlendu sérfræðinga, sem hafa bent á að margt sé ekki nægilega vel gert, mjög sannfærandi. Þrátt fyrir að frumvarpið í heild sinni hafi á sér yfirbragð margra góðra hluta hefur mér fundist erfitt að sitja undir því að þeir sérfræðingar sem við leitum gjarnan til í stjórnskipunarrétti hafa mátt þola háðsglósur, vera kallaðir lagatæknar og sagðir sitja í fílabeinsturni, vera sérskipaðir sérfræðingar, „usual suspects“ og annað í þeim dúr.

Ég tel að í þessu frumvarpi göngum við of langt í að kollvarpa núverandi stjórnarskrá og fara inn í umhverfi sem við vitum ekki nákvæmlega hvað þýðir. Í kjölfarið mun reyna mun meira á dómstóla en til að mynda eftir setningu stjórnarskrárinnar 1944. Er skemmst að minnast breytinganna á mannréttindakaflanum 1995 sem höfðu verulegar afleiðingar á ýmsum sviðum.

Ég held að hér sé allt of mikið sett undir, það gæti skapast réttaróvissa, við séum að færa vald um túlkun á stjórnarskránni til dómstólanna og að þar verði mikið álag á næstu árum. Ég er viss um að það er ekki skynsamlegt að fara þá leið. Það má líka benda á að þegar við setjum lög um einstaka hluti tölum við gjarnan um það, sérstaklega í málum sem hafa strax bein áhrif í samfélaginu, að það sé nauðsynlegt að reglugerðirnar liggi fyrir sem fyrst.

Hér erum við að setja stjórnarskrá og það hefur verið sagt að það muni þurfa að breyta mjög mörgum lögum, jafnvel setja mjög mörg ný lög. Ég vil því spyrja hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvort lögð hafi verið vinna í það, annars vegar að afmarka verkefnið, átta sig á því hversu mörgum lögum og þá hvaða lögum þurfi að breyta, og hins vegar finna út hvaða lögum þurfi að bæta inn í. Það er mikilvægt, ef við erum annars vegar að setja mikið vald og álag yfir á dómstólana í túlkun og hins vegar mikið álag á þingið og framkvæmdarvaldið, að bregðast hér við í lagasmíð og með breytingum á lögum. Ég er ekki viss um að þetta sé það skynsamlegasta á næstu árum. Það væri nær að setjast vel yfir málið og gera eins og Norðmenn, taka nokkra kafla í einu og laga þá en hafa heildarendurskoðun í gangi allan tímann. Við yrðum þegar upp yrði staðið komin með nýja stjórnarskrá, heildstæða, og þá væri búið að fara vel og rækilega yfir hvern kafla fyrir sig, hvaða lögum þyrfti að breyta og hvaða ný lög þyrfti að setja.

Mér finnst núverandi stjórnarskrá tala mjög skýrt. Auðvitað má segja að hún sé á nokkuð eldra máli og mörgum finnst hún torkennileg aflestrar. Mér finnst yfirbragð frumvarpsins vera meira í ætt við leiðarljós í til að mynda skipulagslögum þar sem menn setja sér háleit markmið um það sem þeir ætla að ná en síðan koma bæði markmið og leiðir að þessu síðar þar sem stendur nákvæmlega hvernig menn ætla að haga málum. Ég veit að það eru mismunandi hópar í þingsalnum. Sumum finnst sú leið mjög fín að hafa orðskrúð og háleit markmið sem við eigum að stefna að á næstu árum og jafnvel áratugum um félagsleg réttindi og þriðju kynslóðar réttindi. Ég er í hópi hinna sem vilja að stjórnarskráin sé frekar einföld og skýr og að dómstólum sé ekki eftirlátið mikið til túlkunar sem þó augljóslega verður alltaf eitthvað þegar menn gera svona verulegar breytingar.

Ef sú niðurstaða verður ofan á að fara þessa leið eru ýmsar greinar sem ég vildi gera verulegar athugasemdir við. Ég vil nefna aftur að það eru þá I., II. og V. kafli núverandi stjórnarskrár sem við þurfum að skoða vel. Ég held að allir séu sammála um það í sambandi við umræðu síðustu ára. Annað sem nefna mætti, þetta er ekki endilega eftir mikilvægi, komst til tals í gær og ég hef reyndar oft talað fyrir, mikilvægi þess að sveitarfélögin fái skýrari sess í hugum fólks hér inni. Þeir eru hluti af framkvæmdarvaldinu, fara í dag með 30% en hugmyndir eru uppi um að auka það vægi og það sé eðlilegt að það standi til að mynda í 2. gr. Það þarf að fara líka betur yfir sveitarfélagakaflann.

Varðandi auðlindaákvæðið sem ég tel mjög mikilvægt að verði sett inn vil ég benda á minnispunkta Aagotar Óskarsdóttur um að þar sé ýmislegt sem þarf að skilgreina betur. Hvað eru til dæmis auðlindir? Ég minni á frumvarp þingmanna okkar framsóknarmanna þess efnis og einnig á ýmis ákvæði er varða einkaréttarlega eign og hvað opinber eign sé. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það nákvæmlega núna.

Mannréttindakaflinn í heild sinni finnst mér þessu marki brenndur með leiðarljósin, þriðju kynslóðar réttindi, hann er of umdeildur. Mér finnst gerðar of miklar breytingar, of óljósar og að lokum, frú forseti, án þess að ég hafi tíma til að fara yfir það verð ég að nefna kosningakaflann og Alþingi. Þar eru allt of miklar umbreytingar. Ég kallaði eftir því í andsvörum að meiri hlutinn sem ber fram þessar tillögur rökstyðji hér af hverju hann vilji fara þessa leið. Það hefur verið bent á að það endi með því að landsbyggðarþingmenn verði 11, að hámarki 15. Það hefur verið bent á ýmsa aðra þætti og enginn hefur rökstutt hér hvernig á að standa að slíku. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir slíkri umræðu áður en málið fer aftur inn til nefndarinnar.