141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum örlað á því að þeir sem setja lögin, þeir sem mæla fyrir frumvörpum hafa fyrst og fremst vísað til skýringartexta, athugasemda og greinargerða með frumvörpunum þegar kallað er eftir skýringum á því hvað tiltekið ákvæði þýði. Það kann að vera gott og gilt að einhverju leyti en við eigum ekki að nálgast viðfangsefnið þannig. Viðfangsefnið er að gera lagatextann nægilega skýran til að öllum sé hann ljós. Var það ekki einmitt eitt af því sem sagt var þegar lagt var af stað með þessa endurskoðun, að gamla stjórnarskráin okkar væri að meginstofni skrifuð fyrir 70 árum og þess vegna þyrftum við að gera hana nútímalegri og auðlesanlegri fyrir þá sem við eiga að búa?

Nú vísa menn mikið í stórar skýringargreinar með einstökum liðum. Ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að lesa saman þessar skýringargreinar eins og þær liggja fyrir núna, ekki eins og þær lágu fyrir frá stjórnlagaráðinu því að þær voru meingallaðar, og styrkja að minnsta kosti þá túlkun sem kemur fram í skýringunum í frumvarpstextanum sjálfum.