141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Þetta er brýn og þörf umræða. Ég þakka framsögumanni, hv. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að brydda upp á henni.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda og skiptir ekki máli þó að hæstv. forsætisráðherra telji upp tölur eða formaður fjárlaganefndar tali um hvað menn séu svartsýnir. Við búum við það að skuldir þjóðarbúsins eru gríðarlegar. Skuldir ríkisins eru gríðarlegar, skuldir flestra sveitarstjórna eru gríðarlegar og skuldir heimila eru gríðarlegar. Þær skuldir eru til komnar vegna þess froðuhagvaxtar og þeirrar bólu sem varð fyrir hrun og hrundi svo algjörlega til grunna.

Skuldastaðan er einfaldlega orðin slík. En stjórn og stjórnarandstaða vill ekki viðurkenna að ekki er hægt að vinna sig út úr þeirri stöðu með fjárfestingu eða hagvexti. Skuldsetningin er orðin allt of mikil til að það sé hægt. Það er eitthvað sem menn þurfa að fara að leiða hugann að og við höfum verið að benda hér á í rúmlega þrjú ár. Eina leiðin út úr þeirri stöðu er sú að stórfelldar afskriftir og niðurfellingar skulda þurfi að fara fram á öllum þeim vígstöðvum sem ég taldi upp.

88 milljarðar kr. bara í vexti af skuldum ríkissjóðs á ári er staða sem þarf ekki að horfa nema örstutt á til að sjá að verður aldrei staðið við nema grunnstoðum samfélagsins verði slátrað. Það er þegar byrjað. Við vitum það, við sjáum það úti um allt. Við sjáum það í löggæslunni, menntamálum og heilbrigðismálum. Þetta vilja menn ekki viðurkenna.

Ég tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan að ástandið í þessum málum er eins óheilbrigt og það getur orðið. Það er meðal annars óheilbrigt vegna þess að fólk vill ekki viðurkenna það heldur kemur hingað upp eina ferðina enn, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason og talaði um Parísarklúbbinn, fólk sem hefur ekki hugmynd um hvað Parísarklúbburinn er, hvað hann (Forseti hringir.) gerir, hvers vegna hann var stofnaður, og vill ekki heldur horfast í augu við það að Ísland mundi aldrei fara í neinn Parísarklúbb, því það (Forseti hringir.) er ekki á hans umráðasvæði að meðhöndla skuldir þjóða eins og (Forseti hringir.) Íslands. Þetta er því dapurleg umræða.