141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir að heiti greinarinnar er mjög misvísandi en vil hins vegar segja að ég deili áhyggjum þingmannsins um hvernig á að skilgreina takmarkanirnar ef við eigum að fara að þrepa hvað er mikið, verulegt, lítið eða hvaðeina telst til fullveldisafsals ríkisins. Ég held að það sé mjög erfitt að skilgreina. Það kann vel að vera að gerlegt sé í þeirri vinnu sem fram undan er að setja niður einhverjar slíkar stikur. Ég held engu að síður og vil undirstrika að það er gríðarlega viðurhlutamikið verkefni og hlýtur að taka allnokkurn tíma að skoða það sem liðið er, hvernig þessir hlutir hafa gengið og hvað bíður fram undan í samskiptum okkar m.a. við Evrópusambandið og önnur ríki.

Að mínu mati er það óásættanlegt, og ég vildi heyra álit hv. þingmanns á því, að einfaldur meiri hluti atkvæða ráði í svo stórum málum sem fullveldisafsal er. Það hljóti að vera gerðar kröfur um kosningaþátttöku, um einhvern tilskilinn meiri hluta sem þarf til þess að þjóðin taki og samþykki svo afdrifaríka ákvörðun sem felst í því að framsal ríkisvalds sé í rauninni gerlegt í samningum sem íslensk stjórnvöld kunna að gera hverju sinni.

Ég er þeirrar skoðunar að það þyrfti að gera þannig að kröfur verði gerðar að því leytinu til um aukinn meiri hluta og jafnvel líka um einhverja skilgreinda þátttöku kosningarbærra manna í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.