141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð sérfræðingahópsins sem fór yfir stjórnarskrána var aðeins fjallað um þau mál. Þar er meðal annars komið inn á að tillaga stjórnlagaráðs sé frábrugðin því sem þekkist í Danmörku og Noregi, þegar verið er að ræða afgreiðslu á tillögu um valdaframsal. Í Danmörku er gert ráð fyrir því að 5/6 atkvæða þurfi til þess að valdaframsal geti náð fram að ganga og í Noregi er það 3/4. Í Noregi er enn fremur gerð krafa um að ef verið er að samþykkja valdaframsal á þingi séu 2/3 þingmanna viðstaddir atkvæðagreiðsluna og ef ekki næst meiri hluti er tillagan fallin.

Það liggur því alveg ljóst fyrir að tillaga stjórnlagaráðs og frumvarpsins hér gengur skemur en gert er í nágrannaríkjum okkar. Það er ekki jafnhár þröskuldur í því að verja fullveldið og stjórnarskrár nágrannaríkja gera ráð fyrir. Ef við veltum fyrir okkur þjóðfundinum sem haldinn var 6. nóvember 2010 héldu fulltrúar í stjórnlagaráði því ítrekað fram að hann hefði verið leiðsögn þeirra inn í þessa vinnu. Þar sagði meðal annars að það ætti að verja fullveldi Íslands í stjórnarskrá og kom það fram í upphafsorðum, í kafla inni í niðurstöðum og í niðurstöðunum að tryggja yrði fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Þá veltum við fyrir okkur: Af hverju erum við með tillögu sem ekki uppfyllir þau skilyrði og er veikari en er í stjórnarskrám nágrannalanda okkar þegar þjóðfundurinn sem átti að vera leiðsögnin sagði allt annað? Mér er þetta hulin ráðgáta (Forseti hringir.) en ég veit að stjórnarliðar geta ugglaust svarað þessu.