141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:38]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með spurningalistann frá því áðan. Varðandi auðlindir og erlenda aðila er það rétt að það er ekkert sem beinlínis tekur fram að auðlindir megi ekki vera í eigu erlendra aðila. Það er tekið fram að auðlindir mega ekki vera í eigu neinna nema þjóðarinnar og að þær megi aldrei framselja þannig að menn eignist þær eða geti veðsett þær. Það kemur einfaldlega í veg fyrir að þær verði seldar erlendum aðilum. (Gripið fram í.)

Ég nefndi áðan veiðirétt í ám og vötnum vegna þess að við búum við þá stöðu að erlendir auðmenn hafa keypt sig fram fyrir Íslendinga hvað varðar aðgengi að þeirri auðlind. Mér finnst óboðlegt að sú staða geti komið upp og vonandi tekst mönnum að girða fyrir það með einhverjum hætti.

Jafnt vægi atkvæða veikir ekki stöðu landsbyggðarinnar. Jafnt vægi atkvæða undirbyggir aukið lýðræði á Íslandi og með auknu lýðræði eykst hagur allra. Það er einfaldlega niðurstaðan úr lýðræðinu. Það að menn hafi tvö atkvæði á móti einu er ólýðræðislegt og (Forseti hringir.) miðað við umræðuna í þinginu hingað til hefur það ekki skilað landsbyggðinni sérstaklega miklu.