141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, Gunnari Braga Sveinssyni. Ég held að þörf sé á að fara aðeins yfir stöðuna á þessu sviði.

Ég vil líka vekja athygli á þeim ummælum sem féllu í upphafi umræðunnar hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur þar sem hún sagði frá fundi úti í Strassborg. Við sem heima sitjum höfum heyrt frekar misvísandi fréttir af þeim samtölum og viðræðum sem þar áttu sér stað. Hvað sem því líður eru þau tvö atriði sem þessir tveir hv. þingmenn nefna í umræðunni ákveðin vísbending og merki um vandræðagang sem er á stöðu aðildarumsóknarinnar.

Ég minnist þess að áður en þing kom saman í haust, í ágúst eða í byrjun september, var svo að heyra á talsmönnum annars ríkisstjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, a.m.k. tveimur ráðherrum úr ríkisstjórninni og raunar einnig formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að ástæða væri til að taka stöðu aðildarumsóknarinnar og aðlögunarferlisins til endurskoðunar í haust. Það voru býsna skýrar yfirlýsingar hjá hæstv. ráðherrum, Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, og í kjölfarið fylgdi síðan hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Ég veit ekki hvort yfirlýsingar þeirra tengdust umræðu sem átti sér stað á tilteknum flokksstjórnarfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þetta leyti, en ég verð að játa að lítið hefur frést af málinu síðan. Ég vek athygli á því vegna þess að við margir í þinginu bundum vonir við að einhver meining væri á bak við þetta, að það væri einhver alvara í því að ríkisstjórnarflokkurinn, sem í orði kveðnu er andvígur aðild (Forseti hringir.) að ESB, ætlaði að taka málið til endurskoðunar. En síðan hefur ekkert heyrst.