141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta mál er bæði nýtt og gamalt, oftast kallað rammaáætlun. Það er nýtt vegna þess að hér er fyrsta þingsályktunartillagan samkvæmt nýjum lögum frá því í fyrra nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, en upphaf málsins má rekja lengra aftur. Á þingi má rekja það til ársins 1989, eins og segir frá í sögulegum kafla í nefndaráliti okkar. Þá samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Hjörleifs Guttormssonar um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða. Síðan eru liðin 23 ár, næstum aldarfjórðungur. En nú eru lögin samþykkt og við erum að hefja síðari umræðu um fyrstu tillöguna. Ég leyfi mér að telja nokkrar líkur á því að umræðan endi með samþykkt hennar sem yrði sögulegur viðburður.

Rétt er að minna á að til verksins eru föng víða dregin að og aðferðafræðin er ekki síst úr evrópsku samstarfi, í vogtölum faghópanna og þeirri grunnvinnu sem þar fer fram, en sjálf hugmyndin er norsk, úr vatnasviðsáætlunum frænda okkar sem hófust á áttunda áratug aldarinnar sem leið, eftir feikilegar deilur í Noregi um virkjanir og náttúruvernd. Þar hafa þessar áætlanir meðal annars orðið til þess að nú ríkir þolanleg sátt um landnýtingu á þeim náttúrusvæðum sem um ræðir en hafa ber í huga að Norðmenn standa hvað fremst allra þjóða í náttúruvernd og umhverfismálum.

Lykillinn að þessu í Noregi, og vonandi líka hér, er samkomulag um leikreglur eins og við erum nú að festa í sessi. Við erum ekki að bjóða til einhvers jólaballs þar sem sátt skal ríkja ævarandi og ævinlega heldur höfum við reynt að ná samkomulagi og samstarfi um leikreglur með því að samþykkja lögin samhljóða hér í fyrra og núna með fyrstu þingsályktunartillögunni. Rétt er að um hana er deilt, mikið rætt og um hana eru átök. Það er algjörlega eðlilegt en þó standa þessar deilur einungis um hluta af þeim 67 virkjunarkostum og landsvæðum sem eru undir.

Megintíðindin með þessu máli, nái það í gegn, eru þau að aldrei hefur verið ráðstafað jafnmiklu landi og jafnmerkilegum svæðum til verndarnýtingar hér á landi og nú verður gert. Sátt er um leikreglur en það verður áfram tekist á um einstök svæði og virkjunarkosti. Mér sýnist átök vera að hefjast um sum þeirra svæða og kosta sem eru ekki í verndarflokki eða biðflokki í þessari tillögu. Það er gott. Þannig á það að vera. Eins gott að menn geri það strax, eins fljótt og hægt er, en ekki á síðustu stigum þegar miklu erfiðara er að hreyfa til og hlaupinn er þyrrkingur og spenna í alla málsaðila.

Sjálfur hef ég ýmsar skoðanir á þeim kostum sem eru í orkunýtingarflokki. Ég bið menn að muna að sú ákvörðun Alþingis að samþykkja tillögu með skiptingu í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk merkir ekki að allt sé opið í orkunýtingarflokknum. Þar taka við umhverfis- og skipulagslög og enn sem áður er það hlutverk sveitarfélaga, orkufyrirtækja og almennings að reyna að ná vitlegri niðurstöðu um framkvæmdir eða nýtingu þeirra svæða og kosta sem um er að ræða.

Þegar litið verður sögulega á málið, þegar þingmenn, fræðimenn og áhugamenn, segjum árið 2050, um miðja öldina, líta á það sem við erum að gera nú í lok árs 2012, og höfum verið að gera að minnsta kosti frá 2007 ef ekki alla leið frá 1989, þá held ég að það verði ekki tíðindi að orkufyrirtækin hafi haldið áfram rannsóknum, undirbúningi og framkvæmdum við 16 kosti í orkunýtingarflokki — hversu sárt sem mönnum kann að verða um þá kosti sem virkjaðir verða um miðja öldina og þau umhverfisverðmæti sem lenda í spjöllum — heldur munu menn árið 2050 staldra við þann sögulega viðburð að í einu vetfangi með samþykkt Alþingis, vonandi í desember 2012, hafi 20 náttúrusvæði verið tekin frá til margvíslegrar verndarnýtingar og 31 náttúrusvæði fengið vernd til frekari upplýsingaöflunar, rannsókna og athugunar með því að vera í biðflokki.

En tekst þetta? spyrja menn, sumir í hótunartóni, vegna breytinganna sem hafa orðið á flokkunartöflunum í ferlinu. Næst nokkur sátt um leikreglurnar? Einn hv. þingmaður hefur sagt í fjölmiðlum að þetta sé rammaáætlun núverandi ríkisstjórnar og næsta ríkisstjórn verði með allt aðra rammaáætlun og þá væntanlega í grundvallaratriðum öðruvísi. Það veldur hver á heldur í því efni, að sjálfsögðu, en mér sýnast raunverulegar deilur fyrst og fremst snúast um samtals sex kosti, raunar fimm og hálfan, á tveimur svæðum, sem lagt er til að verði settir í bið á grundvelli varúðarsjónarmiða.

Tveir aðrir virkjunarkostir hafa líka verið ræddir. Annars vegar misfórust gögn og náðu ekki mati þar sem átti að meta þau. Hins vegar er uppi þrýstingur í krafti glænýrrar virkjunarhugmyndar en um leið mikil áhöld um helsta gagnið af þeirri tilteknu virkjun, fyrir utan orkuna, nefnilega áfoksstöðvun, en að auki mundu báðir þessir kostir verða fyrsta virkjun á sínu vatnasviði. Ef við tökum mark á þessu þá er verið að deila um átta virkjunarkosti eða -svæði af þeim 67 sem nefnd eru og allir átta eru í biðflokki samkvæmt tillögunni. Það er ekki verið að taka endanlega ákvörðun um orkunýtingu eða verndarnýtingu heldur hafa kostirnir verið settir í bið. Ég verð að segja að ef það fordæmi sem nú er gefið, að setja sex til átta kosti í biðflokk, er það sem mennirnir með hótunartóninn ætla að nota næst, þ.e. setja kosti sem ekki þykja klárir í bið, annaðhvort orkunýtingarkosti eða verndarnýtingarkosti, þá held ég að ekkert sé að óttast, þá er einmitt fylgt þeirri sátt um leikreglur sem hér er boðin fram, fyrst með samhljóða samþykkt laganna og síðan með þessari þingsályktunartillögu.

Forseti. Þetta voru inngangsorð og nú sný ég mér sem framsögumaður málsins að nefndaráliti meiri hlutans en hann skipa auk mín hv. þingmenn Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og áheyrnarfulltrúinn Þór Saari. Nokkrir þessara þingmanna hafa fyrirvara við málið sem lýst er í nefndarálitinu og þeir skýra hér sjálfir síðar í dag en allir sjö standa að nefndarálitinu og samþykkja tillöguna óbreytta hafi ekki orðið breytingar á henni við tillöguflutning. Þrír hv. þingmenn, Árni Johnsen, Ásmundur Einar Daðason og Birgir Ármannsson, skila tveimur sérstökum nefndarálitum.

Nefndarálit meiri hlutans er nokkuð mikið að vöxtum. Álitið sjálft er í prenti 31 blaðsíða en 67 með fylgiskjölum, þar á meðal umsögnum frá atvinnuveganefnd. Það er ekki ástæða eða tími til að lesa það í heild en ég ætla að fara yfir það á þeim tíma sem ég hef til umráða og grípa niður á mikilvægum stöðum.

Í inngangi nefndarálitsins er lýst vinnunni á þessu þingi og hinu síðasta, samstarfi milli atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar og í fylgiskjölum má sjá lista yfir þá fundi sem haldnir hafa verið á 140. og 141. þingi og þá gesti sem kallaðir hafa verið til.

Í 1.–3. kafla nefndarálitsins er lýst sögu málsins, forsögunni eftir ályktun Alþingis frá 1989, fyrsta áfanganum 1999–2003, millikaflanum 2004–2007 og upphafi starfsins sem nú er að ljúka, annars áfanga sem stundum er kallaður, frá 2007. Í 4. kafla er lýst meginmuni á fyrsta og öðrum áfanga rammaáætlunar. Þar er fyrst til að taka að í öðrum áfanga er lögð mun meiri áhersla á jarðvarmavirkjanir en vatnsaflsvirkjanir, í fyrsta áfanga reyndist vinnan ekki geta orðið annað en fátækleg af því og þess vegna var stofnað til millihóps milli 2003 og 2007 sem einbeitti sér að jarðvarmavirkjunum. Niðurstaða okkar í meiri hlutanum er sú að þó að vel hafi verið unnið þá vanti enn verulega upp á um jarðvarmann, en ég kem að því síðar. Í öðru lagi felst munurinn í því að nú er lögð miklu meiri áhersla á verndarnýtingu og það kemur meðal annars fram þegar menn virða fyrir sér heiti hópa, áætlana, tillagna sem hér um ræðir. Í þriðja lagi er skipan faghópa nokkuð önnur í ljósi reynslunnar. Í fjórða lagi hefur þekking á náttúrufari aukist verulega á þessum rúma áratug sem um ræðir. Í fimmta lagi er sérstaklega lagt mat á landslag og landslagsheildir sem skorti á í fyrri áfanganum og má bæta enn. Í sjötta lagi, síðast en ekki síst, er nú um að ræða lögfestingu á tillögunum sem úr rammaáætlun koma en í fyrri áfanganum var niðurstaðan ósköp einfaldlega skýrsla sem menn áttu að hafa til ráðuneytis og uppi í hillum hjá sér.

Í sérstökum kafla í áliti okkar, 5. kafla, lýsum við verkþáttunum sem um er að ræða við rammaáætlunina nú. Ég held að það sé mikilvægur kafli og ætla að lesa hann í heild þó að það taki nokkra stund.

Segja má að vinna að þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir skiptist í sex verkþætti. Í hverjum þeirra hefur verið byggt á tilteknum forsendum og beitt þeim aðferðum sem eiga við þann hluta verkefnisins sem fyrir lá á hverju stigi. Hafa verður í huga að á meðan unnið var að fyrri verkþáttunum var frumvarp um rammaáætlun enn ekki orðið að lögum enda voru lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, ekki samþykkt fyrr en í maí 2011.

Fyrsti verkþáttur fór fram í verkefnisstjórn þar sem teknar voru ákvarðanir um verklag við vinnuna. Þar störfuðu fulltrúar ráðherra og ýmissa stjórnsýslustofnana auk fulltrúa frá orkuiðnaðinum annars vegar og hins vegar frá náttúruverndarsamtökum, alls 12. Verkefnisstjórnin hélt fjölda funda um land allt til að kynna verkefnið og leita viðhorfa fólks og hagsmunasamtaka, bæði við upphaf vinnunnar og síðan reglulega á verktíma verkefnisstjórnarinnar.

Annar verkþáttur fór fram í faghópunum fjórum. Þar störfuðu sérfræðingar á hverju sviði fyrir sig, í samráði við verkefnisstjórn. Þar sátu formenn faghópanna, fyrir utan einn. Verkefni faghópanna var að raða innbyrðis þeim kostum sem til athugunar voru út frá faglegum forsendum í hverjum hópi. Að lokinni þessari vinnu vorið 2010 var gefin út sérstök skýrsla, Niðurstöður faghópa. Kynningar- og umsagnarferli verkefnisstjórnar, og voru niðurstöðurnar síðan settar í umsagnarferli með fundarhöldum víða um land þar sem kallað var eftir athugasemdum og skriflegum umsögnum. Næsti áfangi, hinn þriðji, fór meðal annars fram á grundvelli þeirrar umræðu, athugasemda, ábendinga og leiðbeininga. Bæði umsagnir og viðbrögð við þeim liggja frammi á vefsetri rammaáætlunar. Gátu faghóparnir brugðist við athugasemdum og ábendingum við lokamat sitt. Árangur þessa verks kemur fram í köflum 3–6 í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá júní 2011 og á samsvarandi stöðum á vefsetri rammaáætlunar. Röðun hvers hóps fyrir sig kemur fram í sérstökum köflum í skýrslunni.

Þriðji verkþáttur fór fram í verkefnisstjórn. Helsta viðfangsefni verkefnisstjórnarinnar var að þessu sinni að stilla saman röðunarniðurstöðum faghópanna með tiltekinni aðferðafræði þannig að úr fengist ein heildarröðun. Við þetta verk þurfti að meta gildi og vægi niðurstaðna frá faghópunum. Röðun verkefnisstjórnar er sýnd á töflu 7.2, sem fræg er orðin, í skýrslu verkefnisstjórnar.

Fjórði verkþátturinn fólst í að smíða drög að tillögu til þingsályktunar með fyrstu flokkun þeirra kosta sem áður hafði verið raðað. Þar fór fram flokkun, ekki röðun. Áhöld voru um það hver ætti að annast þetta verk — það voru engar skýrar leiðbeiningar um það, lögin ekki samþykkt og tóku ekki til þessarar vinnu — og innan verkefnisstjórnarinnar munu sumir fulltrúanna hafa talið að gerð slíkra draga með flokkun kosta væri á verksviði verkefnisstjórnarinnar sem slíkrar. Fram kom hjá formanni verkefnisstjórnarinnar á fundi nefndarinnar að hann teldi að hvorki erindisbréf stjórnarinnar né samsetning hennar gæfi tilefni til slíkrar túlkunar. Verkþátturinn var falinn fimm manna hópi, formanni verkefnisstjórnarinnar og faghópsstjórunum fjórum, og unnu með þeim lögfræðingar úr iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Þessi starfshópur, sem við köllum hér formannahópinn, lagði til grundvallar vinnu sinni átta forsendur sem raktar eru í athugasemdum við tillöguna sem um ræðir. Þær eru hér taldar upp og bið ég menn að taka eftir því að ein þeirra er röðunartafla verkefnisstjórnarinnar en hinar sjö eru þar að auki, annaðhvort eðlilegar eða í samræmi við erindisbréfið sem verkefnisstjórnin fékk. Vert er að vekja athygli á því að auk laga og samþykkta eru hér á ferð forsendur sem ekki mótuðu röðunarferlið í fyrri verkþáttum, svo sem um heild náttúrusvæða og útivistarmöguleika í grennd höfuðborgarsvæðisins.

Í samráði við umhverfisráðherra samþykkti iðnaðarráðherra niðurstöður formannahópsins óbreyttar sem þau drög að tillögu til þingsályktunar sem fara skyldu í lögbundið 12 vikna umsagnarferli. Umsagnir bárust fjölmargar um þessi tillögudrög og voru nýttar í næsta áfanga verksins, hinum fimmta, sem fólst í smíði sjálfrar tillögunnar sem nú liggur fyrir. Þetta verk var unnið í stjórnarráðinu, eins og venja er til um stjórnarfrumvörp og stjórnartillögur, í samstarfi milli iðnaðar- og umhverfisráðherra. Meginþáttur þess fólst í að fara yfir umsagnir sem bárust, leiðbeiningar, ábendingar og athugasemdir. Við þetta verk féllu út tveir kostir af tæknilegum ástæðum, en að öðru leyti ákváðu ráðherrarnir að hreyfa hvergi við niðurstöðum formannanefndarinnar með því að bæta kostum við verndarflokk eða orkunýtingarflokk heldur höguðu vinnu sinni þannig fyrst og fremst að athuga hvort rök fyrir röðun í þessa flokka stæðust gagnrýni sem fram kom í umsögnum, og hvort afla þyrfti nýrra upplýsinga eða bæta gagnagæði þannig að einhverjir þessara kosta ættu af þeim sökum heima í biðflokki.

Það er athyglisvert er að ráðherrarnir kusu að fara ekki að ábendingu iðnaðarnefndar í nefndaráliti frá mars 2011 þar sem segir að auk upplýsingaskorts sé ráðherra eða Alþingi einnig fært að líta til almannahagsmuna, þegar um biðflokk er að ræða, þyki rétt að virkjunarsvæði bíði um sinn frekari ákvörðunar.

Forsendurnar við þennan verkþátt eru niðurstöður formannahópsins annars vegar en nýjar ábendingar í umsögnum hins vegar. Aðferðin er fyrst og fremst sú að látið var reyna á skilyrði laganna um biðflokksflokkun í þeim tilvikum þegar fram komu alvarlegar athugasemdir sem verkefnisstjórnin eða formannahópurinn höfðu ekki fengið eða ekki tekið afstöðu til. Niðurstaðan varð sú, eins og að framan greinir, að fyrir utan leiðréttingarnar tvær er tillagan samhljóða drögunum um 61 kost, en lagt er til að sex kostir á tveimur svæðum fari í biðflokk meðan aflað er um þá frekari upplýsinga.

Áður en fjallað verður um sjötta verkþátt skal vakin athygli á að í framangreindum fimm verkþáttum eru lagðar til grundvallar faglegar aðferðir en jafnframt farið eftir ákveðnum samfélagslegum eða pólitískum áherslum. Vinna í faghópum fór að sjálfsögðu fram á faglegan hátt en að baki þeim aðferðum liggur stefnumótun sem byggist á samfélagslegum og siðferðilegum sjónarmiðum. Einnig má segja að kenningarleg og þar með að hluta samfélagsleg eða pólitísk sjónarmið liggi að baki í sumum atriðum þegar formannahópurinn skilgreindi sínar átta forsendur, m.a. á grundvelli erindisbréfsins. Þá skal minnt á pólitísk sjónarmið sem lágu að baki samhljóða samþykkt laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun. Því er erfitt hér sem annars staðar að setja fullkomlega skýr mörk milli þessara sviða, hins faglega og hins pólitíska. Það er þess vegna afar mikilvægt fyrir trúverðugleik ferlisins í heild að það sé gagnsætt og hægt sé að hafa yfirsýn yfir forsendur verka í hverjum áfanga.

Sjötti verkþátturinn sem við tölum um hér stendur yfir. Það er sjálf umfjöllun Alþingis um tillöguna og afgreiðslu hennar að lokum. Meiri hluti nefndarinnar telur einboðið að einnig í þessum verkþætti séu mótaðar ákveðnar forsendur og aðferðafræði. Meiri hlutinn telur að verkefni þingsins sé fyrst og fremst að láta reyna á þau rök sem liggja að baki ákvörðunum sem teknar hafa verið áður í ferlinu. Til þess hefur Alþingi sínar aðferðir; lestur umsagna, viðræður við gesti, umræður í nefndum og á þingfundum. Verkaskiptingin í ferlinu gerir ráð fyrir því að í hverjum áfanga skýrist og yddist þeir valkostir sem til greina komu við lokaákvörðun — þetta er ferli, þetta er ekki nýr leikur í hvert skipti — og að í hverjum áfanga sé byggt á verkunum sem áður eru unnin. Telji Alþingi að rök fyrir flokkun séu hæpin er því eðlilegt að nýjum faghópum og/eða verkefnisstjórn sé falin rannsókn málsins og leiðbeining um nýja flokkun með því að setja kost úr orkunýtingarflokki eða verndarflokki í bið.

Auðvitað getur Alþingi gert það sem því sýnist en þetta er það sem Alþingi á að gera samkvæmt þeirri hugsun sem samþykkt var samhljóða í lögum um rammaáætlun og samkvæmt þeirri aðferðafræði sem fólkið sem falið var að vinna þetta verk hefur sett upp. Það væri því varhugavert fyrir framtíð verkefnisins að Alþingi ákvæði nú við lok þessa áfanga að breyta flokkuninni eitt saman og einhliða þannig að nýir kostir yrðu settir annaðhvort í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Þá er að benda á að það er ekki verið að gera þetta til eilífðar því að í 3. gr. laganna, sem ég hef hér minnst á nokkrum sinnum, er gert ráð fyrir að ný tillaga til þingsályktunar, um rammaáætlun, komi fyrir þingið eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.

Ég kaus að lesa þennan kafla nokkurn veginn í heild vegna þess að hann er mikilvægur. Ég bið menn, þegar þeir ræða málin hér á eftir og í framhaldinu, að hafa það alveg skýrt í gagnrýni þeirra eða hrósi hvar það er í ferlinu sem þeir finna að eða hrósa vegna þess að við sem önnumst sjötta verkþáttinn verðum að virða forsendurnar sem okkur eru gefnar.

Í 6. kafla nefndarálitsins fjöllum við um efasemdir sem fram hafa komið um lögformlegt gildi þeirrar tillögu sem um ræðir. Við komumst að því — ég ætla ekki að fara út í það hér, menn geta lesið það — að ekki sé ástæða til að þessar efasemdir hafi áhrif á gang mála á þingi.

Í 7. kafla er lýst flokkun virkjunarkosta og fjallað um þá skiptingu. 16 kostir eru í orkunýtingarflokki samkvæmt tillögunni, 31 kostur í biðflokki og 20 í verndarflokki.

Í 8. kafla fjöllum við nokkuð um álitamál við skiptinguna í flokka. Það væri fróðlegt og gagnlegt að ræða það meira á þinginu en það snertir raunar ekki meginmálið sem er hvort þessi þingsályktunartillaga sé tæk eða ekki og þá hvort þurfi að breyta henni.

Í 9. kafla fjöllum við um nokkur atriði sem við höfum talið vera í baksviði rammaáætlunar. Við minnumst sérstaklega á það að vatnsafl og jarðvarmi er takmörkuð auðlind á Íslandi. Það kemur ágætlega fram í greinargerð verkefnisstjórnarinnar og í tillögunni þar sem samanlögð orkuvinnslugeta kosta í orkunýtingarflokki er talin tæpar 8,5 teravattstundir á ári en í biðflokki rúmar 12,5. Hér er minnt á að Stefán Arnórsson hefur getið sér þess til, þar á meðal á fundi með nefndinni, að virkjanleg vatnsorka í landinu nemi líklega núna um tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Um jarðvarmann vitum við því miður ákaflega lítið, hvað hann gefur, hvað af honum er virkjanlegt og hvað er hægt að gera. Við fjöllum nokkuð um þetta og minnumst meðal annars á skýrslu sem Landsvirkjun lét búa til fyrir framtíðarrekstur sinn og skýrslu auðlindastefnunefndar um stefnumörkun í auðlindamálum, en segjum að lokum að á margan hátt sé skynsamlegast að stefna næstu áratugi að hægri og gætilegri aukningu á orkuframleiðslu ef hana þarf að auka.

Auk virkjana sem nú eru í smíðum og annarra sem skynsamlegar þykja og valda takmörkuðum umhverfisáhrifum hljóta stjórnvöld, segir hér, að leggja áherslu á fullnýtingu þegar reistra virkjana með stækkun núverandi vatnsaflsvirkjana, nýtingu orku í kerfinu, betri nýtingu í jarðvarmavirkjunum í stað 12–14% nýtingar nú og tilraunir með nýjar tegundir virkjana svo sem með vindafli og sjávarfallaafli.

Í 9. kafla fjöllum við líka um framkvæmdir við virkjanir og segjum frá þeim framkvæmdum sem nú standa yfir við Búðarháls, Sauðárveitu, á Reykjanesi, undirbúningi í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum, undirbúningi á Krýsuvíkursvæðinu og stöðuna í Hverahlíð til að minna á að þegar eru verulegar virkjunarframkvæmdir í gangi, meiri líklega en á mjög mörgum öðrum tímabilum í sögu okkar síðustu áratugi. Á það verður að líta þegar menn kvarta yfir því að ekki hafi komist af stað vélskóflur og skurðgröfur. Menn verða að hafa það í huga líka.

10. kafli, sem ég hafði viljað lesa hér í heild, fjallar um álitaefni við orkunýtingu á háhitasvæðunum. Það verður ekki gert, sýnir klukkan mér, eftir að umræðan var stytt frá upphaflegri ætlan hér í dag. Ég bið menn í fyrsta lagi að lesa í nefndarálitinu um álitamál í kringum sjálfbærni háhitasvæða, í öðru lagi álitamál vegna mengunar frá brennisteinsvetni og í þriðja lagi álitamál vegna affallsvatns, þar er uppi margvíslegur vandi.

Við segjum hér að lokum að þær aðgerðir sem meiri hlutinn leggur til að orkufyrirtækin grípi til, svo að varúðarsjónarmið séu viðhöfn við orkuvinnslu með jarðvarma, auki líklega kostnað við virkjanirnar. Með því að viðhafa þessi varúðarsjónarmið er dregið úr neikvæðum áhrifum vinnslurekstrarins á umhverfið og á heilsu manna og telur meiri hlutinn eðlilegt að slíkur kostnaður komi fram í verði þeirrar orku sem viðkomandi virkjun framleiðir.

Hefði ég haft þann tíma sem upphaflega var ætlaður þá hefði hér verið lesinn í heild kaflinn um kosti og svæði á Reykjanesskaga en þar fer meiri hlutinn yfir kosti og svæði og sýnir fram á að miklar framkvæmdaáætlanir á Reykjanesskaga eiga sér ýmsar hindranir. Við hvetjum að lokum til þess að ríkið, sveitarfélög, orkufyrirtæki og náttúruverndarsamtök taki saman höndum um sérstaka rannsókn á Reykjanesskaga þar sem kannaðir verði möguleikar á orkunýtingu, áætlaðar þarfir útivistar og ferðamennsku, gerð grein fyrir verðmæti jarðminja og lagt mat á hugmyndir um náttúrusvæðin á skaganum sem eldfjallagarði sem taki einnig til virkjunarsvæðanna enda séu gerðar til þeirra sérstakar umhverfiskröfur. Eðlilegt væri að aðilar leituðu samstöðu um ákveðna vernd meðan fullnaðarrannsóknir fara fram á möguleika svæðisins.

Í 12. kafla fjölluðum við um nokkra einstaka kosti og svæði og komumst í stuttu máli að því að um þá kosti sem hér um ræðir, þ.e. Þjórsá neðanverð, Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun, Hagavatns- og Hólmsárvirkjanir, standist að okkar mati rök ráðherranna, verkefnisstjórnarinnar og formannahópsins og að þeir eigi að vera í biðflokki. Við fjöllum einnig um álitamál í kringum umhverfismat þegar það rennur út og biðjum menn að virða það fyrir sér líka.

Í 13. kafla, sem hefði þurft að lesa hér í heild, eru ábendingar til næstu verkefnisstjórnar og til ráðherra. Þar er rakinn kafli athugasemda með tillögunni um það sem verkefnisstjórn þyrfti að fela í næsta áfanga. Við tökum undir þann kafla og bætum við að við teljum að það þurfi að fara sérstaklega í gegnum varúðarsjónarmið í tengslum við orkuvinnslu á háhitasvæðum og bendum sérstaklega á tillögu ÍSOR um nýja rannsókn á jarðrænum auðlindum á Íslandi. Við bendum á Reykjanesskagann og það sem við höfum áður sagt um það svæði og kostina þar. Við vekjum athygli á því að flokkun kosta í orkunýtingarflokk getur ekki talist endanleg og verkefnisstjórnin hljóti að hlusta á sérstök rök gegn virkjunarkostum sem hafa verið samþykktir í þann flokk. Við viljum að verkefnisstjórnin leggi meiri áherslu á gildi landslags og landslagsheilda. Við viljum að verkefnisstjórn hugi frekar en gert hefur verið að samlegðaráhrifum virkjunarkosta og flutningskerfa raforkunnar. Við viljum að jarðminjum sé gert hærra undir höfði í heildarmati faghópanna á umhverfisáhrifum virkjunarkosta. Við viljum bæta úr samfélagsrannsóknum í tengslum við rammaáætlunarstarfið og bendum á gagnrýni sem fram hefur komið á aðferðafræði faghóps III, þar á meðal frá honum sjálfum og verkefnisstjórninni. Við teljum mikilvægt að efla grunnrannsóknir um útivist og ferðaþjónustu og nauðsynlegt að meta möguleika á að nýta betur virkjanir sem þegar hafa verið byggðar og koma því saman við rammaáætlunina. Við beinum því til ráðherra og Alþingis alls að meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana, að láta störf næstu verkefnisstjórnar taka til annarra kosta en vatnsafls og jarðvarma, að athuga hvort ekki sé æskilegt að mæla fyrir um endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki og að huga að tengingu rammaáætlunarverksins við orkuáætlun eða orkustefnu, samanber 8. kafla þessa nefndarálits. Ég legg áherslu á þennan þátt fyrir framtíðina. Síðan leggjum við áherslu á að tryggja áfram virka aðkomu almennings og félagasamtaka að öllu rammaáætlunarverkinu.

Í næsta kafla koma fyrirvarar einstakra nefndarmanna sem gerð verður grein fyrir hér á eftir.

Ég ætla þá að lesa niðurstöðurnar sem eru svona:

Meiri hlutinn telur að með samþykkt tillögunnar yrði stigið ótvírætt framfaraskref við náttúruvernd og umgengni við landið, jafnframt því sem orkuöflun væri settur tiltekinn starfsrammi þannig að sú starfsemi byggi við meira rekstraröryggi og minni átök þegar að nýframkvæmdum kemur. Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi. Meiri hlutinn minnir á athugasemdir og leiðbeiningar til næstu verkefnisstjórnar í athugasemdum við tillöguna og í þessu nefndaráliti og leggur að lokum til að tillagan verði samþykkt óbreytt.