141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég held að hér sé nánast í öllu hægt að vísa til svara hv. þm. Marðar Árnasonar og hv. þm. Kristjáns L. Möllers áðan þar sem fjallað var um að ráðherrarnir tóku pólitískar ákvarðanir um ákveðna þætti, með ákveðin pólitísk sjónarmið að leiðarljósi. Ég talaði um það áðan að mikilvægt væri að ná sátt milli verndar og nýtingar. Það var það sem áætlunin snerist um. Ef hún hefði farið óbreytt í gegn hefði Hólmsárvirkjun ekki verið inni en þá hefðu aðrar virkjanir aftur á móti verið inni.

Það sem gerðist síðan í ráðuneytunum áður en þingsályktunartillagan kom fram var að ákveðin sjónarmið voru tekin fram fyrir, sem voru þessi verndarsjónarmið, en þegar sömu gögn lágu fyrir hvað þessa virkjun snertir voru nýtingarsjónarmiðin ekki látin ráða þar. Ef ráðherrarnir hefðu viljað gæta þess faglega mats sem hv. þm. Mörður Árnason vitnar hér til hefði líka átt að setja virkjunina í nýtingarflokk. Það er málið. Það er svo mikilvægt því að málið byggist á því að ólík sjónarmið gefi eftir, verndun og nýting, og það verður að gerast á öllum stigum. Um það snerist hin faglega vinna verkefnisstjórnar. Það er það sem ráðherrarnir gripu inn í og sem nefndin var síðan ekki tilbúin að endurskoða, eins og fram kom hjá hv. þingmanni þegar hann mælti fyrir meirihlutaáliti sínu.

Það er þess vegna veruleg hætta á því, og ég tel það nær öruggt, að rammaáætlunin og sú þingsályktunartillaga sem við samþykkjum hér sé einungis til sex mánaða. (MÁ: Rugl.) Það er ekki sú faglega vinna og sú faglega nálgun sem við eigum að hafa í máli þar sem mikilvægt er að verndar- og nýtingarsjónarmiðin mætist á miðri leið. Þá er ekki verið að mætast á miðri leið, það er miður. Þess vegna er áætlunin bara til sex mánaða.