141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar en undir það ritar auk þess sem hér stendur hv. þm. Árni Johnsen.

Ég vildi byrja mál mitt á því að ræða að miklar vonir hafa verið bundnar við gerð rammaáætlunar. Við þekkjum öll þau átök sem átt hafa sér stað um virkjunarframkvæmdir á umliðnum árum og tilraunin með rammaáætlun er til þess gerð að skapa breiðari sátt um forsendur fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru í þessu sambandi. Í nefndaráliti 2. minni hluta segir um þetta, með leyfi forseta:

„Unnið hefur verið að gerð rammaáætlunar um langt árabil. Allan tímann var markmiðið að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá mismunandi sjónarhornum, einkum út frá orkugetu og hagkvæmni viðkomandi kosta, þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélag, atvinnulíf og byggðaþróun, og afleiðingum fyrir náttúrufar og náttúru- og menningarminjar. Hugsunin var með öðrum orðum sú að ákvarðanir um nýtingu virkjunarkosta byggðust á víðtæku mati þar sem tillit væri tekið til fjölbreyttra sjónarmiða.

Byggt var á þeirri hugmynd að áfram yrði haldið við nýtingu orkuauðlinda landsins, en ákvarðanir um nýtingu einstakra svæða tækju ekki bara mið af hagkvæmni og efnahagslegum hagsmunum heldur væri einnig tekið tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og margvíslegra félagslegra þátta.

Grunnhugmynd rammaáætlunar var því sú að búa til vinnulag og verkferla, byggða á faglegum sjónarmiðum, sem dregið gætu úr þeim miklu deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum. Með því móti væri líka auðveldara fyrir alla viðkomandi aðila, svo sem orkufyrirtæki, sveitarfélög og önnur yfirvöld, að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir til lengri tíma. Rannsóknir, skipulagsvinna og annar undirbúningur framkvæmda getur tekið langan tíma og mikilvægt að sú vinna beinist að virkjunarkostum og landsvæðum þar sem sæmilegar líkur eru á að framkvæmdir verði heimilaðar. Röðun virkjunarkosta og flokkun þeirra í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk gæti veitt veigamiklar leiðbeiningar um forgangsröðun, jafnvel þótt niðurstöður rammaáætlunar væru ekki endanlegar að öllu leyti. Þannig“ — og ég legg áherslu á það sem hér stendur og hefur oft komið fram í umræðunni, — „þýddi flokkun virkjunarkosts í nýtingarflokk t.d. ekki sjálfkrafa að heimilt væri að ráðast í framkvæmdir, það mundi ráðast af öðrum ákvörðunum og leyfisveitingum á grundvelli annarra laga, svo sem á sviði skipulagslaga, mannvirkjalaga og umhverfislöggjafar.“

Ég vildi einmitt nefna þennan síðasta þátt sérstaklega. Það að flokka virkjunarkosti í nýtingarflokk felur ekki sjálfkrafa í sér að ráðist verði í framkvæmdirnar, en stundum mætti ráða það af umræðunni. Það er ekki sjálfgefið að ráðist verði í allar þær framkvæmdir sem taldar eru upp í nýtingarflokki miðað við tillöguna eins og hún liggur fyrir. Þar getur áfram verið um ákveðnar hindranir að ræða. Þetta er mikilvægt að hafa í huga vegna þess að ágreiningurinn í dag og á fyrri stigum þessa máls snýst ekki síst um mörkin milli nýtingarflokks og annarra flokka.

Ég vísa aftur í nefndarálitið, hæstv. forseti:

„Segja má að allgóð samstaða hafi náðst um vinnu verkefnisstjórnar og faghópa meðan á starfi þeirra stóð. Eftir að þeirri vinnu lauk lá fyrir röðun virkjunarkosta út frá niðurstöðum faghópanna. Var þar auðvitað komin mikilvægur grunnur að frekari vinnu við undirbúning þingsályktunartillögunnar. Áframhaldandi úrvinnsla var í höndum formanns verkefnisstjórnar og formanna faghópanna sem skiluðu drögum að þingsályktunartillögu þar sem 67 virkjunarkostum var skipað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Tók þá við ferli þar sem þessi niðurstaða var sett í umsagnarferli og að lokum skiluðu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra endanlegri tillögu sem byggðist á niðurstöðu formannahópsins með nokkrum veigamiklum undantekningum. Sex virkjunarkostir,“ — sem hér hafa verið nefndir í umræðunni — „þrír í neðri hluta Þjórsár og þrír á miðhálendinu, voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk og var þar um að ræða kosti sem raðast höfðu mjög ofarlega í nýtingarátt í vinnu faghópa og verkefnisstjórnar. Þessi breyting, sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar stóðu að, hefur verið gagnrýnd mjög harðlega innan þings og utan, eins og komið hefur skýrlega fram í umsögnum sem borist hafa um þingsályktunartillöguna og í máli gesta á nefndarfundum, bæði á vorþingi og nú í haust.“

Þingmenn kannast við þá pólitísku umræðu sem orðið hefur um þetta, bæði í þessum sölum og annars staðar. Það sem helst hefur valdið deilum er ákvörðun hæstv. ráðherra Oddnýjar Harðardóttur og Svandísar Svavarsdóttur á síðasta vetri að færa þessa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Auðvitað eru fleiri þættir í þessu máli umdeildir og hefur verið drepið á þá nokkra í dag. Það hafa komið upp mismunandi sjónarmið svo sem um það hvernig flokkunin er varðandi Hagavatnsvirkjun og virkjanir í Skaftárhreppi. Það hefur komið upp ágreiningur um nokkra virkjunarkosti á Reykjanesi sem eru enn í nýtingarflokki eins og sjá má af sérálitum og fyrirvörum sem komið hafa fram af hálfu nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd. Fleiri þættir eru auðvitað umdeildir en ég hygg að sú ákvörðun ráðherranna tveggja að taka þessa sex kosti úr nýtingarflokki og setja í biðflokk sé umdeildasta atriði tillögunnar.

Rétt er að taka fram eins og gert hefur verið að þrátt fyrir að fleiri atriði hafi verið umdeild og menn hafi haft skiptar skoðanir um fleiri kosti er í raun mikill minni hluti þeirra 67 kosta sem eru í tillögunni í ágreiningi. Það er út af fyrir sig jákvætt og sýnir að þrátt fyrir allt hefur þetta starf skilað ákveðnum árangri. Þrátt fyrir að enn séu ágreiningsmál, jafnvel alvarleg ágreiningsmál, á borðinu er samt sem áður ekki deilt um meiri hluta þeirra kosta sem þarna eru tilteknir. En nóg um það.

Rætt hefur verið um forsendur ráðherranna tveggja fyrir þeirri ákvörðun að gera þessa breytingu á þeirri tillögu sem þeim barst frá formannahópnum svokallaða. Vísað hefur verið til þess að ráðherrarnir hafi verið að taka tillit til ákveðinna sjónarmiða sem komu fram í umsagnarferli og vissulega er það rétt. En eins og bent hefur verið á í umræðunni var það auðvitað val þessara ágætu hæstv. ráðherra hvaða umsögnum þeir tóku mark á og hverjum ekki. Þeir velja að taka mark á umsögnum sem lúta í eina átt en velja að taka ekki mið af umsögnum, greinargerðum eða upplýsingum sem ganga í aðra átt. Í máli síðasta ræðumanns og andsvörum við hann voru vangaveltur um það hvenær hann teldi að vikið hefði verið frá hinu faglega ferli og hin pólitíska hönd, eins og það var kallað í umræðunni, hefði farið að fikta í tillögunni. Ég er sammála hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni sem hér talaði síðast að það hafi fyrst og fremst verið á því stigi þegar málið var komið í hendur ráðherranna, þegar þeir gengu endanlega frá tillögunni til þingsins. Ferlið fram að því hafi verið í tiltölulega góðu lagi. En á þessu stigi gera tveir ráðherrar breytingartillögur sem byggja, og tala ég þá auðvitað bara fyrir mig, fyrst og fremst á pólitískum og hugmyndafræðilegum grunni.

Ákvarðanir þeirra byggjast á að því er virðist einhvers konar tilraun til málamiðlunar innan ríkisstjórnar, innan þingflokka ríkisstjórnar þar sem málið var til umfjöllunar um mjög langt skeið eins og menn muna. Málið var reyndar í höndum ráðherranna og ríkisstjórnarflokkanna töluvert lengur en það hefur verið til meðferðar á Alþingi, svo þess sé getið. Það var mánuðum saman í því ferli. Og af því bárust fréttir í fjölmiðlum, hæstv. forseti, þegar þetta mál var í vinnslu á vegum ráðherranna, að ætlunin væri að ganga þannig frá málinu milli stjórnarflokkanna að ekki þyrfti að gera neinar breytingar á málinu í þinginu. Ég held að hv. þingmenn kannist við fréttaflutning af þessu tagi á fyrstu mánuðum ársins 2012.

Það tók tíma fyrir ráðherrana og ríkisstjórnarflokkana að ná sátt sín í milli um einhverja niðurstöðu, ná pólitískri niðurstöðu milli stjórnarflokkanna sem ekki átti eða mátti breyta þegar kæmi inn í þingið. Málsmeðferðin í þinginu hefur einkennst svolítið af því. Ég kvarta ekki yfir því að við höfum ekki fengið tækifæri til að hitta gesti eða tækifæri til að sjá umsagnir og greinargerðir. Ég geri ekki athugasemdir við það. Hitt er annað mál að af hálfu talsmanna ríkisstjórnarflokkanna, bæði í umhverfis- og samgöngunefnd og annars staðar, hefur frá upphafi komið mjög sterkt fram að ekki stæði til að breyta neinu í þessu plaggi. Það væri alveg sama hvaða málsmeðferð eða umræða ætti sér stað í þinginu, ekki stæði til að breyta neinu. Það hefur sett málsmeðferðina í svolítið sérstakt ljós að þeir sem hafa stýrt för hafa vissulega leyft umræðunni að eiga sér stað og hafa kallað eftir umsögnum, ég ætla ekki að kvarta yfir því, og hafa fengið gesti á fundi nefndar, en um leið hefur það alltaf verið yfirlýst stefna stjórnarflokkanna að ekki stæði til að breyta neinu. Sama hvað gerðist í þinginu, engu ætti að breyta, tillagan ætti að fara í gegn eins og hún var samþykkt af ráðherrunum tveimur og eins og hún fór í gegnum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna því að auðvitað var ekki um einkaverkefni hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur og Oddnýjar Harðardóttur að ræða. Þetta var ríkisstjórnarmál sem fór með hefðbundnum hætti eftir því sem okkur skilst í gegnum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og var heimilað þar, þó að vissulega hafi líka komið fram að einstakir þingmenn hafi gert fyrirvara og jafnvel lýst miklum efasemdum um einstaka þætti í tillögunni.

Þarna er vandinn að mínu mati. Það er farið inn í ferli á lokastigi á forsendum sem ég tel að séu pólitískar og byggi á ákveðinni hugmyndafræði. Þegar slík sjónarmið eru farin að hafa jafnmikil áhrif á niðurstöðuna og raun ber vitni liggur í augum uppi að niðurstaðan hlýtur að verða umdeild, niðurstaðan verður ekki í sátt. Þá byggir niðurstaðan á pólitík núverandi ríkisstjórnar og einstakra bandamanna hennar utan ríkisstjórnarflokkanna í hópi óháðra þingmanna eða annars staðar, hún byggir á hugmyndafræði þeirra, ekki á sáttinni. Og það leiðir af sjálfu sér og er engin hótun í því fólgin, það er bara lýsing á staðreyndum, að ef pólitískir vindar blása með öðrum hætti munu þeir sem hugsanlega taka við völdum og komast í meiri hluta á þingi, meiri hluta sem er öðruvísi saman settur en sá sem nú er, ekki telja sig bundna af þeirri niðurstöðu sem hér á að komast að. Það liggur í augum uppi.

Þess vegna er alveg hárrétt sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði í ræðu sinni fyrr í dag að trúlega er bara verið að gera rammaáætlun til sex mánaða. Það er frekar dapurlegt vegna þess að ég hygg að forsendur hefðu verið til að ná mun víðtækari sátt en hér hefur verið reynt. Ég hygg að það hefði verið kostur að fara aftur til þeirrar tillögu sem ráðherrarnir fengu í hendur á sínum tína og halda sig við hana. Þótt skiptar skoðanir séu um einstaka þætti, ég dreg enga dul á að það er ekki 100% hamingja með alla þætti — sumir vilja meiri verndun á sumum sviðum og aðrir vilja meiri nýtingu á öðrum sviðum eins og gengur — hygg ég að niðurstaða sem hefði byggt á þeirri röðun sem kom frá verkefnisstjórn og faghópum og tillögunni sem kom frá formannahópnum, hvort sem hann hafði formlegt umboð eða ekki, hefði verið ákveðinn grunnur að sátt. Þá sátt settu ráðherrarnir því miður út af sporinu með ákvörðunum eða tillögum sínum sem að mínu mati byggja á pólitískum og hugmyndafræðilegum grundvelli frekar en nokkru öðru.

Hæstv. forseti. Í nefndarálitinu vísum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til frumvarps sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrr í haust. Megintilgangur þess var að fela verkefnisstjórn að koma saman að nýju, gera nýja flokkun eða skila af sér tillögum um nýja flokkun virkjunarkosta í samræmi við lögin. Það er að okkar mati heppilegasta leiðin því að jafnvel þótt sá möguleiki væri fyrir hendi að við í þinginu færum að grufla í þessu á okkar forsendum, færa þennan kost upp og þennan niður o.s.frv., töldum við og teljum enn að það væri betra að fela hinni faglegu verkefnisstjórn og faghópum að vinna slíka vinnu. Það væri betri bragur á því og líklegra til að skila árangri.

Nú hefur þetta frumvarp ekki fengið afgreiðslu í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að það er ekki til umfjöllunar eða afgreiðslu í þessari umræðu. En við nefnum þetta í nefndaráliti okkar og það sama gera fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd sem skiluðu umsögn um málið vegna þess að þar er um að ræða leið sem við teljum að hefði verið heppileg og til þess fallin að draga úr deilum og hugsanlega skapa forsendur fyrir rammaáætlun sem gæti haft gildi til lengri tíma.

Miðað við að meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd, og kannski meiri hlutinn í þinginu, það á eftir að koma í ljós, leggi allt kapp á að koma málinu í gegn óbreyttu eins og það kom frá hæstv. ráðherrum Svandísi Svavarsdóttur og Oddnýju Harðardóttur, getum við ekki annað en lagst gegn því. Í því felst að sjálfsögðu engin andstaða við margt í þeirri vinnu sem unnin hefur verið á fyrri stigum málsins. Það er ekki eins og einhvern tíma var sagt í umræðu að við sjálfstæðismenn viljum með þessu setja málið aftur á byrjunarreit. Auðvitað er það ekki svo. Allt sem unnið hefur verið í þessu máli af faghópum, verkefnisstjórn og formannahópi og umsagnir sem hafa komið fram bæði til ráðherra og til þingsins, liggur fyrir. Allt auðveldar það vinnuna í framhaldinu. Þess vegna var hugmynd okkar raunar sú að verkefnisstjórn þyrfti ekki svo afskaplega langan tíma til að fjalla um þau tiltölulega fáu deilumál sem enn eru á borðinu. Það eru ekki óskaplega margir virkjunarkostir sem raunverulegur ágreiningur er um, hygg ég. Með því er ég ekki að segja að ágreiningurinn sé ekki alvarlegur vegna þess að þetta eru hvert um sig stór mál. Bara með þeirri breytingu að færa virkjunarkosti úr nýtingarflokki niður í biðflokk er meira og minna verið að setja stopp á framkvæmdir á sviði vatnsaflsnýtingar á næstu árum. Það er töluvert stórmál.

Það er reyndar dálítið sérstakt, svo ég tali opinskátt, að vatnsaflskostirnir sem eru tiltölulega vel þekktir, vel rannsakaðir og mikil reynsla af, eins og í neðri hluta Þjórsár, og mjög langt komnir í öllu ferli séu settir í biðflokk meðan aðrir kostir sem hugsanlega er meiri óvissa um hvort framkvæmdir eru raunhæfir eða leyfi fást til þeirra, eins og t.d. sumar jarðvarmavirkjanirnar á Reykjanesskaganum, eru hafðir í nýtingarflokki. Það er svolítið sérstakt. Það er ekki hægt að horfa á niðurstöðu ráðherranna og segja sem svo að þarna sé fólk samkvæmt sjálfu sér. Það er ekki þannig. Ég mundi segja að á langflesta mælikvarða eða svo til alla sem lagðir hafa verið til grundvallar hlytu þessar vatnsaflsvirkjanir, þar á meðal í neðri hluta Þjórsár, að vera mjög framarlega meðan óvissuþættirnir varðandi jarðvarmann eru vissulega meiri en í vatnsaflinu.

Ég hef eiginlega ekki áttað mig á því hvaða sjónarmið eða hvaða pólitík býr þarna að baki. Maður áttar sig hins vegar á því að í röðum umhverfisverndarsinna virðist víglínan ef svo má segja vera dálítið mikið dregin við þessar jarðvarmavirkjanir, sumar að minnsta kosti, á Reykjanesskaganum. Þar á eftir að taka mjög margar ákvarðanir fyrir utan rammaáætlun. Ég lít svo á að þó að þær virkjanir séu komnar í nýtingarflokk sé alls óvíst hvort þær nái fram að ganga. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég vilji ekki að jarðvarminn á Reykjanesi verði virkjaður. Ég get haft prívatskoðanir á einstökum virkjunarkostum, það eru margir kostir þarna í stöðunni. Ég held að mjög margir þeirra séu álitlegir en ég er samt þeirrar skoðunar að mjög margar hindranir geti verið á leiðinni áður en hægt verður að nýta þá. Þeir eru settir í nýtingarflokk en á sama tíma eru vatnsaflsvirkjanirnar sem færðar eru úr nýtingarflokki í biðflokk þess eðlis að alla vega í sumum tilvikum væri nánast hægt að hefjast handa þegar í stað og hefur verið hægt í mörg ár Mér finnst þetta sérstakt.

Ég verð að játa að út frá ýmsum forsendum finnst mér vatnsaflsvirkjanir mjög mikið settar til hliðar í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.

(Forseti (ÁÞS): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að forseti hyggst gera hlé á þingfundi núna á næstu mínútu eða svo og spyr hvort þingmaðurinn geti fellt sig við að gera hlé á ræðu sinni áður en langt um líður.)

Hæstv. forseti. Ég er auðvitað ekki sáttur við að þurfa að gera hlé á ræðu minni en ég kýs samt að klára ræðu mína og ræðutíma. Ég þykist líka vita að ég þurfi að svara í andsvörum að lokinni ræðunni og það er kannski að betra að gera það beint í kjölfar þess að ræðunni lýkur frekar en að hringla meira með það.

(Forseti (ÁÞS): Þá þakkar forseti þingmanninum fyrir tilhliðrunarsemina. Nú verður gert hlé á þingfundi til kl. 13.30. Fundi er frestað.)