141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:59]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er einmitt þetta sem ég hef líka verið að horfa til, hvað er að gerast á alþjóðavísu og hvernig Ísland má ekki vera gamaldags í nálgun sinni þegar aðrar þjóðir eru að reyna að hverfa af þessari braut. Þeir Norðmenn sem nú eru taldir framarlega í náttúruverndarmálum hafa algjörlega tekið fyrir frekari vatnsaflsvirkjanir.

Það eru ótrúleg gæði að vera enn þá land sem hefur óröskuð vatnasvið og að eiga kost á því að vernda þau frá upptökum til ósa, það eru forréttindi. Það eru forréttindi sem við megum ekki eyðileggja til framtíðar eða taka ákvörðunarréttinn um það af komandi kynslóðum.

Hv. þingmaður komst ekki vegna tímans í að svara annarri spurningu minni, þ.e. þar sem meiri hlutinn leggur áherslu á að bregðast með einhverjum hætti við gagnrýni á aðkomu orkufyrirtækja eða stjórnsýslu að fjármögnun á óskyldum framkvæmdum í sveitarfélögum. Þetta hefur komið fram t.d. í tengslum við skort á samfélagsrannsóknum og öðru. Það þarf að fara fram, a.m.k. þar sem mjög harðar og harðvítugar og eyðileggjandi deilur eru uppi, einhvers konar stjórnsýsluúttekt eða úttekt á því hvernig gengið hefur verið fram til þess líka að líta á það sem lið í að heila sárin, ef svo má segja. Þetta er einn þeirra þátta sem þarf að taka með í reikninginn þegar talað er um samfélagsrannsóknir, þau sárindi, þau illindi, þær deilur og það eyðileggjandi andrúmsloft sem skapast ef of hart er gengið fram og of hratt er farið í málin.