141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

siglingar Baldurs til Vestmannaeyja.

[10:47]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Vestfirðingar hafa sýnt því skilning þegar óhöpp og erfiðleikar hafa komið yfir Vestmannaeyinga eða ef eitthvað hefur komið fyrir ferjuna Herjólf, en það er auðvitað ekki ásættanlegt að Vestfirðingar séu sviptir ferjusiglingum sínum fyrirvaralaust eins og gerðist núna, ég tala nú ekki um ef það á verða ávani að í hvert skipti verði eina lausnin sem menn sjá á vanda Vestmannaeyinga að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Vestmannaeyjar eru með ágæta útflutningshöfn þannig að ferskfiskútflutningur er ekki í voða þó að ferjusiglingar leggist af og þeir eru með góðar flugsamgöngur tvisvar á dag við Reykjavík. Aftur á móti er engin útflutningshöfn á Vestfjörðum sem gerir það að verkum að vandi matvælaútflytjenda er töluverður þegar slíkt á sér stað.

Það sem ég legg áherslu á hér er með öðrum orðum (Forseti hringir.) að fundin verði langtímalausn á þessu. Ég er ekki viss um að við getum beðið í tvö ár eftir því.