141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013.

Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir að málið gekk til fjárlaganefndar 14. september sl. Nefndin hefur haldið 19 fundi og kallað til sín fjölmarga gesti, m.a. fulltrúa allra ráðuneyta, nokkurra stofnana og sveitarfélaga. Tekið hefur verið upp breytt verklag að því leyti að ekki var sérstaklega óskað eftir álitum annarra fastanefnda þingsins á fjárlagafrumvarpinu.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu á því sem næst allra erinda sem henni bárust. Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við tekjuáætlun frumvarpsins sem nemur 9.276,4 millj. kr. til hækkunar og einnig er breytingartillaga við sundurliðun 2, þ.e. fjármál ríkisaðila í A-hluta, sem nemur samtals 7.755,3 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 579,6 milljarðar kr. og heildarútgjöld 580,9 milljarðar. Nú er því gert ráð fyrir heldur minni halla á A-hluta ríkissjóðs en var í frumvarpinu, eða tæpum 1,3 milljörðum í samanburði við 2,8 milljarða sem áætlað var í frumvarpinu.

Fjárlaganefnd hefur í störfum sínum leitast við að festa í sessi forsendur ríkisfjármálastefnunnar sem fram komu í frumvarpinu en til þess að markmið um hallalausan ríkisrekstur árið 2014 náist má ekki mikið út af bera. Þróun frumjafnaðar án óreglulegra tekna og gjalda er þó jákvæð og ef ekki koma til frekari áföll sem rekja má til afleiðinga hrunsins er ekki ástæða til annars en að ríkisfjármálaáætlunin geti gengið eftir.

Tillögur til hækkunar tekna byggjast alfarið á endurmati fjármálaráðuneytisins á tekjum næsta árs. Arðgreiðslur eru nú áætlaðar 13,5 milljörðum kr. hærri en í frumvarpinu og munar þar langmestu um áætlaðan arð Landsbanka Íslands. Þá er áætlað að skattar á tekjur og hagnað hækki um 4,8 milljarða kr., en á móti vega 4,1 milljarðs kr. lægri vaxtatekjur, 4 milljarða kr. lækkun á söluhagnaði af eignasölu og 1,5 milljarða kr. lægri áætlun um innheimtu tryggingagjalda. Önnur frávik á tekjuhlið fjárlaga eru lægri.

Á gjaldahlið munar mestu um fjárfestingaráætlun sem boðuð var í frumvarpinu og kynnt 8. nóvember sl. Gjaldaheimildir hækka um 5,6 milljarða kr. vegna áætlunarinnar, auk heimildar til þess að veita 500 millj. kr. stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs. Aðrar hækkanir eru af ýmsum tilefnum. Sérstakar ákvarðanir um útgjöld vega þar þyngst, 2,2 milljarðar kr., og þar munar mest um 650 millj. kr. hækkun til tækjakaupa hjá Landspítala og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, auk 325 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn framhaldsskóla.

Breyttar forsendur kalla á 2,2 milljarða kr. hækkanir, þar af vega þyngst 1 milljarður kr. í hækkun á lífeyrisskuldbindingum og 785 millj. kr. til sjúkratrygginga vegna S-merktra lyfja. Á móti hækkunartilefnum er endurskoðuð áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir 3,3 milljarða kr. lægri gjöldum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Þá er lagt til að nokkur ákvæði bætist við 6. gr. frumvarpsins sem varða heimildir til fjármálaráðherra um kaup og sölu eigna, auk áðurnefndrar heimildar til þess að veita 500 millj. kr. stofnframlag til stofnunar græns fjárfestingarsjóðs í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Loks eru lagðar til breytingar á tveimur liðum í B-hluta ríkissjóðs. Annars vegar er gert ráð fyrir að framlag Happdrættis Háskólans til Háskóla Íslands hækki um 333 millj. kr. vegna byggingar Húss íslenskra fræða. Hins vegar er gert ráð fyrir breytingum hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins vegna áforma um hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum og er nú miðað við að arðgreiðslur í ríkissjóð verði 1,2 milljarðar kr. og hækki því um 200 millj. kr. frá frumvarpinu.

Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu byggist frumvarpið á markmiðum í áætlun ríkisstjórnar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Sú áætlun og stefnumörkun um ríkisfjármálin var þáttur í samstarfsáætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og var fyrst kynnt í skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi í júní árið 2009. Meginmarkmið áætlunar í ríkisfjármálum er fyrst og fremst að stöðva þá skuldasöfnun sem leitt hefur af hallarekstri ríkissjóðs í kjölfar hrunsins og snúa þeirri þróun í viðunandi afgang á afkomunni til að gera kleift að grynnka á skuldastöðunni. Þar með verður hægt að draga úr gríðarlegum vaxtakostnaði og þeim miklu ruðningsáhrifum sem hann hefur óhjákvæmilega á framlög til helstu málaflokka ríkisstarfseminnar. Einungis þannig verður unnt að treysta aftur stoðir velferðarsamfélagsins til frambúðar og styrkja stöðu ríkissjóðs nægilega til þess að hann verði í stakk búinn til að mæta sviptingum á alþjóðafjármálamörkuðum, efnahagssveiflum og áföllum sem vænta má í litlu og opnu hagkerfi.

Endurskoðuð þjóðhagsspá frá því í byrjun nóvember gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum frá fyrri spá sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Vöxtur einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingar verður svipaður því sem gert var ráð fyrir í fyrri spá frá því í júní sl. Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,7% á yfirstandandi ári og 2,5% á árinu 2013. Einkaneysla á yfirstandandi ári eykst um 2,7% og fjárfestingar um 10,3%. Frá árinu 2014 og út spátímann er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði að meðaltali 2,5% og einkaneysla vaxi um og yfir 3%. Til samanburðar er því nú spáð að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum okkar verði um 0,7% á yfirstandandi ári og 1,3% á því næsta og nálgist að vera 2,4% á árinu 2014. Samkvæmt spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að verðbólga hér á landi verði ríflega 4,1% á næsta ári á móti 5,3% á því ári sem senn er liðið og lækki síðan enn frekar í kjölfarið.

Í spá Hagstofunnar kemur fram að efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar hafi versnað en viðskiptakjör Íslands á yfirstandandi ári hafi þó verið stöðugri á síðari hluta árs.

Laun hækkuðu mikið á miðju síðasta ári fram á mitt yfirstandandi ár og launavísitalan tók síðan kipp aftur á síðastliðnum haustmánuðum. Hagstofan gerir ráð fyrir því að laun hækki eitthvað umfram það sem felst í gildandi kjarasamningum á árinu 2013. Einkaneysla hefur aukist á síðari hluta árs 2010 eftir mikinn samdrátt tvö árin þar á undan. Mikil aukning hefur verið í einkaneyslu á árinu 2012 þó heldur hafi dregið úr henni á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að heldur hægi á einkaneyslunni á næsta ári þó ekki sé ólíklegt að mati Hagstofunnar að hún verði meiri en spáð er.

Í þjóðhagsspá Hagstofunnar kemur fram að atvinnufjárfestingar hafa aukist frá og með síðasta ári og gert er ráð fyrir aukningu á næstu árum sömuleiðis. Fjárhagsstaða fyrirtækja og heimila hefur haldið áfram að batna í kjölfar afskrifta og endurskipulagningar skulda, aukins hagvaxtar og hækkandi fasteignaverðs. Hagstofan gerir ráð fyrir að útlán til fyrirtækja muni aukast í kjölfar aukinnar fjárfestingar og batnandi stöðu fyrirtækja.

Forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið.

Gerð er tillaga um 280 millj. kr. framlag til forsætisráðuneytisins til að standa undir ýmsum verkefnum sem ráðgerð eru samkvæmt þingsályktun um græna hagkerfið. Þar er um að ræða verkefni í tengslum við fjárfestingaráætlun stjórnvalda þar að lútandi um grænkun fyrirtækja, uppbyggingu þekkingar, fjölgun grænna starfa, meðal annars í samstarfi við sveitarfélög. Einnig er gerð tillaga um 59,5 millj. kr. tímabundið framlag til að standa undir sérstöku átaki í því skyni að byggja upp innviði viðkvæmra en vinsælla ferðamannastaða á friðlýstum svæðum. Samtals eru gerðar tillögur um 250 millj. kr. til uppbyggingar á slíkum stöðum á næsta ári á nokkrum fjárlagaliðum frumvarpsins. Hér er sömuleiðis um að ræða hluta af fjárfestingaráætlun stjórnvalda.

Meiri hlutinn gerir tillögu um að útgjöld til mennta- og menningarmála aukist um ríflega 3 milljarða kr. frá fjárlagafrumvarpinu. Þar er um ýmis útgjöld vegna fjárfestingaráætlunar stjórnvalda að ræða upp á rúma 2 milljarða. Þar undir eru stærstu upphæðirnar bygging Húss íslenskra fræða upp á 800 millj. kr. en áætlaður kostnaður ríkisins við þá framkvæmd eru 2,4 milljarðar. Gerð er tillaga um að 200 millj. kr. verði veitt til húsafriðunarsjóðs og 500 millj. kr. tímabundið framlag til að setja upp sýningu á vegum Náttúruminjasafns Íslands.

Í samræmi við fjárfestingaráætlunina gerir meiri hluti fjárlaganefndar tillögur um 250 millj. kr. útgjöld til skapandi greina en þar undir má nefna framlög til Útflutningssjóðs tónlistar, Myndlistarsjóðs, hönnunarsjóðs, handverkssjóðs, bókmenntasjóðs, starfsemi atvinnuleikhópa og tónlistarsjóðs.

Aðrir stórir liðir í breytingartillögum meiri hlutans utan fjárfestingaráætlunar eru hækkun á framlagi til Háskóla Íslands vegna 5. reikniflokks í reiknilíkani háskólans upp á 108 millj. kr. og af sömu sökum tæpar 50 millj. kr. til Háskólans í Reykjavík. Gerð er tillaga um að útgjöld til Listaháskóla Íslands hækki um 60 millj. kr. vegna fjölgunar nema í meistaranámi sem fjárlaganefnd lagði til að sett yrði af stað í fjárlögum yfirstandandi árs. Lagt er til að útgjöld til framhaldsskóla hækki um 325 millj. kr. eins og áður kom fram sem eru ætlaðar til að bæta rekstrargrundvöll skólanna og að framlag til Kvikmyndaskólans hækki um 35 millj. kr.

Meiri hlutinn gerir tillögur um 213 millj. kr. útgjöld til málaflokka sem heyra undir utanríkisráðuneytið. Gerð er tillaga um 25 millj. kr. framlag til undirbúnings að stofnun aðalræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi og rekstur skrifstofunnar á síðari hluta næsta árs. Gert er ráð fyrir að við skrifstofuna muni starfa einn útsendur sendifulltrúi og einn staðarráðinn ritari. Stofnun skrifstofunnar er liður í aukinni áherslu stjórnvalda á málefni norðurslóða og samskipti við Grænland. Tillagan er sett fram með vísan til þingsályktunar Alþingis frá 10. maí 2010 um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 50 millj. kr. framlag til að auka fjárveitingar til Íslandsstofu vegna greiningar og markaðskynningar á grænum erlendum fjárfestingum hér á landi. Hér er um að ræða eitt af þeim verkefnum í fjárfestingaráætlun Íslands sem kynnt hefur verið.

Gert er ráð fyrir um 40 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu í eitt ár til að standa straum af kostnaði við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Þetta er viðbót við þær 50 millj. kr. sem lagðar voru til í fjárlagafrumvarpinu og er því samtals gerð tillaga um 90 millj. kr. fjárveitingu til viðræðnanna. Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjárþörf vegna viðræðnanna á næsta ári verði um 140 millj. kr. en gert er ráð fyrir að um 50 millj. kr. afgangur af þessum lið á árinu 2012 verði fluttur á milli ára.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 105 millj. kr. hækkun á útgjöldum málaflokka sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Lögð er til tímabundin fjárheimild upp á 41 millj. kr. vegna vinnu erlendrar ráðgjafarstofu í tengslum við makrílviðræðurnar. Einnig er lögð til 64 millj. kr. lækkun á greiðslum vegna mjólkurframleiðslu í samræmi við búnaðarsamning frá 28. september 2012 sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gerðu við Bændasamtök Íslands. Af sömu ástæðum er lögð til 47 millj. kr. lækkun á greiðslum vegna sauðfjárframleiðslu.

Lögð er til 48,3 millj. kr. hækkun á framlagi til Bændasamtakanna vegna þróunarverkefna og jarðræktar sem og 25,8 millj. kr. í Framleiðnisjóð landbúnaðarins en báðir þessir liðir eru hluti af framangreindu samkomulagi.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögur um hækkun á útgjöldum innanríkisráðuneytisins upp á rúma 4 milljarða kr. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag á árinu 2013 í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var á Alþingi í júní sl. Í ályktuninni er kveðið á um að innanríkisráðuneytið beri ábyrgð á að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Einnig er gerð tillaga um 30 millj. kr. fjárheimild vegna innleiðingar á lögum um breytingu á barnalögum sem samþykkt voru á Alþingi við lok síðasta þings. Gerð er tillaga um að tímabundin fjárheimild vegna sanngirnisbóta verði hækkuð um 248,1 millj. kr. Ljóst er að úrskurðaðar bætur sem greiddar hafa verið á yfirstandandi ári eru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Munar þar mestu um bætur vegna vistheimilisins Jaðars en þar voru úrskurðaðar bætur upp á 118 millj. kr. eða 68 millj. kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Lagt er til 32 millj. kr. framlag til ríkissaksóknara til að unnt verði að mæta auknum verkefnum embættisins og tillaga er gerð um aðrar 32 millj. kr. til lögreglustjórans á Suðurnesjum. Meiri hlutinn leggur til að fjárheimild sýslumannsins á Blönduósi verði hækkuð um 20 millj. kr. til að tryggja áframhaldandi rekstur innheimtumiðstöðvar sýslumannsins en þar er um að ræða innheimtu sektar- og sakarkostnaðar á landsvísu ásamt norrænni sektarinnheimtu.

Í samræmi við fjárfestingaráætlun stjórnvalda gerir meiri hlutinn tillögu um 1 milljarðs tímabundna fjárheimild til að standa straum af kostnaði á árinu 2013 við byggingu á nýju fangelsi á Hólmsheiði. Gert er ráð fyrir að hönnunarsamkeppni og fullnaðarhönnun byggingarinnar fari fram á þessu ári en framkvæmdir verði á árunum 2013 og 2014 og fangelsið tekið í notkun á miðju ári 2015. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður 2,5 milljarðar.

Meiri hlutinn gerir tillögu um að 463 millj. kr. tímabundið framlag verði veitt til smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju á næsta ári en hér er um að ræða hluta af fjárfestingaráætlun stjórnvalda. Einnig er gerð tillaga um tæplega 177 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárheimild í samræmi við samgönguáætlun sem gerir ráð fyrir fjárveitingu til Landeyjahafnar og verði 510 millj. kr. á næsta ári sem einnig er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Gerð er tillaga um að fjárheimild til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækki um 437 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun sem lögboðið framlag í sjóðinn af skatttekjum ársins 2013 og útsvarsstofn árið 2012 vísar til. Fjárlaganefnd leggur til að í samræmi við fjárfestingaráætlun stjórnvalda verði 200 millj. kr. veittar í sérstakt átak í því skyni að efla rafræna stjórnsýslu, þjónustu og lýðræði. Það felur í sér stofnfjárfestingu í nýjum tölvukerfum í samstarfi við stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um hækkun á útgjöldum velferðarráðuneytisins upp á ríflega 1,5 milljarða kr. Lagt er til að veitt verði 785 millj. kr. viðbótarheimild til S-merktra lyfja eins og áður hefur komið fram en þar af er áætlaður 325 millj. kr. halli vegna nýrra lyfja sem tekin hafa verið í notkun á árinu 2012 auk þess sem eldri lyfjum hefur verið ávísað í nokkrum mæli vegna annarra sjúkdóma þegar þau voru fyrst tekin í notkun.

Lagt er til að framlag til tannlækninga verði aukið um 100 millj. kr. í því skyni að bæta tannheilbrigði barna og fyrirkomulag á tannlæknaþjónustu við börn. Er það í samræmi við áætlun sem byggist á tillögum starfshóps sem falið var að gera tillögur um hvernig bæta mætti fyrirkomulag tannlækninga barna og tannheilbrigði þeirra til framtíðar.

Lagt er til að fjárheimild umboðsmanns skuldara hækki um 170 millj. kr. en með því er fallið frá fyrirhuguðum samdrætti í starfsemi stofnunarinnar líkt og gengið var út frá í forsendum fjárlagafrumvarpsins. Við yfirferð og vinnslu frumvarps til fjárlaga voru rekstraráætlanir stofnunarinnar yfirfarnar og endurskoðaðar í ljósi stóraukins málafjölda auk þess sem einstök mál reyndust mun flóknari og tímafrekari en gert hafði verið ráð fyrir.

Gerð er tillaga um 20 millj. kr. hækkun framlags til Sjúkrahússins á Akureyri til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni og 12 millj. kr. hækkun til að efla sálfélagslega þjónustu á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja einnig fyrir börn og ungmenni. Að auki er gerð tillaga um 50 millj. kr. til að standa undir aðgerðaáætlun í þágu barna með ADHD-röskun. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 50 millj. kr. tímabundna fjárheimild í eitt ár til að kaupa og endurnýja tækjabúnað á Sjúkrahúsinu á Akureyri en það jafngildir um 70% hækkun miðað við núgildandi fjárlög.

Að sama skapi gerir meiri hlutinn tillögur um 600 millj. kr. tímabundna fjárheimild í eitt ár til að kaupa og endurnýja tækjabúnað á Landspítalanum. Fjárheimildir ársins 2013 til kaupa á tækjum og búnaði verða því samtals um 1 milljarður 81 millj. kr. sem er rúmlega tvöföldun fjárheimildar samkvæmt núgildandi fjárlögum. Landspítalinn fékk enn fremur 150 millj. kr. aukna fjárheimild við 2. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2012 og eru spítalanum því veittar 750 millj. kr. samtals í auknar fjárheimildir til kaupa á tækjum og búnaði.

Meiri hlutinn gerir það að tillögu sinni að dregið verði úr aðhaldskröfum á nokkrar heilbrigðisstofnanir upp á tæpa 90 millj. kr. Einnig er gerð tillaga um 70 millj. kr. tímabundið framlag til að ljúka við hönnun breytinga á húsakosti Sjúkrahússins í Stykkishólmi. Gert er ráð fyrir að þar verði innréttað 15 rýma hjúkrunarheimili sem rekið verði í húsnæðinu ásamt heilsugæslustöð, bakdeild og bráðarýmum.

Meiri hlutinn gerir tillögur um aukin útgjöld fjármálaráðuneytisins upp á 272 millj. kr. Lagt er til að skattrannsóknarstjóra ríkisins verði veitt 36 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár vegna herts skatteftirlits. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að 107,9 millj. kr. tímabundið framlag vegna átaks í skatteftirliti og skattrannsóknum yrði framlengt að hluta til þannig að það lækkaði um þriðjung á árinu 2013 og aftur um þriðjung árið 2014 en félli síðan niður árið 2015.

Gerð er tillaga um 150 millj. kr. fjárheimild til að standa undir verkefnum í tengslum við græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Þar af verði 85 millj. kr. varið til að endurgreiða opinberum stofnunum allt að 20% af kostnaðarverði vöru og þjónustu sem sannarlega uppfyllir nánar tilgreind skilyrði umhverfisvottunar.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir auknar útgjaldatillögur til iðnaðarráðuneytisins og málaflokka sem heyra undir það ráðuneyti upp á tæplega 1,2 milljarða kr. Gerð er tillaga um 450 millj. kr. fjárheimild vegna áætlaðra endurgreiðslna á framleiðslukostnaði við gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta. Tillagan kemur til viðbótar við þær 400 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu þannig að alls eru þessi útgjöld áætluð 850 millj. kr. á næsta ári. Umsóknir sem vilyrði hafa verið gefin fyrir og greiddar hafa verið út á árinu 2013 nema nú um 850 millj. kr. og hefur þá einnig verið tekið tillit til verkefna sem lýkur á yfirstandandi ári en verða ekki að fullu greidd fyrr en á því næsta.

Lögð er til 175 millj. kr. hækkun á fjárheimild til niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu raforku til húshitunar og nemi þar með 1,5 milljörðum kr. á næsta ári. Tillagan er í samræmi við niðurstöðu í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar frá því í desember 2011 en þar er lagt til að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu.

Gerð er tillaga um 15 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að mæta kostnaði við kjarnasýnatöku á Gammasvæðinu. Verða rannsóknir þessar framkvæmdar í samræmi við þingsályktunartillögu um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi sem samþykkt var á 139. löggjafarþingi.

Gerð er tillaga af hálfu meiri hlutans um 50 millj. kr. tímabundið framlag til Byggðastofnunar í tengslum við sóknaráætlun landshluta og er framlaginu varið til sértækra aðgerða í fámennum byggðarlögum sem búa við bráðan vanda vegna fólksfækkunar, einhæfs atvinnulífs, fækkunar starfa og hækkandi meðalaldurs íbúa. Stýrinet ráðuneyta í samráði við Byggðastofnun og samráðsvettvang landshluta mun skipta fjárveitingunni.

Gerð er tillaga um að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái tímabundið 500 millj. kr. framlag til að standa undir þeim markmiðum sem honum er ætlað að sinna samkvæmt lögum. Samkvæmt lögum sem um sjóðinn gilda er hlutverk hans einkum að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt og tryggja öryggi ferðamanna á slíkum stöðum. Þar getur verið um að ræða ferðamannastaði í þjóðgörðum líkt og á Þingvöllum eða í Vatnajökulsþjóðgarði eða á friðlýstum svæðum eins og Geysissvæði eða Friðlandi að fjallabaki svo að dæmi séu tekin. Hér er um að ræða eitt af verkefnum fjárfestingaráætlunar fyrir Ísland sem ríkisstjórnin kynnti í upphafi hausts.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir auknar útgjaldatillögur til umhverfisráðuneytisins upp á 721 millj. kr. Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna refaveiða. Forsenda endurgreiðslu ríkisins til sveitarfélags er að gerður verði samningur til þriggja ára í senn sem byggist á áætlun sveitarfélagsins um að lágmarka það tjón til lengri tíma sem refurinn er talinn valda á landsvæði viðkomandi sveitarfélags.

Meiri hlutinn gerir allnokkrar breytingartillögur til útgjalda hjá umhverfisráðuneytinu í tengslum við fjárfestingaráætlun stjórnvalda. Gerð er tillaga um að 250 millj. kr. verði varið til að standa undir sérstöku átaki í því skyni að byggja upp innviði viðkvæmra en vinsælla ferðamannastaða á friðlýstum svæðum. Þar er meðal annars um að ræða 105 millj. kr. framlag til Umhverfisstofnunar og 57 millj. kr. framlag vegna framkvæmda í Vatnajökulsþjóðgarði. Meiri hlutinn gerir tillögur um 290 millj. kr. framlag til þriggja ára til byggingar á nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í væntanlegu þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri. Áætlaður heildarkostnaður við þennan hluta byggingarinnar sem ríkissjóður stendur að er um 870 millj. kr. Áætlað er að framkvæmdum ljúki árið 2015 og húsið verði opnað í júní það ár. Hér er enn og aftur um að ræða eitt af þeim verkefnum í fjárfestingaráætlun Íslands sem stjórnvöld hafa kynnt.

Áætlað er að vaxtagjöld ríkissjóðs á árinu 2013 nemi 84,1 milljarði kr. og lækki þannig um 4 milljarða frá fjárlagafrumvarpinu eða um 4,5%. Í fyrsta lagi lækkar vaxtakostnaður innlendra lána ríkissjóðs um 1 milljarð frá frumvarpinu og vegna endurmats frá 2013 og í öðru lagi lækkar vaxtakostnaður erlendra lána ríkissjóðs um 3 milljarða kr. frá því sem áætlað var í frumvarpinu.

Forseti. Ég hef stiklað á stóru yfir helstu breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við fjárlagafrumvarp næsta árs. Nokkur stór mál og önnur minni bíða hins vegar 3. umr. fjárlaga. Þar má helst nefna málefni Íbúðalánasjóðs sem hafa verið til umræðu að undanförnu og fjárlaganefnd er þegar byrjuð að funda um. Eins má nefna aðkomu ríkisins að rekstri Hörpu, málefni tveggja háskóla auk þess sem fjárlaganefnd áætlar að taka afstöðu til breytingartillagna vegna reksturs Alþingis sjálfs.

Meginmarkmið fjárlaga síðustu ára hefur verið að ná jöfnuði í fjármálum ríkisins í samræmi við áætlun þar um. Með það að leiðarljósi hefur verið unnið markvisst að því að draga úr útgjöldum ríkisins ásamt því að afla ríkissjóði tekna til að standa við skuldbindingar sínar. Um þau markmið er í sjálfu sér enginn ágreiningur en vissulega er deilt um leiðirnar að markinu.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar kaus í þessu skyni að fara blandaða leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum. Nú þegar komið er að því að ræða síðasta fjárlagafrumvarp kjörtímabilsins er ljóst að sú leið hefur reynst okkur farsæl, þ.e. að fara bil beggja og draga þannig eins og kostur hefur verið úr mesta sársaukanum í kjölfar hrunsins 2008.

Þeir eru vissulega til hér í þessum sal sem hefðu gjarnan viljað ganga enn lengra og draga enn meira úr útgjöldum og umfangi samneyslunnar en gert hefur verið. Þær eru þó sem betur fer, tel ég, fleiri raddirnar sem telja að lengra verði tæpast gengið í þá áttina.

Frá hruni hafa verið lögð fram og samþykkt hér á Alþingi mörg erfið fjárlagafrumvörp, fjárlög sem hafa verið brennimerkt hruninu sjálfu og afleiðingum þess. Þau reyndust mörgum okkar erfið, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu, og margar þungar ákvarðanir hefur þurft að taka sem eflaust hafa margar hverjar haldið vöku fyrir fleirum en þeim sem hér stendur. En þær voru óumflýjanlegar og engin leið að komast undan þeim enda hefði það verið fullkomið ábyrgðarleysi.

Því hefur jafnan verið haldið fram í umræðum um fjárlög síðustu ára að þau séu alfarið á ábyrgð þingmanna ríkisstjórnarflokkanna en aðrir geti þvegið hendur sínar af þeim og vikið sér þannig undan ábyrgð. Auðvitað er það svo að meiri hluti þingsins, hvernig sem hann er skipaður hverju sinni, ber ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hér eru teknar. Ég kýs þó að líta svo á að þrátt fyrir hefðbundna skiptingu á milli minni og meiri hluta við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni höfum við öll axlað ábyrgð með einum eða öðrum hætti á því sem hér hefur verið gert.

Fjárlagafrumvarp og breytingar á því eiga sér langan aðdraganda og að baki er mikil vinna, ekki eingöngu af hálfu stjórnarliða heldur einnig og ekki síður af hálfu stjórnarandstæðinga. Þannig hefur fjárlaganefnd haft rúman tíma í haust til að fjalla um fjárlagafrumvarp næsta árs frá ýmsum hliðum milli umræðna hér í þingsal. Þannig hefur rökræðan orðið til þess að skerpa sýn okkar á málið sjálft og leitt til þess að frumvarpið tekur nú væntanlega breytingum í samræmi við tillögur þar um.

Það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér um í dag, að teknu tilliti til þeirra breytingartillagna sem gerðar eru, er að mínu mati tímamótafrumvarp. Það er til marks um að við höfum náð þeim tökum á efnahagslífi þjóðarinnar sem við stefndum að. Þar með er ekki sagt að héðan í frá getum við slakað á og gefið lausan tauminn við stjórn ríkisfjármála, það er langur vegur frá því. Hrunið mun hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf og lífskjör þjóðarinnar um langan tíma, jafnvel áratugi. Skuldir þjóðarinnar eru miklar, vaxtagreiðslur gríðarlega háar og nú fjórum árum frá hruni þarf ekki mikið út af bregða í umhverfi okkar, jafnt hér heima sem á alþjóðavettvangi, til að setja okkur út af laginu.

Þótt augljós árangur hafði náðst við uppbyggingu efnahagslífsins frá hruni er pólitíski árangurinn ekki minna athyglisverður. Þrátt fyrir öll ósköpin sem á þjóðinni hafa dunið hefur tekist að halda allri meginstarfsemi samfélagsins gangandi þó að víða hafi vissulega verið hert að. Það höfðu ekki margir trú á því veturinn 2008–2009 að takast mundi að haga málum með þeim hætti.

Heilbrigðis- og velferðarkerfið hefur verið varið eftir föngum, menntakerfið sömuleiðis og hvort tveggja á sinn hátt þannig orðið að hrygglengjunni í því að halda samfélaginu saman á meðan verstu áföllin gengu yfir okkur. Það var ekkert sjálfsagt mál að þannig yrði það og það þurfti ekkert endilega að gerast þannig. Því réðu pólitískar ákvarðanir stjórnvalda umfram annað.

Tekjuöflun hefur verið hagað með þeim hætti að um leið og fjármuna hefur verið aflað í ríkissjóð hefur jafnhliða verið reynt að dreifa aukinni og óumflýjanlegri skattbyrði með réttlátari hætti en áður hefur verið gert og það hefur tekist betur en menn þorðu að vona.

Það er reyndar þannig að á erfiðleikatímum skerpast hinar pólitísku áherslur frekar en áður og átakalínurnar í stjórnmálum verða greinilegri. Þannig hefur það verið frá upphafi kjörtímabilsins sem hefur markast af átökum um hugmyndafræði sem aðskilur meiri hluta og minni hluta á Alþingi. Það er því ánægjulegt fyrir okkur sem höfum staðið vaktina frá vorinu 2009 að geta nú lagt fram fjárlagafrumvarp sem hér um ræðir. Á þeim tíma hefur orðið meiri viðsnúningur í fjármálum ríkisins en dæmi eru um frá stofnun lýðveldisins. Við höfum fundið viðspyrnuna inn í framtíðina og erum komin upp úr því efnahagslega fúafeni sem mörg okkar töldu okkur vera að festast í til frambúðar fyrir aðeins þremur árum.

Ég þykist vita að stjórnarandstaðan muni ekki vera mér sammála um þetta heldur þvert á móti telja fjárlagafrumvarp ársins 2013 vera til marks um mistök og óstjórn. En það mun verða þeim erfitt að færa haldgóð rök fyrir því. En geri þeir það er ég tilbúinn í þá rökræðu hér og nú eins og ég hef verið hingað til.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka samstarfsmönnum mínum í fjárlaganefnd þá vinnu sem að baki er við að útbúa fjárlagafrumvarp næsta árs til þingsins. Ekki síður vil ég færa starfsmönnum fjárlaganefndar miklar þakkir fyrir sín störf sem hver um sig á þær svo sannarlega skilið.

Undir nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar og þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram og ég hef gert grein fyrir í grófum dráttum skrifa: Björn Valur Gíslason, Guðrún Erlingsdóttir, Magnús Orri Schram, Valgerður Bjarnadóttir og Lúðvík Geirsson.