141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:58]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að ég hafi varast það áðan að draga upp nokkra einustu glansmynd af stöðu ríkisfjármála. Við vorum að fara yfir staðreyndirnar sem eru nákvæmlega þær að nokkru jafnvægi hefur verið náð í ríkisrekstrinum þannig að ekki var talin þörf á að skera frekar niður í grunnþjónustu og innviðum samfélagsins sem skiptir miklu máli.

Tekjustofnarnir eru traustir og það verður væntanlega tíundað í umræðu hér á morgun, ef ég hef skilið það rétt að hæstv. fjármálaráðherra mæli þá fyrir þeim hluta, þannig að við fáum betri tíma til að fara í gegnum það við þá umræðu. Það er ekki um að ræða tugmilljarða aukningu fyrir 3. umr. Ef ég hef skilið það rétt er verið að tala um útgáfu á skuldabréfi vegna Íbúðalánasjóðs, einhvern hundruð milljóna vaxtakostnað vegna þess, og síðan útgjöld til Hörpunnar, löggæslumála og nokkurra annarra þátta. Ég held að verið sé að tala um nokkur hundruð milljónir frekar en tugi milljarða vegna þess að Íbúðalánasjóðsmálið er skuldabréf þar sem vaxtaþátturinn kemur beint inn í útgjaldahliðina.

Annað stórt mál sem hv. þingmaður spurði um áðan snýr að löggæslunni. Ég get staðfest að við höfum rætt það töluvert bæði í fjárlaganefnd og sérstaklega í allsherjar- og menntamálanefnd í vetur að taka þurfi sérstaklega á almennu löggæslumálunum úti á landsbyggðinni þar sem eru mjög fámenn lið. Það er öðruvísi á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru fjölmennari sveitir og hægt að mæta því öðruvísi. Frekari samdráttur í fámennum liðum úti á landi þýðir einfaldlega að starfið fellur nánast saman á fámennum vöktum. Ég get því staðfest að það stendur til að leggja til löggæslumálapott fyrir 3. umr. þannig að hægt sé að (Forseti hringir.) koma í veg fyrir frekari fækkun í lögregluliðunum úti á landi.