141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins í kvöld. Ég velti fyrir mér, ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda, hvort lesa megi það úr ræðum þingmanna að fyrsta verk þessa ágæta flokks verði að lækka skatta einn, tveir og þrír og bregðast þannig við þeirri óáran sem þessi ríkisstjórn hefur vissulega lagt á þjóðina og fyrirtækin með gífurlegum skattahækkunum. Ástæða þess að ég spyr er að ég held að ekki sé hægt að gera það einn, tveir og þrír, ég tel að það þurfi að gera varlega og í smáskömmtum því að við þurfum að hafa tækifæri til að fá tekjur inn á móti.

Ég segi það líka vegna þess að mér hefur sýnst að stjórnarþingmenn tali bæði óvarlega um útgjöld núna fyrir kosningar og aðrir velta þá kannski fyrir sér hvort hægt sé að standa við þau útgjöld öllsömul. Aðaláhyggjuefni mitt er að búið sé að koma þannig málum fyrir að ekki verði hægt að afnema skattana alla á fyrstu sex mánuðunum, það þurfi aðeins lengri tíma vegna þess að við verðum að fá tekjur annars staðar.

Nú er hv. þingmaður reyndari í þingstörfum en sá er hér stendur og kann því að vita meira um þá aðferðafræði sem notuð er. Þetta er sú spurning sem ég vil leggja fyrir hv. þingmann.