141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög vinsælt þessa dagana að ræða stöðu Íbúðalánasjóðs, bæði af stjórnmálamönnum og öðrum í samfélaginu. Ég held að það sé ágætt fyrir menn að rifja upp að ástæðan fyrir því að farið var í að breyta Íbúðalánasjóði árið 2004 var að húsbréfakerfi Jóhönnu Sigurðardóttur var komið að fótum fram. Það gekk ekki. Einstaklingar töpuðu hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum á því að vera að taka upp og skipta með þau húsbréf sem þá voru í gildi.

Menn hafa gagnrýnt hvaða leið var farin árið 2004 og látið eins og það hafi bara komið af himnum ofan að menn skyldu fara í þær breytingar sem gerðar voru. Það var að sjálfsögðu ekki þannig. Bæði erlendir og innlendir ráðgjafar ráðlögðu að farin yrði sú leið að fara með óuppgreiðanleg bréf þannig að betri kjör fengjust á lánum sem Íbúðalánasjóður gæti lánað út. En menn gleyma því hins vegar að bankarnir komu á sama tíma inn á markaðinn af fullum krafti. Bankarnir sáu þar færi og ætluðu sér að knésetja Íbúðalánasjóð, eins og allir vita. Á fyrstu þremur mánuðunum eftir breytingarnar árið 2004 voru lán úr Íbúðalánasjóði greidd upp fyrir 100 milljarða. Þegar upp var staðið voru 300 milljarðar greiddir upp.

Í dag sýnist mér að það sé að endurtaka sig. Bankarnir lána nú óverðtryggð lán en Íbúðalánasjóður gerir það ekki. En á sama tíma á Íbúðalánasjóður 50–60 milljarða kr. í lausu fé sem geymt er í Seðlabankanum í raun með neikvæðum vöxtum. Við verðum að átta okkur á því, kæru þingmenn og virðulegi forseti, að vandi Íbúðalánasjóðs er búinn til af einhverjum öðrum en sjóðnum sjálfum með því umhverfi sem hann er í. Við vitum að bankarnir hafa enn þá mikla þörf fyrir allt það fé sem er á markaði og vilja gjarnan lána út öll húsnæðislán sem hægt er að lána. En ég get fullvissað hæstv. forseta um að það er í það minnsta ekki á stefnuskrá framsóknarmanna að leyfa bönkunum að ráða húsnæðislánamarkaðnum.