141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að allir geri kröfu á ríkissjóð þegar ástandið í samfélaginu er eins og það er. Það er litið til ríkissjóðs þegar á bjátar eða þegar vantar fjármuni inn í verkefni sem annaðhvort eru áhugaverð, geta á endanum skilað arði inn í samfélagið, eða einhverju öðru. Það er vitanlega mikið áhyggjuefni og óeðlilegt þegar gefið er í skyn að staða ríkissjóðs sé þannig að hægt sé að verða við öllum þeim óskum. Ég tala nú ekki um að hún fari svo hratt batnandi að það sé hægt að uppfylla kraftaverk nánast á næsta ári eða þarnæsta ári, þegar tölurnar tala allt öðru máli. Það hlýtur því að vera forgangsverkefni þeirra sem ráða för í samfélaginu og stýra þjóðarskútunni, ef ég má orða það þannig, að finna leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs til að standa við skuldbindingar sínar og standa undir væntingum í framtíðinni. Það ferli sem nú er hafið er (Forseti hringir.) ekki til þess að koma okkur á leiðarenda.