141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að það sé alveg borð fyrir báru til að vinna ýmis þörf og góð verkefni sem ekki eru inni í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir hér. Ég tel hins vegar að við þurfum að forgangsraða öðruvísi en við höfum gert. Það þýðir að til að hafa borð fyrir báru þurfum við að henda út einhverjum tilteknum verkefnum sem við segjum um: Það er engin þjóðarvá þótt þau bíði í eitt, tvö, þrjú, fjögur ár. Ekki nokkur.

Það sem dregur best fram hversu fátæklega allt er unnið hjá okkur kristallast ágætlega í umræðunni um t.d. ný áform um skattlagningu á ferðaþjónustuna, bæði bílaleigur og gistingu. Það er í mínum huga ekki boðlegt að stjórn, stjórnarandstaða og hagsmunaaðilar þurfi í rauninni að rífast um það og nái ekki samkomulagi um hver hin raunverulegu áhrif af þeirri fyrirhuguðu gjaldtöku séu. Hvað veldur því að íslenskt þjóðfélag, sem telur sig þokkalega menntað, vel upplýst og framsækið, getur ekki haft sama skilning á því hver áhrifin af einni tiltekinni skattbreytingu verða á tiltekna atvinnugrein og þar með hver áhrif þess verða á ríkissjóð. Það er eitthvað að í systeminu hjá okkur þegar við vinnum það þannig. Ég fullyrði að því þurfum við að breyta.

Út af síðustu spurningu hv. þingmanns, sem ég þakka andsvarið, vil ég leggja áherslu á að löggæslumálin eru eitt af þeim verkefnum sem hafa setið allt of mikið á hakanum en ég tel fullfært að grípa til ráðstafana til að bæta úr því.