141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu, en það vantaði í hana nokkur atriði. Hann sagði að upplýsingar um tekjur og gjöld skiptu verulegu máli og það er rétt. En það sem ég tel að skipti meira máli er að menn fari að stjórnarskrá.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi herra forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Nú kemur í ljós að ríkisreikningur, sem kemur ári seinna eða svo, er oft mikið hærri í gjöldum en fjáraukalögin. Þá hefur einhver greitt peninga úr ríkissjóði án heimildar, og það brýtur ekki bara fjárreiðulögin, það brýtur stjórnarskrána sjálfa. Þetta ákvæði er ekki út í bláinn í stjórnarskránni.

Ákvæðið er óbreytt í hugmyndum að nýrri stjórnarskrá, það er til þess að halda uppi aga í ríkisrekstrinum. Nú er mönnum í lófa lagið að flytja fjáraukalög hvenær sem er og gætu flutt fjáraukalög síðasta dag ársins og sagt: Hér vantar fyrir Sparisjóð Keflavíkur eða eitthvað slíkt, ákveðnar upphæðir. En það munar óskaplega miklu. Ég er búinn að spyrja nokkrum sinnum að því og vil biðja hv. þingmann, sem er í nefndinni, að óska eftir lista yfir það hvernig fjáraukalög skilgreindu gjöld og tekjur, og hvernig ríkisreikningur skilgreindi gjöld og tekjur, og hvað það munar miklu þarna á, frá árinu 2000.

Ef það munar eitthvað á gjöldunum hefur einhver brotið þessa reglu og ekki nóg með það heldur hefur hann brotið 49. gr. fjárreiðulaganna:

„Forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila bera ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni.