141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það kann vel að vera að það hafi vantað töluvert í mína ræðu en tíminn var knappur. Þó svo að forseti hafi lengt ræðutímann um tíu mínútur, þá dugði það ekki til. Ég kom hins vegar inn á þennan hallarekstur og umframakstur milli fjárlaga hvers árs og ríkisreikningsins.

Þessar upplýsingar sem hv. þingmaður kallar eftir eru til. Við höfum getið um þær í framsögu okkar og umræðum hér, a.m.k. fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Ef ég man rétt kváðu t.d. fjárlög eftir fjáraukalög ársins 2011 á um það að hallinn yrði 70 milljarðar. Ríkisreikningurinn fyrir það ár hljóðar upp á 123 milljarða, það er mismunur upp á 53 milljarða.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta stenst ekki þau ákvæði sem hann vitnar til í lögum. Við getum verið alveg sammála um að það hefur verið farið mjög frjálslega með. Þetta er nokkuð í þeim „kúltúr“ í umgengni um fjárlög íslenska ríkisins sem verður að breyta. Með öðrum orðum, ég deili alveg nákvæmlega sömu skoðunum í þessum efnum og hv. þingmaður.

Ég ætla að minna á eitt dæmi sem er yfir höfðum okkar núna og væri ágætt að heyra álit hv. þingmanns á, hvort hann telji ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og skuldbindingum hans. Ég er sannfærður um að þær eiga eftir að detta yfir ríkissjóðinn, en mér vitanlega hefur Alþingi Íslendinga ekki samþykkt sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs.