141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til, ef hv. þingmaður hefur hlýtt á ræður mínar um fjáraukalögin, að ég lofaði þetta, þakkaði fyrir það og hvatti menn jafnframt til að bæta um betur. Mér skilst að stórfyrirtæki eins og Microsoft og IBM séu komin með ársreikninginn — sem spannar allan heiminn — um 15.– 20. janúar ár hvert fyrir síðasta ár, og það er eitthvað sem við eigum að stefna að. Ríkisreikningur á að liggja fyrir í byrjun febrúar, segjum það bara. Það er metnaður, það er markmið sem við eigum að setja okkur og gæti verið mjög jákvætt.

En ég var að benda á þessi stóru göt sem eru falin eins og Sparisjóður Keflavíkur, eins og Íbúðalánasjóður núna. Talað er um að 13 milljarðar, að mig minnir, eigi að fara inn í hann, en það er greinilegt, herra forseti, og það vita allir, að sú tala verður miklu hærri. Af hverju er verið að fela svona? Fyrir hverjum? Ég vil gjarnan að menn horfi nánar á þetta.

Ég er mjög ánægður að heyra að 100 forstjórar hafi fengið tilsjónarmenn, en er það virkilega nóg, herra forseti? Menn halda laununum sínum og halda stöðunni og öllu og ekkert gerist. Mér finnst að þetta fólk eigi að hætta og leita sér að annarri vinnu. Það getur farið að skúra einhvers staðar.