141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og þörf. Ég veit ekki hvort menn hafi ímyndað sér hvað gerist í lífi karls eða konu þegar viðkomandi fellur úr skóla. Það gerist nefnilega heilmikið. Í fyrsta lagi bregst viðkomandi vonum foreldra sinna og ættingja og sjálfs sín með því að hætta. Hann verður fyrir sálfræðilegu áfalli, geri ég ráð fyrir. Ég reikna með því að hann verði á einhvern hátt niður brotinn og þannig fer hann út í lífið. Hann fer kannski að vinna einhvers staðar eða á aðra námsbraut, tekst að rífa sig upp eða ekki. Ég tel að þetta sé óskaplega mikil sóun á mannauði hjá einni þjóð. Við höfum ekki efni á þessu.