141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé einhvers staðar hér í húsi. Ég hefði hug á að heyra afstöðu ráðherrans til ákveðinna atriða sem valda mér í það minnsta …

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að ráðherrann verði viðstaddur umræðuna og svari þeim spurningum sem þingmaðurinn mun beina til hennar. Forseti hefur gert ráðstafanir til þess.)

Virðulegi forseti. Ég þakka það kærlega.

Fyrst vil ég segja að þeirri stöðu sem við erum í er kannski best lýst þannig: Það er of skuldsettur ríkissjóður, það eru of skuldsett fyrirtæki og það er of skuldsettur almenningur. Þetta er sú staða sem íslenskt þjóðarbú er í. Það er við þær aðstæður sem lagt hefur verið fram frumvarp til fjárlaga sem við ræðum nú. Spurningin sem hlýtur að brenna á okkur öllum er þessi: Hvernig hjálpar og styður frumvarpið við efnahagsaðgerðir til að leysa þann vanda sem ég lýsti, þ.e. of skuldsettur ríkissjóður, of skuldsett fyrirtæki og of skuldsettur almenningur. Það er rétt að líta til nokkurra þátta, því að þetta er hin stóra mynd sem rammar inn stöðuna, en auðvitað eru fjölmörg önnur atriði sem lúta að hagstjórninni sem skipta máli.

Ég ætla fyrst að taka það til og benda á að í Skýrslu um efnahagsstefnu. Þjóðhagsáætlun 2013, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram 13. september 2012 segir, með leyfi forseta:

„Slík heildarumgjörð“ — þ.e. heildarumgjörð um hagstjórnina — „þarf að byggjast á samþættingu þeirra hagstjórnartækja sem beita á þar sem verkaskipting er skýr og hver eining er nægilega burðug til þess að hún geti tekist á við þau mörgu og flóknu álitaefni sem lítið, opið og sveiflukennt hagkerfi, líkt og það íslenska, stendur frammi fyrir. Með þetta að leiðarljósi voru hagstjórnarverkefni efnahags- og viðskiptaráðuneytisins flutt í nýtt ráðuneyti fjármála og efnahagsmála 1. september 2012. Þessi skipulagsbreyting mun styrkja þá vinnu sem nú stendur yfir um mótun nýrra heildstæðra fjárreiðulaga sem mynda eiga umgjörð fyrir enn betri stjórnun ríkisfjármála. Auk þess gefst tækifæri til þess að styrkja beitingu ríkisfjármálanna sem hagstjórnartækis, en alþjóðlega fjármálakreppan hefur sýnt svo ekki verður um villst að ríkisfjármálin hafa mikilvægu hlutverki að gegna, bæði í aðdraganda og kjölfar efnahagsáfalla.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti.

Þá er rétt að líta til þess sem Seðlabankinn hefur látið frá sér fara um frumvarpið. Ég vitna til nefndarálits 1. minni hluta fjárlaganefndar. Þar er rætt meðal annars um varnaðarorð Seðlabanka Íslands en þar segir, með leyfi forseta:

„Bankinn telur að nokkur óvissa sé um forsendur fjárlaga og hætt sé við að verr gangi að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera en þar sé gert ráð fyrir, sérstaklega þar sem stjórnvöld hafi ekki innleitt formlegar fjármálareglur.“

Einnig er rætt um áhyggjur bankans um tekjuliði og að útgjöld vaxi á kosningaári o.s.frv.

Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég tek þetta saman, þessi ágætu orð sem birtust í Skýrslu um efnahagsstefnu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og síðan tilvitnuð orð frá Seðlabankanum, er auðvitað sú að það er hárrétt sem sagt er að rekja megi stóran hluta af þeim vandamálum viðskiptabankanna sem við var að etja á árunum fyrir hrun til þess að ekki var nægilegt samræmi á milli ríkisfjármálanna og reyndar hinna opinberu fjármála, þ.e. sveitarfélaganna einnig, og þess sem Seðlabankinn var að gera. Seðlabankinn var með öðrum orðum með það verkefni samkvæmt lögum að reyna að koma í veg fyrir verðbólgu, hafði eitt markmið, og hafði til þess það tæki að hækka eða lækka vexti eftir því sem þurfa þætti. Fundið hefur verið að því með réttu að stefnan í ríkisfjármálum hafi ekki verið í samræmi við það sem Seðlabankinn lagði upp með.

Virðulegi forseti. Augljóst er þegar litið er til frumvarpsins og til þeirra athugasemda sem Seðlabankinn hefur látið frá sér fara að mikið vantar upp á að þetta samræmi sé, að þessi umgjörð sé um hagstjórnina þar sem tryggt er að einstakir þættir hennar verki saman. Mikið vantar upp á að svo sé. Fjárlagafrumvarpið er ekki til þess fallið að draga úr verðbólguþrýstingi. Það er því ekki til þess fallið að auðvelda Seðlabankanum verkefni sitt.

Þegar við horfum á stóru myndina er það kannski eitt af því sem er alvarlegt — af því að oft hefur í þessum ræðustól verið rætt um mikilvægi þess að læra af hruni viðskiptabankanna, þeirrar atburðarásar sem leiddi til þess, og að hagstjórn á Íslandi þurfi að vera markvissari en hún var. Við hljótum því að spyrja í þinginu, hv. þingmenn, hverju það sæti að Seðlabankinn skuli setja frá sér slíkar yfirlýsingar sem hann hefur gert. Og er rétt að hafa það í huga þegar menn lesa yfirlýsingar Seðlabankans að þar á bæ gæta menn mjög orða sinna, fara mjög varlega og ber að lesa svolítið á milli línanna þegar Seðlabankinn tjáir sig og lýsir yfir áhyggjum sínum. Þetta var það sem ég vildi fyrst nefna, virðulegi forseti.

Ég þakka virðulegum forseta fyrir að hafa hvatt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hingað til okkar í þingsalinn því að það sem ég vildi reyna að sjá er hvort hæstv. ráðherra gæti aðstoðað mig við að glöggva mig á einu atriði, ég hreint út sagt átta mig ekki á ákveðnum þætti málsins. Ég horfi á kaflann Stefna og horfur í fjárlagafrumvarpinu. Á bls. 54 stendur, með leyfi forseta:

„Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að verðbólga fari lækkandi frá árinu 2012 en að innlendir sem og erlendir vextir hækki og að gengi krónunnar muni veikjast frá fyrra ári.“

Ég er að reyna að koma þessu saman og hafði velt því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra gæti aðstoðað mig við það. Gert er ráð fyrir að verðbólgan fari lækkandi en á sama tíma muni Seðlabankinn hækka stýrivexti sína og að gengið fari lækkandi. Þetta er ein af forsendunum sem eru gefnar fyrir þróun vaxtagreiðslna ríkisins. Ég játa það, virðulegi forseti, og getur vel verið að mér yfirsjáist eitthvað í þessu, en ég skil þetta ekki alveg. Hér stendur og ég ætla bara að endurtaka það:

„Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að verðbólga fari lækkandi frá árinu 2012 en að innlendir sem og erlendir vextir hækki og að gengi krónunnar muni veikjast frá fyrra ári.“

Ég velti fyrir mér hvernig þessi atburðarás á sér stað, hvort einhverjar breytingar hafi orðið hjá Seðlabankanum sem gera það að verkum að þegar verðbólgan lækki muni hann hækka vextina. (PHB: Hækka raunvexti.) Svo hitt líka að gengi krónunnar fari lækkandi (Gripið fram í.) á sama tíma og verðbólga fari niður. (Gripið fram í.) Ég átta mig ekki alveg á þessu, virðulegi forseti.

Gert er ráð fyrir að erlendir vextir hækki. Ef ég man rétt hefur bandaríski seðlabankinn lýst því yfir að vextirnir muni ekki hækka fyrr en árið 2015, það er yfirlýsing þess banka um að svo verði ekki. Ég held að það sé nú varla nokkur maður sem líti svo á og meti stöðuna svo á evrusvæðinu að fram undan sé tímabil vaxtahækkana hjá Evrópska seðlabankanum. (PHB: Ekki á þýskum ríkisskuldabréfum.) Nei, hér kallar hv. þm. Pétur H. Blöndal fram í: Ekki á þýskum ríkisskuldabréfum. Ég held að það sé alveg rétt. (Gripið fram í: Í mínus.) Hér er gert ráð fyrir því í þeim forsendum að erlendir vextir hækki.

Virðulegi forseti. Ég reikna með að ábyrgðarmaður þessa skjals, hæstv. fjármálaráðherra, geti gefið okkur einhverja skýringu á þeirri nálgun og þessari hugsun. Enn og aftur, það getur vel verið að mér yfirsjáist eitthvað í þessu. Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að ef verðbólgan fer lækkandi og vextirnir standa í stað hefur það auðvitað áhrif á raunvaxtastigið o.s.frv. En það að erlendir vextir hækki og krónan veikist og verðbólgan lækki, það væri í það minnsta einnar messu virði að fá það fram frá hæstv. ráðherra hvernig þetta er hugsað. Í það minnsta á ég pínulítið erfitt með að átta mig á því.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, virðulegi forseti, þetta skiptir máli vegna þess að einn af aðalútgjaldaliðum ríkissjóðs, einn helsti útgjaldaliður ríkissjóðs, er einmitt vaxtagreiðslurnar. Þær hafa verið að aukast og eru núna orðnar á eftir heilbrigðismálum og velferðarmálum einn helsti útgjaldaliðurinn. Ef ég man rétt er nettógreiðslan einhvers staðar í kringum 60 milljarðar, (Gripið fram í: 88.) heildargreiðslan, brúttó, 88 milljarðar og svo vaxtatekjur, þannig að nettóstaðan er rétt rúmlega 60 milljarðar. Útgjöld okkar vegna Landspítalans voru síðast ef ég man rétt um 40 milljarðar. Því er um að ræða gríðarlega háar fjárhæðir.

Þá kem ég að næsta þætti sem snýr að mati okkar á því hvort þetta frumvarp til fjárlaga sé rétt smíðað og heppilegt. Við vitum að fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs er lágur vegna þess að hér eru höft. Menn komast ekki út úr landinu til að fjárfesta annars staðar sem þýðir að aðgengi ríkissjóðs að fjármagni er betra sem því nemur, þar af leiðandi vaxtakjörin í kjölfarið. Við þurfum og verðum að afnema gjaldeyrishöftin, það verður að gerast. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vaxtakostnaðurinn fari hratt niður, að jöfnuður verði sem fyrst í rekstri ríkissjóðs og að hann greiði niður skuldir. Af því að þegar höftunum verður lyft er augljóst hvað mun gerast. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs mun hækka. Ekki má mikið út af bera í því, virðulegi forseti, til að það fari að hafa verulegar og alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu ríkissjóðs, nóg er nú samt.

Ég get ekki séð að fjárlagafrumvarpið sé hugsað sem liður í því að afnema höftin. Það sem skiptir máli að mínu mati er, rétt eins og svo ágætlega er talað um í Skýrslu um efnahagsstefnu. Þjóðhagsáætlun 2013, lögð fram af fjármála- og efnahagsráðherra, að samhengi sé í efnahagsstefnunni milli ríkisfjármálanna og peningamálanna og stjórn peningamála þannig að við náum settum markmiðum. Væntanlega er eitt af þeim markmiðum, og sennilega eitt það mikilvægasta, að skapa aðstæður til að við getum lyft höftunum. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð og ekki er hægt að fullyrða það að frumvarpið skapi eða auki á líkurnar á því eða geri það auðveldara að afnema höftin. Okkur liggur svo á að gera það. Það skiptir svo miklu máli að komast í að lyfta höftunum því að skaðinn sem þau valda okkur vex dag frá degi. Hann verður meiri og meiri og verst er að við sjáum það ekki alltaf. Það getur verið erfitt að koma auga á skaðann en hann er vissulega til staðar. Ekki þarf að líða langur tími í lífi einnar þjóðar sem býr við slík höft þar til stórsér á efnahagslegri afkomu hennar.

Virðulegi forseti. Það mun þýða þegar fram í sækir að við munum ekki geta boðið íbúum landsins sömu lífskjör og best bjóðast í löndunum í kring. Það er kapphlaupið sem við erum í. Þess vegna verða fjárlög íslenska ríkisins meðal annars að miða að því að auðvelda okkur og undirbúa sem best afnám haftanna. Hvernig gerum við það? Jú, fyrst og síðast með því að draga úr vaxtakostnaðinum, draga úr fjármagnskostnaðinum. Það er stóra málið. Það skiptir langmestu.

Mér sýnist þær breytingar sem hafa orðið í meðförum nefndarinnar, sem hafa verið til aukinna útgjalda, ekki til þess fallnar. Á það hefur verið bent í umræðunni að enn eru fjölmargir ótaldir liðir sem munu hafa áhrif til aukinna útgjalda. Ef á að mæta þessu öllu saman, ef menn gefa sér að útgjöldin verði þessi, þarf að auka tekjurnar á móti. Og það er ekki gert nema með sköttum og gjöldum. Ég hef ekki trú á því að frumvarpið hjálpi okkur hvað varðar afnám haftanna.

En hvað með aðra þætti? Fram undan eru kjarasamningar. Það skiptir verulega miklu hvernig búið er um fjárlög þegar kemur að kjarasamningum og umhverfi þeirra, hvort fjárlögin séu til þess fallin að liðka fyrir kjarasamningum, gera þá auðveldari og tryggja að hægt sé að ná þar fram settum markmiðum.

Virðulegi forseti. Það kemur hér fram mat forseta Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á fjárlagafrumvarpinu og hvernig það snýr að verkefnum þeirra, þ.e. að ná kjarasamningum.

Virðulegi forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í forseta Alþýðusambandsins þar sem hann segir í viðtali:

„… að ljóst sé að skattahækkanirnar, þar með talið ýmsar krónutöluhækkanir, munu ýta undir verðbólgu. Það er ljóst að verðbólga hefur verið of mikil á gildistíma kjarasamninganna. Nokkrum vikum áður en við setjumst niður með atvinnurekendum tæmir ríkissjóður svigrúm fyrirtækjanna til launahækkana.“ — Tæmir ríkissjóður svigrúm fyrirtækjanna til launahækkana. Þetta er mat forseta Alþýðusambandsins.

Forseti Alþýðusambandsins veit að samhengi er á milli greiðslugetu og afkomu fyrirtækjanna og möguleika þeirra til að greiða félagsmönnum hans góð laun.

Fjárlagafrumvarpið hefði þurft að vera þannig úr garði gert að það hefði aukið svigrúm atvinnulífsins til að standa undir launagreiðslum og gera kjarasamninga. Það hefði þurft að auka svigrúmið, ekki taka það í burtu. Það er það sem er að gerast. Það er vandinn við frumvarpið að það eykur ekki getu og möguleika atvinnulífsins til að greiða laun. Setur með öðrum orðum kjarasamninga í uppnám.

Hæstv. fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á frumvarpinu hlýtur að velta fyrir sér þeirri ábyrgð sem því fylgir að leggja fyrir þingið frumvarp sem er svona vaxið. Ráðherra hefur kallað á þessi viðbrögð frá forseta Alþýðusambandsins. Það er ekkert gamanmál, virðulegi forseti, ef kjarasamningar fara upp í loft við þær aðstæður sem við búum við nú.

Virðulegi forseti. Má ég minna á að stór hluti af hagvextinum hefur komið til vegna aukinnar einkaneyslu sem meðal annars á sér rót í kjarasamningum þar sem samið var um töluvert miklar kauphækkanir á grundvelli þess loforðs og trausts á ríkisstjórnina að hún mundi standa við yfirlýsingar sínar sem áttu að vera til þess fallnar að auka hagvöxt þannig að hann stæði undir kjarabótum. Það hefur ekki verið gert. Ég þarf ekki að endurtaka yfirlýsingar forustumanna Alþýðusambandsins eða Samtaka atvinnulífsins um þann málatilbúnað. En þetta er nýtt. Þetta er staða sem upp er komin þegar menn sjá framan í fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út eftir að fjárlaganefnd hefur farið höndum um það og búið að taka inn hækkunina og þegar menn sjá framan í tekjutillögur ríkisstjórnarinnar, að búið sé í raun að tæma svigrúm fyrirtækjanna til launahækkana. Þetta eru skilaboðin frá ríkisstjórninni til launamanna á Íslandi, að hún með frumvarpi sínu hefur tæmt svigrúm fyrirtækjanna.

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur leggur ekki þetta mat fram. Það er ekki stjórnarandstaðan sem leggur þetta mat fram. Það er forseti Alþýðusambands Íslands. Þetta er mat hans og vitnisburður um hina norrænu velferðarstjórn sem tæmir svigrúm fyrirtækjanna til að borga hærri laun. Það hlýtur að vera alvarlegt mál.

Virðulegi forseti. Aftur að verðbólguþætti málsins og samþættingu ríkisfjármálanna við stefnu Seðlabankans. Þær hækkanir sem verið er að leggja upp með eru til þess fallnar að valda hækkun á verðbólgu; krónutöluhækkanir og skattahækkanir. Þær munu líka hækka lán heimilanna og gera þeim erfiðara fyrir að standa við skuldbindingar sínar á sama tíma og þau skilaboð koma að ekki verði hægt að hækka launin. Með öðrum orðum, hækkun á verðbólgu, meiri verðbólga og ekki svigrúm til launahækkana. Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Það þýðir bara eitt, skert lífskjör, ekkert annað. Þetta þýðir skert lífskjör.

Það sem frumvarpið hefði þurft að gera, ef svo má að orði komast, virðulegi forseti, var að tryggja samræmi á milli stefnu Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Kallað hefur verið eftir því að komið sé á einhvers konar formlegri fjármálareglu sem reglubindi með einhverjum hætti samþættingu ríkisfjármála og stjórnar peningamála. Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og benda á tillögur sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur lagt fram á þinginu um það hvernig slík regla gæti litið út, með hvaða hætti hún ætti að vera byggð upp, hvernig hún ætti að vera hugsuð. Ég tel að það yrði mjög til bóta að skoða það hvernig fjárlagafrumvarpið liti út ef slíkri reglu yrði beitt og hvernig það þá mundi spila saman við stefnu Seðlabankans.

Það hefur nefnilega farið svo, virðulegi forseti, að sá forni fjandi, víxlverkan launa og verðlags, hefur látið á sér kræla aftur. Forustumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins hafa varað við þessu ítrekað og eindregið og sagt: Þið eruð að fara út af, þið eruð að fara út af með þetta. Þið eru að lenda aftur í sömu stöðu og við vorum í fyrir daga þjóðarsáttarinnar. Þegar laun hækka vegna þess að verðlagið hækkar, sem kallar aftur á verðlagshækkanir, sem kallar aftur á launahækkanir. Og eftir stöndum við án þess að bæta kaupmáttinn nokkurn skapaðan hlut.

Það er hættan. Og þetta er það sem hefur verið að gerast og við því þarf að bregðast. Frumvarpið bregst ekki við því. Það bregst ekki við þeirri hættu. Þvert á móti magnar það hana upp, það magnar hættuna upp.

Auðvitað verður það krafa af hálfu Alþýðusambandsins í kjarasamningum að menn bæti upp verðlagsþróunina, það er óumflýjanleg krafa. Ef á að fara aftur þá leið eða á að vera mögulegt að rifja upp gamla tíð og segja sem svo: Við þekkjum þessa þróun, við þekkjum þá sögu, við megum ekki fara þarna niður, við megum ekki gera þetta svona, við megum ekki fara að hækka launin til að keppa við verðbólguna, þá verður að liggja fyrir, til að það verði trúverðugur málflutningur, efnahagsstefna sem byggir á allt öðru en því sem við höfum fyrir framan okkur. Það verður að vera til staðar efnahagsstefna, eins og sú sem kallað var eftir af hálfu atvinnulífsins og af hálfu Alþýðusambandsins, sem átti að vera grundvöllur undir þeim launahækkunum sem um var samið síðast. Það þarf að vera. Eitthvað í þá áttina hefði það þurft að vera þannig að hagvöxtur hefði verið borinn uppi af fjárfestingum á síðustu árum sem nú væru farnar að skila sér í auknum kaupmætti. Fjárfestingar á árinu 2010, 2011 og 2012, þegar fjárfestingar voru algjörlega í fullkomnu frostmarki, þegar var tækifæri, því að þau voru til staðar, til að keyra upp fjárfestingarnar á þeim tímapunkti. Það var tækifæri sem við Íslendingar áttum umfram flestar aðrar þjóðir sem fást við afleiðingar af efnahagsáföllum og bankakreppum nú um mundir, vegna þess að ríkissjóðurinn var skuldlítill, nærri því skuldlaus þegar áfallið reið yfir. Hér er sterkt lífeyrissjóðakerfi en það sem skiptir mestu máli eru miklar náttúruauðlindir sem voru til þess fallnar að geta veitt innspýtingu inn í hagkerfið þegar mest á reið. Það tækifæri var ekki nýtt. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessum vanda núna.

Virðulegi forseti. Launahækkanir verða að eiga sér stoð og grundvallast á aukinni framleiðni. Það er algjört lykilatriði. Launahækkanir sem byggja á því að bregðast við verðlagshækkunum skapa engan kaupmátt og í raun og veru grafa þær undan efnahagslegri velmegun. Þá sögu þekkjum við allt of vel. Ég trúi því ekki að hún sé að falla í gleymsku. Ég trúi því ekki.

Fjárlagafrumvarpið styður ekki við afnám haftanna. Það styður ekki við peningamálastefnu Seðlabankans. Það styður ekki við að ná saman kjarasamningum og auðveldar ekki gerð þeirra. En styður frumvarpið við hagvöxt? Mun það ýta undir hagvöxt? Mun það hjálpa okkur að vaxa? Svarið er því miður nei.

Ég hlýt að staðnæmast, virðulegi forseti, við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hlýt að staðnæmast við hana þar sem gert er ráð fyrir 5,6 milljörðum, sem er til að reyna, eins og talað er um, að ýta undir efnahagsstarfsemina og koma hjólum atvinnulífsins betur af stað.

Virðulegi forseti. Orðalagið eitt og sér, fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, ætti að vekja menn til umhugsunar. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar byggir á því að taka fjármuni úr efnahagsstarfseminni, færa þá fjármuni inn í ríkissjóð og fjárfesta þá. Valkosturinn er hinn, að þessir sömu fjármunir séu inni í efnahagsstarfseminni og þeir sem þar starfa setji þá til verka, fjárfesti eða greiði niður skuldir. Ríkisstjórnin virðist haldin þeirri villu að hún sé betur til þess fallin að ákveða hvernig eigi að ráðstafa 5,6 milljörðum í atvinnustarfsemi en fólkið í landinu sem starfar í atvinnulífinu. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni hvernig hægt er að komast að slíkri niðurstöðu, hvernig í ósköpunum það getur gerst að ríkisstjórnin hafi fengið þá flugu í höfuðið að hún sé best til þess fallin. Vegna þess að ef svo er, virðulegi forseti, hljótum við að spyrja okkur hvers vegna í ósköpunum láta menn staðar numið við 5,6 milljarða? Af hverju ekki 10 milljarða? 20 eða 50 milljarða?

Ég minnist orða hæstv. fjármálaráðherra sem sagði að þeir fjármunir mundu skila sér margfalt til baka í ríkissjóðinn. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það sé ekki ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar að takmarka sig einungis við 5,6 milljarða úr því að trú ríkisstjórnarinnar er sú að það skili sér margfalt, úr því að gróðatækifærin eru svona augljós.

Virðulegi forseti. Það hefur reynst Íslendingum og öðrum þjóðum betur að láta þá sem starfa í atvinnulífinu meta það hvernig best er að fjárfesta. Þar liggur þekkingin. Þar er líka hvatinn réttur og það er skynsamlegra að gera það þannig. Það eru mörg vítin að varast og mörg dæmin sem hægt er að nefna um fjárfestingaráætlanir ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að rifja upp, þótt freistandi sé, áætlanir um fjárfestingar í refabúum, laxeldi og öðru slíku í gegnum tíðina.

Augljóst má vera, virðulegi forseti, að sú áhersla, þessi nálgun, stenst enga skoðun og er ekki til þess fallin að efla hagvöxt í landinu. Af því að þessir peningar koma einhvers staðar frá, virðulegi forseti. Það er svo nauðsynlegt að skilja það að þeir eru teknir einhvers staðar frá. Þeir sem höfðu þá áður í sínum höndum og veltu fyrir sér að fjárfesta þá eða greiða niður skuldir gera það þá ekki og í staðinn ætla ráðherrar í ríkisstjórninni að setjast niður og finna arðbær verkefni fyrir þessar sömu fjárhæðir. Enn og aftur, hvers vegna í ósköpunum á þá ekki að auka þessa upphæð úr því það er hægt? Af hverju að staðnæmast við 5,6 milljarða?

Virðulegi forseti. Þegar horft er til lengri tíma og við ræðum hagvöxt er það svo að mikilvægasta fjárfestingin sem við getum ráðist í, sú langmikilvægasta, er menntun. Það er engin ein fjárfesting að mínu mati sem skilar samfélaginu meiru en menntun einstaklinga, menntun fólksins, menntun sem flestra. Menntun, menntun og aftur menntun. Hvers vegna? Öll efnahagsstarfsemin nú byggir á þekkingu, vísindum og menntun. Þess vegna skiptir svo miklu fyrir okkur að reyna hvað við getum að tryggja það að við séum samkeppnishæf við aðrar þjóðir hvað þetta varðar. Bent hefur verið á, virðulegi forseti, að það er vandamál hjá okkur og það vandamál felst í því að við erum ekki að fjárfesta nægilega vel í háskólastiginu. Mikið vantar upp á það.

Nú er það svo, virðulegi forseti, og það er alveg rétt sem oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól, að það eru erfiðir tímar fyrir ríkissjóð. En hér hafa líka verið rakin fjölmörg verkefni sem auðvitað má setja spurningarmerki við. Ég ætla ekki að gera það nema að því leytinu til að ég stenst ekki þá freistingu að rifja það upp þegar tekin var ákvörðun á síðasta þingi að taka langleiðina í 10 milljarða út úr ríkissjóði, sem var rekinn með halla og átti þá peninga ekki til, og taka verkefni sem var ekki á samgönguáætlun í forgangi. Ég er að tala um Vaðlaheiðargöngin, virðulegi forseti, taka það verkefni út fyrir samgönguáætlun, taka það fram fyrir til dæmis Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, á þeirri forsendu að fjárfestingin mundi skila sér til baka til ríkissjóðs á nokkrum árum og áratugum jafnvel. Um það voru áhöld og stór hvort yfir höfuð slíkir útreikningar ættu rétt á sér, hvort þessir peningar kæmu nokkurn tímann aftur til baka inn í ríkissjóð. Látum það nú vera, virðulegi forseti. Ég er ekki á móti framkvæmdinni, ég vil ekki að það misskiljist, það er ágætisframkvæmd að gera göng undir Vaðlaheiði, en þá á bara að gera það í þeirri röð sem lagt er upp með í samgönguáætlun. En af því framgangur málsins var sá að það verkefni var tekið út fyrir samgönguáætlun vegna þess að um var að ræða fjárfestingu sem mundi skila sér í ríkissjóð, ásamt auðvitað því að um er að ræða samgöngubætur, þá er spurningin þessi: Hver er forgangsröðunin? Hver er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að fjárfestingum? Við þurfum að byggja vegi. Þess vegna höfum við vegáætlun. En við þurfum að mennta þjóðina. Það vantar fjármuni inn á háskólastigið.

Virðulegi forseti. Ég hefði talið að ef á annað borð var búið að taka ákvörðun um að taka langleiðina í 10 milljarða til að setja í fjárfestingu sem ætti að skila sér til baka til ríkissjóðs hefði verið miklu skynsamlegra að taka þá fjármuni og leggja inn á háskólastigið, auka framlög til háskólanna til næstu ára þannig að við værum í það minnsta að styrkja okkur í samkeppni við aðrar þjóðir og að ungt fólk á Íslandi fengi sömu tækifæri til mennta og ungt fólk í öðrum löndum í kringum okkur. Það hefði verið betra að setja þá fjármuni í menntakerfið, miklu, miklu betra, og hefði skilað sér betur til baka. Ég er sannfærður um það.

Það er nefnilega þannig að ef okkur tekst ekki að veita ungu fólki á Íslandi sömu menntun og ungu fólki í öðrum löndum þá mun það fara svo að lífskjör á Íslandi munu ekki vera sambærileg við það sem best gerist í kringum okkur. Það er samhengi á milli menntastigsins og efnahagslegrar velmegunar.

Virðulegi forseti. Það líður að lokum ræðutíma míns. Ég hef farið yfir það og reynt að leggja eitthvert mat á þetta frumvarp til fjárlaga, og um er að ræða samþættingu við Seðlabankann og peningamálastjórn, hvort það sé til þess fallið að liðka fyrir kjarasamningum, draga úr verðbólgu eða auðvelda okkur í framtíðinni að afnema höftin, þá er niðurstaðan sú sama. Frumvarpið einkennist, því miður, fremur af kosningum sem verða næsta vor og undirbúningi ríkisstjórnarflokkanna fyrir þær. Þeir þættir sem ég lýsti áðan hafa verið settir til hliðar og það er ekki ábyrgt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að halda þannig á málum. Það er ekki ábyrgt að leggja fram fjárlagafrumvarp með þeim hætti þegar staðreyndin er sú að ríkissjóður er of skuldugur, fyrirtækin í landinu er of skuldug og heimilin í landinu er of skuldug. Við þurfum á að halda öflugum hagvexti, (Forseti hringir.) framleiðniaukningu og fjárfestingu.