141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

lögmæti verðtryggingar.

[15:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra misskilur spurninguna. Ég veit vel að innanríkisráðherra má ekki koma nálægt dómsmálum. Ég var fyrst og fremst að spyrja að því hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni að fá þetta álitaefni leyst hjá ESA vegna þess að ríkisstjórnin getur leitað til Eftirlitsstofnunarinnar með ýmis álitamál. Ég var ekki að biðja um að hæstv. innanríkisráðherra færi að skipta sér af dómsmálum.

Við stöndum á alvarlegum tímamótum varðandi heimilin. Mér finnst það skilyrðislaus krafa almennings í landinu að framkvæmdarvaldið leiti allra leiða sem hægt er að leita til að leysa skuldavanda heimilanna. Þess vegna spyr ég á ný: Hvers vegna hefur framkvæmdarvaldið ekki leitað þessa álits þar sem það er skylda að halda þennan fund einu sinni á ári þar sem öll möguleg álitaefni er varða ríkið, sem eru bundin í þessum samningi, mega vera til umræðu? Er ekki tímabært að biðja um að þessu máli verði flýtt þarna úti?