141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar þetta var allt saman í deiglunni var ég þeirrar skoðunar að Byggðastofnun hefði átt að koma inn í verkefnið. Ég var þeirrar skoðunar. Ég reyndi að beita mér fyrir því, talaði m.a. við fjármálaráðherra oft og mörgum sinnum um þetta mál, hvort það væri virkilega ekki hægt að beita Byggðastofnun til að af þessu verkefni mætti verða. Eins og við vitum er hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra ákaflega viðtalsgóður maður, en það kom nú ekki mikið út úr því. En ef Byggðastofnun hefur einhverju hlutverki að gegna er það svona hlutverk. Ég geri greinarmun á því að fjárfesta eða að Byggðastofnun láni til verkefna sem leiða til þess að byggðaþróun geti verið eðlileg og því að ríkið komi beint að hlutunum eins og gerðist við uppbyggingu allra stóriðjuverkefna á Íslandi og þarf að verða á Bakka. Ég geri greinarmun á því. Þannig að markaðsforsendurnar eru ekki þær ströngustu þegar Byggðastofnun kemur að verkefnum, en samt sem áður getum við sagt að þær nálgist markaðinn mjög mikið. En mér fannst afar slæmt að þáverandi fjármálaráðherra skyldi ekki vilja beita sér fyrir því að þetta yrði gert.