141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og það er fullkomlega eðlilegt að fjárlaganefnd taki það mál til skoðunar á milli umræðna og kallað verði eftir því. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram að það sé áætlað að arðgreiðslur verði 13,5 milljörðum hærri en í frumvarpinu og er þar einkum og sér í lagi fjallað um arðgreiðslur úr Landsbanka Íslands.

Síðan er gert ráð fyrir því að alla vega um helming af því, 5,6 milljörðum, verði varið til fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem felur meðal annars í sér þau verkefni sem hv. þingmaður nefndi, Græna hagkerfið o.s.frv.

Á sama tíma og við ræðum það á þessum nótum, það er fjallað um að það sé mögulegt að ráðast í fjárfestingaráætlun vegna arðs sem við erum að fá, borgum við tugi milljarða í vaxtakostnað vegna þess að ríkissjóður er rekinn með miklum halla. Það standast engar áætlanir sem gerðar voru 2009 um það hvenær ætti að ná skuldastöðu ríkissjóðs meira niður. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Er hann sammála því, sem fjölmargir hafa haldið fram, að fjárlögin og breytingartillögur meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið beri töluverðan keim af því að kosningavetur sé fram undan og menn séu hérna að henda fram ýmsum tillögum sem eru fremur til þess fallnar að kaupa til baka einhver atkvæði á kosningavetri? Er hv. þingmaður sammála þeirri nálgun sem hefur komið fram í máli margra í umræðunum, að þær tillögur beri einkum merki þess að kosningar séu í nánd?