141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór til dæmis yfir valdaframsal á fjárveitingavaldi Alþingis sem felst í því sem gerist við samþykkt þessa frumvarps, verði það að lögum. Í ræðunni fór hv. þingmaður meðal annars yfir þessar ótakmörkuðu heimildir og mokstur á ríkisfé inn í ráðuneytin, samanber að þarna er verið að stofna einhverja sjóði og grænt hagkerfi og svo og svo margir tugir milljóna fara í forsætisráðuneytið vegna þess. Líklega er þetta rakið til sóknaráætlunar 20/20 eins og hún var kölluð og á sér spegilmynd í Evrópusambandinu.

Þar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur setið í fjárlaganefnd alveg frá 2009 langar mig að spyrja hann um þá meginreglu sem fjárlaganefndarmönnum er falið að fylgja, þ.e. að það frumvarp sem lagt er fram um fjárlög ríkisins skuli vera sem skýrast. Er það ásættanlegt fyrir þingmenn sem bera ábyrgð á fjárveitingavaldinu að færa til svo mikið fjármagn yfir í svokölluð gæluverkefni ríkisstjórnarinnar án þess að sérstaklega sé getið um í hvað það fari nákvæmlega undir þessum liðum í ráðuneytunum? Þingmenn vita raunverulega ekki við samþykkt frumvarpsins hvernig viðkomandi ráðherrar ráðstafa því fé sem þeim er falið með lagafrumvarpi þessu.