141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnar Braga Sveinssyni fyrir ágæta ræðu hér áðan. Ég get tekið undir stærstan hluta af því sem þar kom fram. Hv. þingmaður hafði ákveðnar efasemdir um fjármögnun verkefna sem heyra undir fjárfestingaráætlunarhlutann í fjárlögunum, ef ég skildi hann rétt, þ.e. með veiðigjaldið, arðgreiðslur og sölu eigna. Ég get alveg tekið undir að það er ekki allt í hendi enda kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og tillögum meiri hlutans að þannig er. Til dæmis varðandi veiðigjaldið, reyndar hluta af veiðigjaldinu því það á ekki að renna allt í fjárfestingaráætlunina, þá er það breytingum háð. Arður af stórum fyrirtækjum eins og Landsbankanum, við í fjárlaganefnd funduðum reyndar með bankastjóra Landsbankans sem sagði að hægt væri að taka meiri arð út úr fyrirtækinu og auðvelt að selja meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu ef menn vildu en sala á öðrum eignum er sömuleiðis ákveðinni óvissu háð. Það er ekki verið að draga dul á. Ég held að við eigum að hafa í huga við afgreiðslu fjárlaganna að svona er það og kannski ekki hafa áhyggjur af því sem slíku heilt yfir heldur fyrst og fremst hafa á bak við eyrað að ekki er víst að allt gangi eftir þótt við teljum okkur vera að reyna að gera raunhæfa áætlun um það sem geti hugsanlega eða væntanlega gengið eftir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans til fjárfestingaráætlunar af því tagi sem er lögð fram. Ekki kannski endilega einhver sérstök verkefni út af fyrir sig heldur hvort rétt sé að gera, í því ástandi sem við erum núna, einhverja sérstaka áætlun um fjárfestingar í landinu, (Forseti hringir.) bæði í innviðum samfélagsins og með öðrum hætti.