141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við þá umræðu sem hér hefur farið fram um stöðu 2. umr. fjárlaga. Í fyrsta lagi er ágætt að minnast þess að í 67. gr. þingskapalaga okkar er gert ráð fyrir því að ræðutími við 2. umr. fjárlaga sé tvöfaldur. Þess vegna er þegar af þeirri ástæðu hægt að gera ráð fyrir því fyrir fram að sú umræða standi lengur en venja er um hefðbundin þingmál.

Ef menn skoða hina efnislegu umræðu sem hér hefur farið fram sjá þeir að sjálfsögðu að það hefur verið fullt tilefni fyrir stjórnarandstöðuna til að færa fram athugasemdir. Ég get nefnt nokkra þætti sem við höfum tekið til ítarlegrar umfjöllunar og talið fullt tilefni til.

Í fyrsta lagi þetta: Málið var tekið út úr fjárlaganefnd áður en tekjuhlið fjárlaganna var lögð fram í þinginu, áður en gerð var grein fyrir því hvernig ætti að spila með tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Áður en það var lagt fyrir var málið tekið út úr fjárlaganefnd. Það er harla óvanalegt. Nú hefur enn ekki verið mælt fyrir tekjuhlið frumvarpsins á þingi, en menn krefjast þess að 2. umr. verði lokið. Þetta er eitt augljóst atriði.

Annað er auðvitað umsagnir sem bárust víða að úr samfélaginu, t.d. frá ASÍ sem benti á að fjárlagafrumvarpið væri verðbólguhvetjandi. Er það tilefni fyrir okkur á þessum tímum að staldra við þegar slíkar athugasemdir berast út af fjárlögum næsta árs, verðbólguhvetjandi sem geta sett kjarasamninga í uppnám, og velta því fyrir okkur í umræðunni í þinginu hvort við því þurfi að bregðast? Já, að sjálfsögðu.

Svo er verið að sópa undir teppið, eins og bent hefur verið á, ýmsum stórum fjárlagaliðum. Íbúðalánasjóðs er ekki getið. Ríkisendurskoðandi bendir á að 10 milljarða vanti upp á þegar áfallnar skuldbindingar hjá LSR og svo mætti áfram telja, lögregluna og fleiri stóra liði eins og Landspítalann. (Forseti hringir.) Svo miklu hefur verið sópað undir teppið í Stjórnarráðinu að sumir segja að það geti ekki allir staðið uppréttir þar lengur. [Hlátur í þingsal.]