141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti 2. umr. að fara fram 22. nóvember. Hún var færð til 29. nóvember og 3. umr. átti að fara fram 4. desember, í dag.

Á fundi fjárlaganefndar 26. nóvember voru teknar út breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar. Þá voru þrír nefndadagar fram undan. Það hefur því ekki gefist neitt tækifæri (Gripið fram í.) til að ræða þessar breytingartillögur nema eftir að 2. umr. fjárlaga hófst vegna þess að á nefndadögum voru breytingartillögurnar ekki ræddar. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kallar fram í að þetta sé rangt. Þessar breytingartillögur voru teknar út úr fjárlaganefnd mánudaginn 26. nóvember. Það voru ekki fjárlaganefndarfundir tvo daga á eftir og síðan hófst 2. umr. fjárlaga. (Gripið fram í: … tillaga … viku.) Það er rangt. (Gripið fram í.) Við sáum tillögurnar 26. nóvember þegar þær voru teknar út. Við höfum aldrei fengið þær í hendur í því formi sem þær voru í.

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það að mörgu þarf að breyta í þinginu, bæði í umræðuhefð, frammíköllum og framkomu. Við skulum þá reyna að gera það á þann hátt að hver og einn líti í eigin barm, (Gripið fram í.) ekki að við komum alltaf í pontu hvert á fætur öðru og sökum hvert annað um að einhver annar hafi sagt eða gert hlutina. Þannig næst enginn árangur, hvorki í umræðu um fjárlög né um önnur mál né til þess að auka virðingu Alþingis. Það er einfaldlega þannig.